Fyrir nokkru kallaði ég eftir því að heimspekingar og rökfræðingar færu fram á ritvöllinn til að sljákka aðeins á rökvillunum sem virðast vaða uppi í pólitískri umræðu. Eins og svar við þeirri bæn, skrifaði Reynir Axelsson, stærðfræðikennari við HÍ þessa líka frábæru grein um synjunarrétt forsetans skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi grein birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 30.maí sl. og hægt að skoða hana í gagnasafni mbl.is

Með einfaldri rökfærslu leiðir Reynir út að ráðherra getur ekki farið með synjunarrétt forseta. Reynir gerir það með því að vísa 26.gr. á 19.gr sem segir að “undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum”. M.ö.o. bæði ráðherra og forseti verða að undirrita lög svo þau öðlist gildi. Niðurstaða Reynis er því:
“Nú kann einhver að finna það að málflutningi mínum að hann byggist allur á að skilningur minn á 19. grein stjórnarskrárinnar sé réttur og að hún segi nákvæmlega það sem eðlilegur lestur hennar gefur til kynna, nefnilega að undirskrift bæði ráðherra og forseta sé nauðsynleg til að lög (eða stjórnarerindi) öðlist gildi. En er þetta nú alveg örugglega rétt? Já, og 26. grein er einmitt undantekningin sem sannar regluna! Loksins, loksins! Alla ævi hef ég beðið eftir tækifæri til að geta notað þetta orðasamband, ”undantekningin [sem] sannar regluna“, sem er næstum alltaf rangnotað og misskilið, í sinni réttu og upphaflegu merkingu; og nú er það loksins komið. Í fullri lengd er orðasambandið ”exceptio probat regulam in casibus non exceptis“ og merkir að undantekningar frá (hugsanlega óskráðri) reglu sýni að reglan eigi að vera til staðar í þeim tilvikum sem undantekningin nær ekki til. Ef ég segi við krakka, að í kvöld megi þeir vera úti lengur en til tíu af því að þeir hafi verið svo þægir og það sé enginn skóli á morgun, þá leyfir ”exceptio probat regulam“ okkur að álykta að venjulega reglan sé sú, að krakkarnir eigi að vera komnir heim fyrir tíu, og að hún sé örugglega í fullu gildi ef krakkarnir eru óþægir eða ef skóli er á morgun. Með sama hætti sýnir 26. grein, sem lýsir hvað gera skal ef forseti undirritar ekki lagafrumvarp, að venjulega reglan er sú að undirskrift forseta sé nauðsynleg til að lagafrumvarpið taki gildi, svo sem 19. greinin mælir fyrir um. Aðeins þannig gengur dæmið allt saman upp” (sjá gagnasafn mbl.is)

Já alveg er það frábært þegar dægurþrasið getur leitt í ljós fallega gimsteina í reglufarganinu. Liggur við að ég fari fram á að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar verði alfriðað, svo skemmtilegt er það og fallegt :)

M.