Ég er ekki viss um hvort þessi grein eigi heima á heimspeki en læt samt slag standa. Þrátt fyrir allt þá er rökfræðin hluti heimspekinnar en viðfangsefni þessa ritkorns er nefnilega rökvillur. Í daglegri orðræðu erum við sífellt að lenda í eða verða vitni að rökræðum af ýmsum tagi. Um slíkt er ekkert annað en gott að segja enda er ábyggilega fátt sem býður upp á frjórri jarðveg fyrir ferskar hugmyndir en uppbyggileg rökræða. Á hinn bóginn verður að viðurkennast að það er algengara en ekki að menn gefi fljótlega rökin upp á bátinn og fari einfaldlega að þræta, en ekkert er að mínu mati hvimleiðara.
Það fyrsta sem menn geta tileinkað sér til þess að laga þetta er að sneyða fram hjá svokölluðum rökvillum sem virkar eins og salt í jarðveg hugsunar. Í máli meðalmannsins er allt morandi í slíkum rökvillum. Þær snúast í raun um það að maður reynir að leggja einhverjum málstað lið með því að bjaga sannleikann. Það gerist þegar maður kastar rökunum og grípur til ýmissa algengra loddarabragða sem líta út eins og rök en beinast í raun að því að slá viðmælandann af laginu.
Það má segja að með tilkomu netsins hafi þörfin fyrir þekkingu á þvílíku aldrei verið meiri. Því fer fjarri að ekki sé hægt að verjast manni sem bregður fyrir sig rökvillum enda þær í eðli sínu oftast frekar keimlíkar og yfirleitt nóg að þekkja þær og geta bent á þær, en þá snúast þær upp í andhverfu sína.
Með hjálp fáeinna vefsíðna (sjá aftast) ætla ég að telja um nokkrar algengustu rökvillurnar.
* Fyrst ber að nefna rökvillu sem er á erlendum tungum oft kölluð ad hominem. Það er latína og þýðir: gegn manninum. Rökvillan felst í því að til þess að leggja einhverjum málstað lið notar ræðumaðurinn málflutning sem höfðar til fordóma eða hagmuna fremur en skynsemi. Þetta er sérlega algeng og lýsir sig meðal annars í því þegar menn nota tækifærið í rökræðum til að ráðast á persónu viðmælandans í stað þess að vera málefnalegur. Þetta gerist oft þannig að ræðumaður segir fullyrðingu andstæðingsins ógilda vegna þess hvað andstæðingurinn hefur gert í fortíðinni, eða vegna þess að þau eru í mótsögn við það hvernig andstæðingurinn hagar sér, þó í rauninni segi þessi atriði ekkert til um sannleiksgildi fullyrðingarinnar.
* Kredduvald. Stundum ber það við að þátttakandi í rökræðum þykist ráða einhvern vegin yfir ákveðnu viðfangsefni. Þar af leiðandi hljóti allar fullyrðingar viðkomandi um viðfangsefnið að vera sannar. Dæmi gæti t.d. verið þannig að þar sem ég á bílinn minn þá hljóti ég þ.a.l. að vita allt um hann mikið betur en þú, þótt það þurfi ekkert endilega að vera satt. Þetta á t.d. mjög vel við ýmsar kennisetningar kirkjunnar.
* Trúarvísun. Þessi rökvilla lýsir sér þannig að ræðumaður grípur til þess ráð að vísa til þess að málstaðurinn sé útbreidd trú í samfélaginu og þ.a.l. hljóti hann að vera réttur. Það hversu margir trúa einhverju segir hins vegar í rauninni ekkert um sannleiksgildi þess. Af sama meiði er það þegar menn vísa til þess að ákveðin athöfn eða málstaður sé algengur og viðgangist víða og hljóti því að vera satt.
* Óskhyggja og ótti við afleiðingar. Margir virðast halda að einhver fullyrðing sé sönn (eða ósönn) því ef maður afneiti því þá fylgdi í kjölfarið slæmar afleiðingar. „Nei, auðvitað myndi ég aldrei ganga undir stiga, hver veit hvaða afleiðingar það hefði í för með sér?“ Jafnframt litar óskhyggjan oft álit okkar og margir sem eru meira að segja svo kræfir að segja að eitthvað hljóti að vera satt því þeir vilja að það sé satt.
