Mig langar að birta hér hugleiðingar mínar sem ég ritaði í dagbók mína í tölvunni er ég lá á spítala í maí síðastliðinn. Vonandi eiga hugleiðingarnar erindi hér á huga:



“Ég er sem sagt kominn með sykursýki og líklega af týpu I, þ.e. insúlínháða sykursýki. Þetta þýðir að líkaminn getur ekki lengur stjórnað sykurmagni í blóði sjálfvirkt. Ég þarf því að læra að sprauta mig með insúlíni og stjórna fæðunámi í takt við insúlíngjafir og hreyfingu. Mikilvægast verður þó að þekkja einkenni sykurfalls því það getur leitt mann í dá og jafnvel leitt til dauða.

Það er vissulega áfall að heyra að maður er kominn með ólæknandi sjúkdóm. Fyrir hafði ég svo sem annað ólæknandi sjúklegt ástand; ofnæmið (fyrir ýmsu en þó einkum fyrir grasfrjói). En þetta er það sem lífið býður upp á. Það þýðir ekkert að vola yfir þessu, það væri jafn heimskulegt og að kvarta undan veðrinu; veðrið bara er og það hefur enga þýðingu að kvarta, maður verður bara að takast á við það. Veðrið er reyndar með því allra heimskulegasta í mínum huga sem fólk kvartar reglulega yfir, raunar virðist það mótmæla veðráttunni á stundum!

Þeim sem ætla samt að vola yfir slíkum fréttum, sem ég hef nú fengið, væri réttast að benda á að þeir eru nú ekki þeir fyrstu sem upplifa áföll eða breytingar í lífinu. Sykursýki I uppgötvast venjulega í börnum, sem þurfa frá unga aldri að sprauta sig og hafa stjórn á sykurmagni í blóði með handvirkum hætti. Ég endurtek, “..í börnum…”. Slíkt hef ég ekki þurft að þola.

Ennfremur má benda volurum á það að þeirra líf, ef það hefur verið jafn gott og mitt, hefur verið mun betra en líf svo margra milljóna manna í þessari veröld. Og er enn! Og það skiptir máli að vita af þessu, að setja líf sitt í rétt perspective.

Við virðumst þó flest lifa lífinu með þá hugmynd í kollinum að við séum eilíf og að normið sé að ekkert hendi mann á lífsleiðinni og að allt batni og vænkist með hverjum deginum sem líður. Lífið er bara alls ekki þannig. Þeir sem halda því fram verða vitaskuld fyrir vonbrigðum og enn meira áfalli þegar óviðráðanlegir atburðir henda þá.

Við erum nefnilega öll dauðleg og okkur er hollt að átta okkur á því sem fyrst á lífsleiðinni. Það er óhollt að gera óraunhæfar kröfur til lífsins. Vissulega er hollt að elska lífið, vona hið besta en nota skynsemina; okkur ber að virða lífið, annað er ónáttúra.

En við ættum að gera okkur grein fyrir því að við erum takmörkuð í tíma og rúmi. Við erum ekki eilíf og hvert og eitt okkar er í raun ekkert sérstakt, ekki takmark náttúrunnar í sjálfu sér. Gjörðir okkar skipta samt máli; sumt það sem við gerum er til uppbyggingar, annað til niðurrifs, þar þurfum við að geta greint á milli og náttúran sjálf velur uppbygginguna því ef niðurrif væri eðli náttúrunnar væri ekkert líf hér á jörðinni. Þetta er sú siðfræði sem er bundin í náttúruna sjálfa. Þannig er sumt “gott” og annað “illt”. Þetta eðli náttúrunnar hefur leitt til smíði hinna ýmsu trúarbragða; en sú fullyrðing skal ekki útskýrast frekar hér.”