Til þess að útskýra meginatriðin í greinarmuni pyrrhonskrar og akademískrar efahyggju verður nú gerð í stuttu máli grein fyrir hverju afbrigði fyrir sig en síðan tekin saman í fáum orðum helstu atriðin sem skilja á milli.
Pyrrhon - Ekki meiri dogmatisti en ekki dogmatisti
- eða bæði dogmatisti og ekki dogmatisti
- eða hvorki dogmatisti né ekki dogmatisti.
Langsamlega mikilvægasta heimildin um heimspeki Pyrrhons (365/60 - 275/70 f.Kr.) er brot úr verki Tímons frá Flíos (320 - 230 f.Kr.), nemanda Pyrrhons, sem Aristókles nokkur (1. öld f.Kr. eða 2. öld e.Kr. (?)) vitnar í og varðveitt er í riti Evsebíosar (260 - 339) Praeparatio Evangelica. Þar segir að:
Tímon [segi] að hann (Pyrrhon) hafi sagt að hlutir sé jafn óaðgreinanlegir, ómælanlegir, ódæmanlegir. Þess vegna segi hvorki skynjanir né skoðanir satt eða ljúgi. Þess vegna beri okkur ekki að treysta þeim, heldur (beri okkur að) vera skoðanalaus, ósannfærð, stöðug, og segja varðandi sérhvern hlut að hann sé ekki meira (F) en ekki (F) eða bæði (F) og ekki (F) eða hvorki (F) né ekki (F).(1)
Hvað má ráða af brotinu? Fyrst ber að nefna að Pyrrhon segir hér að skynfærum okkar sé ekki treystandi vegna þess að heimurinn sé einhvern veginn þannig gerður að hann sé ómælanlegur og ódæmanlegur, en ekki öfugt, að skynfærunum sé ekki treystandi og þess vegna sé ekkert hægt að vita um heiminn.(2) Hvernig í ósköpunum getur réttnefndur efahyggjumaður haldið fram einhverju á borð við þetta um ástand heimsins? Það virðist vera að Pyrrhon sé alls ekki réttnefndur efahyggjumaður. Hann er dogmatisti. Hins vegar er hann neikvæður dogmatisti. Það sem hann fullyrðir er að þekking sé ómöguleg. Og að svo miklu leyti sem það er efahyggja má hann heita efahyggjumaður.(3) En hvernig svo sem Pyrrhon kemst að niðurstöðu sinni er hún eftir sem áður sú að okkur beri að “vera skoðanalaus, ósannfærð” og “stöðug” eða m.ö.o. við eigum að fresta dómi. Það átti að verða til þess að maður öðlaðist hugarró (ataraxia). Þeirri skoðun að dygð sé í reynd góð fylgir tilfinning (paþos) og að lokum eftirsókn eftir dygð. Þessi endalausa eftirsókn eftir einhverju, dygð eða hverju sem er, getur getið af sér angist.(4) Ef við fjarlægjum skoðunina ætti, að mati Pyrrhons, að fylgja hugarró. Látum þetta nægja um Pyrrhon í bili.
Ný viðhorf í gömlum skóla.
Árið 273 f.Kr. tók Arkesilás frá Pítane (316/15 - 242/1 f.Kr.) við stjórn Akademíunnar(5) og breyttust þá áherslur skólans. Akademían varð efahyggjuskóli. Það er ekki útilokað að Arkesilás hafi verið kunnugt um Pyrrhon og hafi lesið verk Tímons en hvergi er minnst á það í heimildum. Efahyggja akademíumanna virðist fyrst og fremst sækja innblástur sinn til Sókratesar. Sókrates var iðinn við að spyrja menn spjörunum úr og oftar en ekki endaði sá spurningaleikur án nokkurrar niðurstöðu, í aporia. Þannig enda flestar af elstu samræðum Platons; þannig endar einnig ein glæsilegasta samræðan hans, Þeætetos, sem er þó yngri samræða, en hún fjallar einmitt um það hvað þekking sé.
Það sem Arkesilás gerir er að endurlífga elenkos-aðferð Sókratesar. Hann spyr andstæðinginn í þaula og það endar með aporia. Tilgangur þessa er ekki að afsanna skoðun andstæðingsins eða að sýna fram á gagnstæða kenningu, heldur er takmarkið aporia. Það sem er snjallt við þetta er það að Arkesilás, sem spyr og knýr fram vandræðin, þarf ekki að gangast við neinni skoðun á málinu. Hann fær þetta allt fram út frá forsendum andstæðingsins. Það er því nær ómögulegt að mótmæla Arkesilási því hann hefur ekki sagt neitt sem hægt er að mótmæla. Hann lætur viðmælandann segja að að þekking sé ómöguleg eða að það beri að fresta dómi og þar fram eftir götunum. Svona rök eru nefnd díalektísk eða ad hominem. Frægt er orðið þegar Arkesilási tókst að sýna fram á að samkvæmt stóískri þekkingarfræði væri ekkert hægt að vita. Hinn stóíski vitringur játar engar skynmyndir nema þær sem birta heiminn nákvæmlega eins og hann er og sem eru skýrar og greinilegar. En svona skynmyndir eru ekki til og því játar vitringurinn engar skynmyndir og frestar þar af leiðandi dómi. Við þessu sögðu stóumenn að ef maður samþykkti ekkert gæti maður ekkert aðhafst (hin svonefndu apraxíu-rök). Þeir fengu það svar að hægt væri að fylgja því sem er trúverðugt (to eulogon).(6)
Karneades (219/18 eða 214/13 - 129/28 f.Kr.) tekur við stjórn Akademíunnar 155 f.Kr. Hann kann að hafa gert greinarmun á skoðunum og viðhorfum og haldið því fram að efahyggjumenn mættu hafa viðhorf. Eiginlegar skoðanir væru þá þær sem byggjast á rökum eða meðal annars á rökum, á meðan viðhorf væri skoðun sem byggir ekki að neinu leyti á rökum. Hins vegar kann að vera að Karneades hafi ekki gert þennan greinarmun, nema þá kannski hann hafi fengið hann út úr díalektískum rökum. En þá er engin ástæða til að eigna Karneadesi hann í þeim skilningi að þetta hafi verið skoðun hans.