* Tilfinningatengsl. Sumir halda því fram að þar sem einhver málstaður tengist í huganum góðum eða hagstæðum tilfinningum þá hljóti hann að vera réttur. „Kettir drepa aldrei fugla, þeir eru svo sætir.“ „Sonur minn gæti ekki verið í dópinu, hann er svo góður strákur.“
* Ógnartengsl. Mönnum finnst þeim stafa ógn af einhverju. Það er notað til þess að réttlæta eitthvað annað (getur þess vegna verið ótengt). „Heyrðu kennari, ég á skilið 10 á þessu prófi er það ekki? Þú veist að pabbi minn er skólastjórinn.“
* Ýmis önnur tengsl. Menn nota oft daður, vorkun, hefnigirni, hefðir, hæðni, vinsældir eða margt annað til þess að styrkja málstað sinn í rökræðum á sama hátt og með ógnartengslunum. Þess háttar lúaleg orðræða er til þess að fallinn að renna stoðum undir einhverja vitleysunum og er þess vegna rökvillubragð.
* Hópþrýstingur. Hópþrýstingur eða hótun um útskúfun bjagar oft afstöðu fólks til sannleikans. Það beitir rökum sem það hefði annars ekki gert. Þar fær skynsemin oft að víkja.
* Gallaðar forsendur. Ekki er óalgengt að menn grípi til gallaðra forsenda, þar sem forsenda felur í sér að fullyrðing er sönn og er þess vegna ótæk. Dæmi gæti verið á þennan veg:„Guð er til því það stendur í biblíunni og allt sem stendur í biblíunni er satt því guð sjálfur skrifaði hana.“
* Hlutdrægt dæmi notað til stuðnings. Það er með öllu ótækt að menn reyni að skjóta stoðum undir skoðannir sínar eða fullyrðinga með því að grípa til dæma sem er greinilega ekki hlutlæg og bera jafnvel vitni um fordóma. „Pólverjar eru plága á þjóðinni. Einn þeirra t.d. rústaði bílnum mínum með kúbeini.“
* Yfirfærð sönnunarbyrði. Fólk leitast ósjaldan við að taka sönnunarbyrði málstað síns og snúa henni á hvolf og velta henni yfir á hinn málstaðin án þess að nokkur ástæða sé til þess. „Þú spyrð mig hvort ég geti sannað tilvist guð, en ég spyr þig á móti, getur þú afsannað tilvist hans?“ Þarna hefur óréttmæt sönnunarbyrði verið umsnúið, því auðvitað er það ekki byrði efasemdarmannsins að þurfa afsanna tilvist guðs, ekkert frekar en hann þarf að afsanna tilvist einhyrninga.
* Ad hominem sem ræðst af aðstæðum. Oft þykjast menn geta rifið niður rök mótaðilans með því að vísa til þeirra aðstæða sem umræddur er í. „Það er ekkert mark á þér takandi í umhverfismálum, ég veit að amma þín er í vinstri grænum!“
* Að taka hlut fyrir heild. Oft lenda menn í þeim fúla pytti að eigna hópi fólks eiginleika einstaklings. Bara vegna þess að einn pólverji er illalyktandi og með rauð augu væri fráleitt að halda því fram að allir pólverjar væru illalyktandi og með rauð augu.
* Að rugla orsök og afleiðingu. Oft þegar tveir atburðir gerast iðulega í kjölfar hvers annars hrapa menn gjarnan á þá ályktun að annað sé orsök og hitt afleiðing. „Farfuglarnir koma alltaf til Íslands fljótlega áður en snjórinn hverfur. Líklega eru það farfuglarnir sem láta snjóinn hverfa.“ Þetta tengist oft því þegar menn sjást yfir sameiginlega orsök. Það þegar menn álykta að einhver atburður sé orsök annars atburðar, þótt ekkert tengið þá annað en að gerviorsökin á að hafa gerst á undan hinum, þá er það kallað post hoc, en nafnið er dregið úr latínu.
