Ég hef ekki sent grein hingað inn í langan tíma. Ástæðan er líkast til sú að ég hef lítið stundað heimspekina, með virkum hætti. Með því, á ég við að ég hugsa heimspeki þegar hún skítur upp kolli sínum í huga mér, en þess utan leyfi ég henni vel að lifa, í sínu horni tilveru minnar. Það þýðir, að ég hef ekki eytt tíma mínum í að lesa heimspeki, nema í undantekningar tilfellum. Tíma mínum hef ég aðallega eytt í annarskonar óþarfa. Þrátt fyrir þessa heimspekilegu óvirkni mína hafa hugmyndir mínar þó tekið nokkrum breytingum og þróast, eins jurtir í mold, án nokkurrar umhirðu eða skipulags.
Næstu skref í heimspekilegum þroska mínum, krefjast mun viðameiri og virkari aðferða. Ég hef enn ekki gert upp við mig hvort ég vilji leggja slíka vinnu og óumflýjanlega skuldbindingu á mig. Slíkt mun krefjast skipulegs lestrar innan þeirra sviða heimspekinnar þar sem ég kann að hafa eitthvað fram að færa, og svo skrifa þar um. Slík skuldbinding þýðir í raun ekkert minna en að gerast virkur heimspekingur. Ég veit ekki hvort ég er að blekkja sjálfan mig, hvort ég er hreinlega haldinn sturlun, eða öðrum kvilla; að halda að ég hafi raunverulega eitthvað fram að færa til heimspekinnar.
En hér eru þó nokkrar hugmyndir sem ég hef hug á að útfylla og kanna (ekki tæmandi):
(i) Að skilgreina grundvöll fyrir heimspeki mína. Rótina ætla ég að festa í meðvitundinni, og því sem hún felur í sér.
(ii) Að raunveruleikinn er jafngildur sannleikanum. Þetta lætur ekki mikið yfir sér en það er hægt að nota þessa niðurstöðu (auk rökstuðnings hennar) við rökstuðning og byggingu annara hugmynda, um eðli hugsunar og raunveruleika.
(iii) Að merking byggir á samhengi, sem ég skilgreini líkast til á eilítið margbrotnari hátt en hugtakið samhengi gefur til kynna. Þegar ég segi samhengi, þá er ég að tala um mynstur, og hvernig mynstur getur haldið upplýsingar, og þal merkingu. (Þessi hugmynd hefur mjög ríkan stærðfræðilegan þátt.)
(iv) Að draga fram samband hugarheims og hins ytri efnislega veruleika. Í þessari útskýringu eða könnun mun ég þurfa að byggja á fyrri liðum (i) til (iii). Ég vil draga fram það sem mér sýnist vera raunveruleikinn/sannleikur, að við getum þurrkað út mörkin á milli innri heims huga okkar og hins ytra raunveuleika. Þetta kann að hljóma undarlega og óþarft, en þetta kann að hafa ýmsar áhugaverðar afleiðingar fyrir síðari hugmyndir.
(v) Önnur hugmynd og etv ótengdari (þó ekki alveg ótengd), er brottnám tíma hugtaksins, og notast þess í stað við aðeins við hreifingar hugtakið engöngu.
(vi) Hugmynd sem ég veit ekki hvort er að fullu komin frá mér einum, en er innblásin frá Sun Tzu (þó slíkt sé alls ekki augljóst), er kenning um að hægt sé að þýða eða túlka allar hugmyndir, án skerðingar, yfir á form skynjunar. Þá á ég við að orð og mál, sé ma hægt að túlka með hreifingu, staðsetningu, stærð, lögun, eða þess háttar þáttum, og mismunandi afstöðu þessara þátta. Þetta krefst í raun þekkingar á stærðfræði, forritun, og etv nokkurrar þekkingar á málfræði. Ef þessar hugmyndir reynast frjóar munu þær þýða byltingu og ekkert annað. En höldum ró okkar, því margir hafa haldið sig hafa eitthvað merkilegt fram að færa sem síðar reynist reist á gloppóttum rökum.
Þetta eru mínir helstu þankar í mjög svo stuttu máli. Þetta eru þó alls ekki allar hugmyndir mínar. Ég set þær hér fram til að deila þeim með ykkur, og líka etv til að koma skipulagi á þær, og minna mig á tilvist þeirra, svo þær fjari ekki út og gleymist eins og eðli allra hluta virðist vera. Ég vil líka sína lit og láta vita af mér, og leyfa ykkur að bombarda þetta með gagnrýni eða annarskonar hugmyndum.
Kv.
VeryMuch