Verð ég ekki að reyna að bregðast við, fyrst ég er beðinn um það :)
Að vissu leyti er þetta rétt sem þú segir, miðgarður. Það var ekkert ofsalega eftirsóknarvert að vinna meðal Grikkja og í tómstundinni varð heimspekin til eins og þú segir. Ég efast um að Aristóteles hefði skrifað jafnmikið ef hann hefði þurft að þvo þvottinn sinn sjálfur :)
Margar listgreinar voru iðngreinar og (í vissum skilningi) voru iðngreinar listir. Höggmyndalist þótti síður en svo fínasta listin. Það má segja að listin hafi þótt fínni eftir því sem hún var ónauðsynlegri, enda segir Aristóteles í 1. bók Frumspekinnar: “Og sem fleiri listir voru fundnar upp, ýmist til bjargræðis eða dægradvalar, töldust þeir jafnan vitrari sem fundu upp listir til dægradvalar, því þekkingargreinar þeirra beindust ekki að nytsemi. Og þegar slíkar listir höfðu fullkomnast fundu menn upp þekkingargreinar sem hvorki beinast að ánægju né nauðþurftum, og fyrst þar sem mönnum gafst tóm til.” (þýð. Svavar Hrafn Svavarsson)
Aristóteles talar reyndar í örlítið öðru samhengi, því fyrir honum vakir fyrst og fremst að sannfæra áheyrandann (þetta hefur sennilega verið fyrirlestur) um að þekkingargreinar og vísindi séu merkilegri eftir því sem þau eru ónauðsynlegri og stunduð þeirra sjálfra vegna en ekki vegna annarra nota. En tilvitnunin sýnir að hugsunina má að einhverju leyti yfirfæra á listgreinar og það má til sanns vegar færa að tónlist og skáldskapur nutu miklum mun meiri virðingar en t.d. höggmyndalist.
Hins vegar er saga Grikklands og grískrar menningar býsna löng. Þess vegna er erfitt að alhæfa um gríska menningu. Því hvaða tíma erum við að tala um? Hesíódos var eitt höfuðskáld Grikkja. Hann var uppi um 700 f.Kr. og eftir hann eru varðveitt tvö verk, Goðakyn (Þeogonían) og Verk og dagar. Í síðarnefnda verkinu lofar Hesíódos vinnusemi og dugnað (raunar í landbúnaði en ekki í verslun og siglingum, en það er annað mál). Þar ber engan vott um þetta viðhorf til tómstunda. Öðru nær. Þess vegna er erfitt að fullyrða um Grikki almennt - nema þá að það sé ósagt að átt sé við klassískan tíma, þ.e. 4. og 5. öld f.Kr., frá lokum Persastríða til dauða Alexanders. Það er skýrt afmarkaður tími, en þá má aftur spyrja hvort við séum að tala um Aþenu eða eitthvert annað borgríki.
Við skulum líka ekki gleyma því að við erum að lýsa viðhorfi tiltekins hóps manna, yfirstéttarinnar. Og úr því að ég var að vitna í Aristóteles má ekki heldur gleyma því að heimspekingar geta verið slæm heimild um viðhorf Grikkja. Þessir heimspekingar eru jú í nokkurs konar uppreisn gegn viðteknum hugmyndum um hvaðeina. En, já, með þessum fyrirvörum (sem ég vona að verði ekki teknir sem útúrsnúningur) má segja að þetta sé alveg rétt sem þú segir.
Hvað orðið “leisure” varðar, þá veit ég ekki alveg af hvaða gríska orði það ætti að vera komið. Hins vegar skilst mér að það hafi komið tiltölulega snemma inn í enskuna gegnum frönsku og sé upphaflega af latnesku sögninni “licet” sem er ópersónuleg sögn sem merkir “það er leyfilegt”. Það má vel vera að það sé rangt, en það hljómar nokkuð trúverðugt. En það breytir litlu þótt orðstofninn væri latneskur. Með sömu fyrirvörum má eigna Rómverjum samskonar hugmyndir um dægradvöl. Þeir hefðu reyndar notað orðið “otium” til að vísa til hugmyndarinnar en það breytir svo sem engu :)
___________________________________