* Að taka heild fyrir hlut. Eiginleikar heildarinnar er gjarnan (og ekki að ósekju) eignuð hlutum hennar. Það þarf hins vegar ekki endilega að vera rétt. T.d. er ekki víst að þótt bolti sé blár séu öll atóm hans blá. Jafnfram gæti alveg vel verið að þótt Bandaríkjamenn noti mun meiri rafmagn en Úganda að Mr. John American noti talsvert minni rafmagn en Búbúbabí Úgandakeisari.
* Villandi uppsetning. Það kemur fyrir að menn segi sem svo að nú séu X og Y
annaðhvort rétt eða rangt. Svo kemur í ljós að Y er rangt og þá er fullyrt að X hljóti að vera rétt. Það er ekkert nema villandi framsetning á dæminu.
* Rökvilla fjárhættuspilarans. Fjárhættuspilarinn segir oft að atburður sé háður öðrum atburði líkindafræðilega séð, þótt það sé ekki raunin. Hann heldur því fram að eftir að atburður á sér stað lengur þá aukist líkurnar á því að honum ljúki. Ég hef t.d. oft rifist við mömmu mína varðandi efni. Hún heldur því fram að eftir því sem hún hafi spilað lengur í lottóinu þeim mun meiri líkur verði á því að hún muni vinna. Sama hvað ég reyni að ræða við hana, í þessum efnum tekur hún einfaldlega ekki rökum (við könnumst örugglega öll við fjölmörg slík dæmi, misalvarleg þó).
* Erfðafræðilega rökvilla. Oft á tíðum vill fólk arfleiða mönnum eiginleika sem hefur ekkert með sannleiksgildi að gera. „Pabbi hans var mikill óreglumaður, ætli hann sjálfur sé ekki líka dálítið gefinn fyrir sopann.“
* Þáttur áhanganda málstaðar. Áhangendur málstaðar eiga í sjálfu sér ekkert með sannleiksgildi málstaðarins að gera. Jafnvel þótt þér líki illa við forsvarsmenn einhvers sjónarmið ætti það ekki að ógilda sjónarmiðið. Sumir nýnasistar hvetja menn til að sofa meira því það er heilsusamlegra. Ég held að enginn geti mótmælt því, þótt manni sé meinilla við nýnasista.
* Að hrapa að ályktun. Það er mjög algengt að menn séu fullfljótfærir að draga ályktun um ákveðin hlut, án þess að vera búin að kynna sér hann nógu vel til að geta fullyrt almennt um hann.
* Meðalgildisreglan. Til eru dæmi þess að þegar menn standi fyrir tveimur mjög öfgafullum málstöðum að þeir álykti sem svo að miðjumálstaður sem er stendur mitt og milli og er blanda af báðum sé alltaf skásti kosturinn. Sannleikurinn er náttúrulega sá að það þarf ekkert endilega að vera. Miðjukosturinn gæti þess vegna verið þannig úr garði gerður að hann taki einmitt það versta ú báðum flokkum og steypi því saman. Það kann aldrei góðri lukku að stýra.
* Áhrifamikil dæmi. Fólk lætur oft áhrifamiklar undantekningar ráða frekar för sinni en tölfræðilegum sannindum. Þetta er t.d. eins og þegar menn ákváðu að sleppa því að fara í flugvél eftir að hafa orðið fyrir áhrifum frá atburðunum ellefta september og ákváðu að fara freka í skipi, þótt mun fleiri farist hlutfallslega á sjó en í lofti árlega.
* Beinar persónulegar árásir. Í stað þess að grípa til raka fyrir máli sínu taka þeir oft til við að hefja beinar persónulegar árásir á andstæðingin. Þetta er ad hominem að því leiti að persónulegu árásirnar þurfa ekkert að tengjast málefninu sem um er rætt. „Guðjón er á móti kvótakerfinu en skyldu vera margir sem vita að Guðjón gengur líka með hárkollu?!“
* Að eitra brunninn. Hver kannast ekki við það að hafa fengið í hendurnar leiðinlegar upplýsingar varðandi einhverja manneskju og eftir það lita þessar upplýsingar allar manns skoðanir á manneskjunni. Ef ég t.d. þoli ekki dönskukennarann minn eru meiri líkur á því að ég lýsi því yfir að eitthvað sem hún segi sé vitleysa, án þess að vita það í raun.
