Þetta átti upphaflega að vera svar við greininni “Hvað er sálin”, en þetta varð aðeins of langt. Gæti verið svolítið samhengislaust á stundum, en ég vona að ég geri mig skiljanlega.
Það er svolítið kaldhæðnislegt að ég er í SÁLfræði, því fyrir mér er engin spurning um að sál, í skilningnum óefnislegt fyrirbæri óháð líkamanum, er ekki til. Sálfræðingar eru verstu efasemdarmenn um sál og annað þvíumlíkt, því það er hreinlega afar erfitt að viðurkenna tilvist sálar eftir að hafa lært um hvernig heili og hugur virkar.
Ég þvertek fyrir að sál sé eitthvert mystískt óútskýranlegt fyrirbæri, en ef með orðinu sál er verið að meina meðvitund kveður aðeins við annan tón. Meðvitund virðist, samkvæmt minni bestu vitnesku, vera nátengd tungumálastöðvum og hefur e.t.v. þróast í nánum tengslum við tungumálahæfileika manna. Meðvitund tengist þróaðri hlutum heilans, og margir halda því fram að hún hafi þróast til að styðja við sveigjanlega hegðun.
Tökum sem dæmi að keyra bíl. Vanir bílstjórar keyra oft á “sjálfsstýringu”, að því er virðist án meðvitundar. Þeir stoppa á rauðu ljósi án þess að gefa því mikinn gaum. En segjum nú sem svo að ljósin séu biluð. Þá er þörf fyrir nýja og sveigjanlega hegðun, og þá verður bílstjórinn skyndilega meðvitaður um ástandið. Meðvitund gæti þjónað þeim tilgangi að geta “prófað” ýmsa möguleika á hegðun, án þess að framkvæma hana í raun.
Aðalvandamálið við þetta er að skýra af hverju þetta þurfi endilega að krefjast þess að maður viti af sér. Það liggur ekki í augum uppi af hverju kerfið, þ.e. heilinn, virkar ekki án þess. Sumir vilja einmitt losna algjörlega við þetta vandamál með því að segja að þessi hluti meðvitundar sé einfaldlega “qualia” (held ég fari rétt með þetta hugtak), þ.e. aukaafurð heilastarfseminnar, sem þjóni bara hreint ekki neinum tilgangi, alveg eins og hjartað býr til hjartslátt þótt sjálft hljóðið geri nákvæmlega ekki neitt.
Hvað svo sem þetta er, þá þarf þetta ekki að vera nein yfirnáttúruleg sál. Ég er að minnsta kosti bara fullkomlega ánægð með mína ósál ;-)