Áður en lengra er haldið ætla ég að leyfa mér að vitna í einn greinarhöfundinn.
“Þekking manna eykst með hverjum degi. Vandamál mannsins er að við vitum of mikið, meira en nokkur einn maður getur sett sig almennilega inn í. Því miður fækkar þeim hlutfallslega sem hafa tíma og þekkingu til að setja sig inn á þá stórkostlegu hluti sem vísindin færa manninum.
Það mætti því segja að það eina sem sé í uppnámi er tengls mannsins við þekkinguna.”
Ég veit ekki hversu mikið kæru heimspekiáhugamenn hafið lesið í sögu eða hvaða vísindalegu menntun þið hafið til að þið getið talað af “innsæi” um jafn flókna hluti og raunvísindi. E.t.v. eruð þið undir áhrifum frá mönnum á borð við Pétur Gunnarsson og umræðum hans um þróun heimsmyndar. Staðreyndin er sú að hin meðalborgari (99% þegnanna) hefur enginn áhrif á viðgang og þróun þekkingarheimsmyndarinnar. Þetta hefur verið óbreytt í árþúsundir og mun seint breytast. Það að fullyrða það að eitt sinn hafi menn getað náð yfir alla heimsmyndina er mjög hæpin fullyrðing svo ekki sé meira sagt. Aukinheldur eru áhrif Guðshugmyndarinnar á hugarheim fólks í gegnum tíðina að stórum hluta þvæla en sagnfræðingar eru þjálfaðir í að einfalda hluti, þeir eru blaðamenn eilífðarinnar. Þreytandi er að lesa greinar eftir unga eldhuga þar sem ofurvald kirkjunnar er gagnrýnt, þetta eru allt gamlar lummur. Hin furðu lífseiga hugmynd um alvitra Aþenuborgara og annað slíkt stenst ekki heilbrigða skynsemi. En “common sense” er nefnilega ekki svo common. Af þessu leiðir að ungir menn í dag dásamma en um leið óttast vísindabyltinguna og tala um hve langt hún er komin fram úr meðalborgaranum. Haldið þið virkilega að mikið meira en nokkrar hundruðir manna hafi haft forsendur til að skilja Principa Newton á sínum tíma. Það er nokkuð þreytandi að lesa greinar eftir menn sem tjá sig digurbarkalega um vísindi en kunna ekki einu sinni grundvallar algebru. Það þarf að kafa ofan í vísindi til að skilja hversu mikil stórmenni lögðu grundvöllinn að þeim og það er lengra síðan en Watson og Crigg uppgvötuðu spíralinn að erfðafræðin og vísindin í heild tóku fram úr borgurunm. Vinsamlegast færið rök fyrir þessum málflutningi en látið ekki nægja að vitna tilviljanakennd í menn sem þið þekkið rétt lauslega. Á dögum Egypta voru menn komnir með þekkingu sem hin meðalborgari réð engan veginn við að skilja en það er greinilegt að þið hafið byrjað að læra sögu í skóla þegar Pereatið var og hét.
Látum það liggja milli hluta og yfir í annað.
Um skynjun og ofurraunveru
Þegar þið talið um offurraunveru og hina nýju vídd sem tæknisamfélagið hefur skapað af heiminum þá minnið þið mig óneitanlega á Helga á Torfhvalastöðum í Kristnihaldi HKL en hann var alltaf að leita að hestum sem hann týndi svo jafnóðum þegar hann loksins fann þá. Atriðið er að þegar saga er sögð að þá er eðli hennar að skapa sér eigin heim (skárra værri það nú) og að fjalla um yfirborðsmennsku í fréttaflutningi er í eðli sínu mjög yfirborðskennd. Þegar fólk sagði húslestra í gamla daga datt því ekki í hug að það væri að gefa upp mynd af veruleika sem væri ekki til þegar að væri gáð. Þegar það dró stóratburði saman í rímnaflokka datt því ekki í hug að það væri að afbaka veruleikann með því að draga hann saman. Ef smalamaðurinn hefði farið að setja af stað heimsádeilu í póstmódernískum anda með tilvísanir í franska stofuspekinga (gildir einu hvaðan þeir koma) hefði askurinn hans verið þveginn og gengið úr skugga um hvort hann væri ekki með öllum mjalla. Það er nefnilega ekki öllum hollt að liggja í bókum þ.e. þegar heilbrigð skynsemi er víðs fjarri. Lesið bara um Godman Syngman í fyrrnefndu skáldverki. Hafið annars þakkir fyrir skemmtileg skrif, þvælan í mörgum er hin besta skemmtun.
Það að vera maður verður alltaf jafn erfitt og fáfengilegt, farsímar og rafboðstúlkar munu engu um það breyta.
vísindin efla alla dáð
heimspeki hugan letur
hún á skilið meitlað háð
vopnist hver sem getur
takið þessu með stóískri ró
öllu gamni fylgir alvara
arnarson