* Red Herring er þessi ein rökvilla kölluð á útlensku en það þýðir á íslensku rauð síld. Rauða síldin felst í því að menn forðast að færa rök fyrir máli sínu með því að skipta um umræðuefnið á lævíslegan hátt, t.d. með því að kynna annað viðfangsefnið sem lítur út fyrir að vera tengt umræðuefninu en kemur svo á daginn að það er það alls ekki. Við vitum hins vegar öll að þetta svona löguð undanbrögð eru ekkert nema rökþrot.
* Afstæðisrökvillan. Margur hefur í gegnum tíðina reynt að skjóta sér undan almennum reglum og segja að þótt eitthvað gildi fyrir flesta aðra þá þurfi það ekki endilega að gilda fyrir hann. Þessu má maður ekki kyngja nema krefjast frekari skýringa.
* Pössum okkur á að detta ekki og renna niður hina glerhálu brekku: Þótt ýkjur séu skemmtileg stílbrögð í skáldskap oft á tíðum þá getur það oft leitt af sér ansi hæpnar fullyrðingar í rökræðum. „VÁ! Þeir eru farnir að rukka 800 krónur fyrir miðann. Einu sinni kostaði hann ekki nema 650 kr. Ég man þegar bíómiðinn kostaði ekki nema fimmtíukrónur!“ eða „Hann er að reyna að leggja höndina á öxlina á mér… hann vill ábyggilega bara komast upp í rúm með mér.“
* Allir nema ég-rökvillan. Við samþykkjum gjarnan að einhver viðtekin sannindi eigi undantekningarlaust að gilda en gerum samt ekki ráð fyrir sjálfum okkur. „Auðvitað eiga allir að nota bílbelti alltaf. Af hverju er ég þá ekki í bílbelti núna? Ég var nú bara að flýta mér svo mikið, það er ekki eins…“
* Kastljósið. Ákveðnir eiginleikar hluta sem eru mikið í kastljósinu, eins og t.d. stöðugt í umfjöllun í fjölmiðlum, eru meira áberandi en aðrir eiginleikar sama hluts, þótt þeir séu ekki síður algegnir/mikilvægir. T.d. mætti oft halda að Lögreglan á Blöndósi gerði ekki annað en að stunda hraðamælingar á utanbæjarbílum, eins og maður heyrir oft um í fréttunum á sumrin. Það þýðir samt ekki að það sé raunin, ég veit einfaldlega ekki betur, heldur litast álit mitt af kastljósinu.
* Átyllan. Menn sem eru að reyna að koma höggi á einhvern málstað búa oft til eigin útgáfu af sannleikanum, ráðast á málstaðin frá þeirri forsendu og telja sig hafa hrakið málstaðin. Dæmi: „Háttvirtur þingmaður vill losa um hömlur á innflytjendastefnu Íslands og leyfa unglingum undir 17 ára að flytja til landsins með foreldrum sínum. En hvað myndi gerast ef við hleyptum bara öllum inn í landið? Allir myndu missa vinnuna og hallæri skylli á! Nei, þetta er vitaskuld kolómöguleg tillaga.“
* Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Margir vilja halda því fram að ef eitthvað hafi verið gert á hlut þeirra eigi þeir meiri heimtingu á að gera á hlut einhverra annarra. Það er vandséð hvernig á að fara að því að réttlæta þetta. “Two wrongs dont make a wright!”
Ég læt hér staðar numið en vona að einhver hafi haft gaman af þessari bjöguðu kynningu minni á þrætubók. Ég vona að minnsta kosti einhver sé héðan í frá betur í stakk búin til þess að uppræta svona undanbrögð í komandi ritdeilum sínum hér á Huga í framtíðinni.
Ég vil síðan nota tækifærið hér í greinarlok og lýsa andúð minni á því að fólk sé að upphefja keppnir þar sem með eindæmum léleg tónlist er hafin upp til skýjanna.
—
http://www.wikipedia.org
http://www.nizkor.org