Það er margt sem faranda fylgir.
Á 1. öld f.Kr. kemur fram fremur dularfullur náungi að nafni Ænesidemos. Hann mun líklega hafa verið akademíumaður í fyrstu en síðar yfirgaf hann Akademíuna sem hann sagði að væri orðin úrkynjuð stóuspeki. Því er ekki að neita að á 1. öld f.Kr. hafði Akademían linast nokkuð í afstöðu sinni (sem stóuspekin gerði reyndar einnig). Ænesidemos endurlífgaði róttæka efahyggju sem hann kenndi við Pyrrhon. Hins vegar kann að vera að þessi efahyggja eigi um margt meira skylt við heimspeki Arkesilásar og Karneadesar. Ænesidemos segir að fresta eigi dómi. Það er ekki víst hvort þettta beri að skilja pyrrhonskum eða akademískum skilningi. Hann segir enn fremur að maður skyldi fylgja sýndum (fænomenon). Þetta minnir óneitanlega á það sem Arkesilás hafði sagt um hið trúverðuga (to eulogon) og ekki ólíklegt að um bein áhrif sé að ræða. Hins vegar getur verið að Ænesidemos segi að dómsfrestunin (epoche) leiði til hamingju. Og það er frá Pyrrhoni komið en ekki Akademíunni.
Nú tekur Sextos við. Hjá honum er varðveittur pyrrhonisminn sem Ænesidemos hafði búið til. Sextos hefur í grófum dráttum fjórar tegundir raka: (1) óákvarðanleikarök, (2) aporetísk rök, (3) afstæðisrök og (4) díalektísk rök. (1) beinast gegn skynmyndum en (2) gegn kenningum. (1) og (2) eru akademísk rök og (4) er akademísk aðferð. Það er örlítið flóknara mál hvaðan (3) koma en þau eru notuð díalektískt.
Sextos talar um mikilvægi sýnda (ta fænomena). Það er ekki ljóst hvort það sé niðurstaða díalektískra raka gegn apraxíu-rökum eða hvort það samsvari hugsanlega karneadískum greinarmuni á skoðun og viðhorfi (hafi Karneades á annað borð gert slíkan greinarmun). Hann talar einnig um hugarró (sem, eins og við munum, akademíumenn gerðu ekki en Ænesidemos tók upp á að gera), en það er heldur ekki fullljóst hvort hér sé á ferðinni gamla pyrrhonska hugmyndin um hugarró eða díalektísk niðurstaða.
Samantekt
Nú er komið að því að taka saman helstu atriðin sem skilja á milli pyrrhonskrar efahyggju og þeirrar akademísku. Pyrrhon sjálfur var í stuttu máli ekki efahyggjumaður heldur neikvæður dogmatisti. Hann sagði að við ættum að fresta dómi vegna þess að heimurinn væri ódæmanlegur og ómælanlegur. Þess vegna væri skynfærunum ekki treystandi. Þegar maður gerir sér grein fyrir þessu öðlast maður hugarró.
Það sem einkennir akademíumennina er aðferð þeirra við að stunda efahyggjuheimspeki, greinarmunurinn á skoðun og viðhorfi, ef Karneades gerði þá þann greinarmun, auk þess sem allt hamingjuhjal er horfið. Þeir minnast á dómsfrestun (epoche) (sem þeir fá þó e.t.v. fram hjá andstæðingnum með díalektískum rökum) en allt tal um hugarró vantar.
Að lokum er það pyrrhonisminn þeirra Ænesidemosar og Sextosar. Eins og akademíumennirnir (og Pyrrhon sjálfur) fylgja pyrrhonistarnir skynmyndum (ta fænomena, sbr. to eulogon (Arkesilás), to piþanon (Karneades)). Það er helst hamingjuhjalið sem skilur á milli þeirra og akademíumanna, hvort svo sem hér er á ferðinni gamla pyrrhonska hugmyndin um hugarró eða, eins og líklegra er talið, niðurstaða díalektískra raka. Því akademíumenn minntust ekkert á neina hugarró hvorki per se né sem niðurstöðu díalektískrar raka.
(1) Þýðingin á brotinu er fengin frá Svavari Hrafni Svavarssyni.
(2) Þess má til gamans geta að um þetta atriði er deilt og stendur deilan um leshátt á frummálinu. Sumir hafa viljað lesa dia to/(vegna þess), eins og Eduard Zeller stakk upp á snemma á 20. öld, í stað dia touto (þess vegna) eins og stendur í öllum handritunum. Þýðingin sem hér er notuð fylgir leshætti handritanna.
(3) Sextos hefði reyndar aldrei fallist á að kalla neikvæðan dogmatista efahyggjumann; sá væri bara einfaldlega dogmatisti. En Sextos túlkar að öllum líkindum Pyrrhon á annan hátt en við.
(4) Langanir leiða e.t.v. ekki alltaf til uppnáms, en allt uppnám á rót sína að rekja til langana.
(5) Sumir segja 268 f.Kr.
(6) Það kann að vera einnig díalektísk niðurstaða og óþarfi að eigna Arkesilási þá skoðun.
___________________________________