Er sálfræði vísindagrein, eða er hún bara í dulargervi vísindagreinar og hefur ekkert fram að færa? Ég veit ekki alveg hvað fólki finnist almennt eða hvaða ástæður liggja að baki skoðunum þeirra.
Ég held að sumir verði fyrir vonbrigðum með sálfræði þegar þeir komast að því að greinin hefur ekki svör á reiðum höndum við öllu sem viðkemur mannlegri hegðun og hugarstarfi. Mér finnst það viðmið í raun heldur ekki sanngjarnt. Tökum dæmi um líffræði. Allir eru sammála um að líffræði er vísindagrein. Samt gerir fólk ekki þær kröfur til líffræði að greinin gefi einhlít svör við spurningum eins og “Hvernig er lífið?” eða “Hvers vegna er til líf?”. Fólk vill aftur á móti að sálfræðingar geti svarað spurningum eins og “Hvað stjórnar hegðun?” eða “Af hverju hugsar fólk á tiltekinn hátt?”. Sálfræðingar reyna að sjálfsögðu að nálgast svör við þessum spurningum, en þau eru ekki nærri því fullkomin.
Af hverju stafar þessi munur? Hugsanlega er það að einhverju leyti vegna þess að allir eru í rauninni litlir sálfræðingar, sem telja sig vita sitthvað um mannlega hugsun og hegðun. Þeir hafa aftur á móti ekki persónulega reynslu af viðfangsefni ýmissa annarra greina, svo sem efnafræði eða jarðfræði. Það er því kannski ekkert skrýtið að fólk sé líklegra til að segja “Ég held að það sé bara bull sem sálfræðingar segja um hvernig minni virkar.” en “Ég held að það sé bara bull sem Einstein segir um afstæði.” Hið síðarnefnda þykir líka oft mun merkilegra, þar sem það er ekki á allra færi að vita eitthvað um afstæði en allir hafa (vonandi) minni og vita sitthvað um það.
Sömuleiðis virðist fólk hafa meiri þolinmæði fyrir því að “vísindamenn” rannsaki eitthvað sem ekki er hægt að hagnýta í nánustu framtíð. Það kippir sér enginn upp við það að náttúrufræðingar rannsaki starfsemi hvatbera í mýflugnalirfum eða að stjörnufræðingar rannsaki samsetningu gufuhvolfs stjörnunnar Beta-X-3345, en fólki finnst lítið til þess koma ef sálfræðingur segist rannsaka hvernig athygli dreifist á milli áreita eða hvort hegðun slokkni frekar á hlutastyrkingarsniði eða sístyrkingarsniði (ég tek það fram að hvort tveggja hefur verið hagnýtt).
Ég held satt að segja að slæmt viðhorf til sálfræði orsakist af því að það er svo breitt bil á milli væntinga fólks á því hvað sálfræði eigi að snúast um og hvað sálfræðingar gera í raun og veru. Svo er aftur spurningin hvor aðilinn eigi að breytast, almenningur eða sálfræði…