Mig langar til að velta upp einni spurningu:
Hvaða gildi hefur lífið?
Ef ég reyni að setja mig í spor þriggja hópa fólks, trúlausra, endurholdgunarsinna og þeirra sem trúa á eilíft líf, þá kemst ég að eftirfarandi niðurstöðum:
Trúleysinginn: Lifið lífinu lifandi, þetta er eina lífið sem þið fáið og það er eins gott að skemmta sér meðan maður getur það. Góð stefna, en er allt leyfilegt? Má maður troða öðrum um tær ef það eykur manns eigin hamingju?
Þegar maður lítur á það að heimurinn líður líklega einhvern tíma undir lok, og það að jafnvel er enn líklegra að mannkynið líði undir lok, að maður tali ekki um hve líklegt er að maður gleymist í framtíðinni, þá getur maður séð að lokaniðurstaðan af öllum gjörðum er núll. Engin verðlaun, engin refsing, ekkert lokatakmark. Þegar maður sjálfur deyr þá man maður ekki heldur hvort maður lifði vel eða illa.
Hvað stöðvar mann í því að fremja sjálfsmorð þegar manni líður illa? Hugsanlega að maður særir fjölskylduna og vini og minnkar þeirra möguleika á að lifa hamingjusömu lífi eftir það, en oft er það líka þannig að þeim sem er í sjálfsmorðshugleiðingum finnst fjölskyldunni vera sama og finnst þeir ekki eiga neina vini. En maður gæti hugsanlega líka velt því fyrir sér hvort það skipti einhverju máli hvort sjálfsmorðið hafi afleiðingar, þeir verða jú aðeins tímabundnar. Þeir sem eru í sjálfsmorðshugleiðingum hafa oft líka tilhneigingu til að verða “sjálfmiðjaðir” í hugsunum sínum og fara eftir því sem þeir sökkva dýpra að hugsa meira og meira um það hvaða afleiðingar sjálfsmorð hafi fyrir þá sjálfa. Afleiðingarnar verða dauði sem þýðir endalok á öllu saman, áhyggjur, niðurlæging, þunglyndi eða aðrir geðsjúkdómar, einelti, stefnuleysi, fjárhagserfiðleikar, einmanaleiki, þetta líður allt saman undir lok. Fyrir þeim sem fremja sjálfsmorð virðist þetta góð lausn, jafnvel þó þeir viti að ástvinir muni þurfa að líða fyrir það.
Endurholdgunarsinninn: Það eru mörg líf þannig að það skiptir líklega í sjálfu sér ekki máli hvað þú gerir í þessu lífi, þú getur alltaf fæðst aftur, þ.e.a.s. ef þú trúir ekki á Karma. Ef þú trúir á Karma þá skipta aðgerðir þínar máli að því leyti að ef þú hegðar þér illa í þessu lífi þá fæðist þú í verra ástandi í næsta lífi, ef þú hegðar þér vel í þessu lífi þá getur þú komist á hærra tilverustig í næsta lífi og að lokum jafnvel hætt að fæðast, a.m.k. ef þú ert Búddisti. Í þessu tilfelli verða vond verk til þess að tefja mann á leiðinni til Nirvana en góð verk til að flýta leiðinni. En er þá ekki dálítið lélegur hemill sem varnar manni að gera slæm verk? Þú getur alltaf komist uppá sama plan aftur síðar. Þú manst ekkert eftir fyrri lífum þannig að sama hversu lengi þú ert á leiðinni að lokatakmarkinu þá verður þú ekkert óþolinmóðari að reyna að komast í Nirvana ástand í þessu lífi en því síðasta. Skiptir það þá nokkru raunverulegu máli hvað þú gerir, þ.e.a.s. ef þú ert ekkert að flýta þér í áttina að Nirvana? (ég tek það fram að ég veit ekki of mikið um Búddatrú eða endurholdgun)
Eilíft líf: Ef maður trúir á eilíft líf sem er óháð því hvað maður gerir í þessu lífi þá skipta aðgerðir í þessu lífi engu máli (ég man ekki eftir neinum sem trúir á þessa útgáfu af eilífu lífi, þetta ætti kannski helst við þá sem trúa á anda og drauga en ekki Guð). Ef maður trúir á eilíft líf sem er háð því hvað maður gerir í þessu lífi, og inniheldur guðstrú, þá er sýn manns líklega þannig að ef maður lifir syndugu lífi þá fer maður til helvítis en ef maður lifir réttlátlega þá fer maður til himna. Ef maður trúir á eilíft líf sem er háð því hvort þú trúir á Guð eða ekki þá er maður líklega kristinn (ég veit ekki um önnur trúarbrögð sem trúa þessu sama) og lítur svo á að við séum öll syndug og komumst ekki til himna nema við iðrumst synda okkar og biðjum Guð fyrirgefningar. Maður kemst því ekki til himna nema að trúa á Guð. Margir myndu eflaust segja að ef maður þarf bara að trúa þá skiptir engu máli hvað maður gerir bara ef maður iðrast, en ef maður trúir í raun þá sækist maður eftir því að gera vilja Guðs.
Að mínu mati er best að lifa samkvæmt kristinni trú þar sem þá hefur maður tilgang í lífinu og sækist þar að auki eftir því að lifa samkvæmt vilja Guðs.
Ég tek það fram að þetta eru bara vangaveltur og ef einhver getur sannfært mig um annað en kemur hér fram þá skal ég snarlega skipta um skoðun.