Trú mín er von mín og von mín er trú mín, án vonar þá hef ég ekki trú á neitt, án trúar þá vona ég ekki. Einfaldleikinn er oftast bestur og án þess að flækja málið neitt frekar þá trúi ég því sem ég vil trúa og það sem ég vill trúa á hlítur að tengjast vonum mínum og væntingum um lífið. En hver er mín trú? Hvað er það í lífinu sem ég trúi innst inni á? Trúi eg aðeins því sem ég vill trúa eða er ég raunsær? Þetta eru spurningar sem ég sé mig knúinn til að svara þegar ég svara sjálfum mér merkilegustu spurningu lífs míns, hverju trúi ég?
Ég trúi og ég trúi ekki, ég trúi því sem ég trúi og ég trúi því ekki sem að mér er sagt að trúa, ég á mér trú og hún er mín en ekki þín. Ég trúi því að heimurinn sé ógnarstór, ég trúi því að jörðin sé aðeins lítið sandkorn í sífellt stækkandi heimi, ég trúi því að ég sé aðeins lítil fruma starfandi í þessu nær ósýnilega sandkorni. Ég trúi því að líf þrífist út um allan heim vegna þess að ég trúi því að lífið sé tilgangurinn en ekki dauðinn. Ég trúi því að mennirnir séu bara einn hlekkur í ógnarstórri keðju lífs þar sem samvinna skipti öllu máli, líkt og allar frumur líkamans hafa sinn tilgang þrátt fyrir smæð sína. Ég trúi á lífið og með því að trúa á lífið þá trúi ég og vona í leiðinni að lífið sé tilgangurinn en ekki dauðinn. Ég trúi.
Ég trúi ekki á einfaldar mannlegar útskýringar á almáttugum guði. Ég trúi ekki á bókstafinn heldur les ég hann og tek því sem þar stendur sem dæmisögum en ekki sem sannleika. Ég trúi því ekki að guð hafi skapað manninn í sinni mynd, vegna þess að mér finnst það of einföld og mannleg útskýring á óútskýranlegu afli. Ég trúi því ekki að kristin trú sé rétthárri en önnur trú vegna þess að ég trúi því að í öllum trúarbrögðum búi hinn eini sanni einfaldi sannleikur.
Ég trúi því að hér í heiminum sé eitthvað afl á sveimi, þetta afl er minn guð. Ég trúi því vegna þess að ég tel að allir hlutir eigi sér einhverja orsök, orsök okkar heims er því guð, það sem gerði það að verkum að eitthvað varð til úr engu er minn guð, það er mitt afl, það er mín trú.
Ég trúi á ástina, ég trúi því að ástin sé gott afl sem býr innra með öllum mönnum. Ég trúi á hatrið, ég trúi því að hatrið sé vont afl sem býr innra með öllum mönnum. Ástin og hatrið er barátta góðs og ills, fyrir mér er ástin tilgangurinn með lífinu, hún á að ná völdum yfir hatrinu, guð á að ná völdum yfir djöflinum. Guð og Satan, ást og hatur, þetta eru sömu hlutirnir orðaðir á mismunandi hátt, guð er það góða, satan er það slæma, ég trúi því að á endanum muni það góða ná völdum yfir heiminum. Ég vona að á endanum muni það góða ná völdum, von mín er trú mín, því ef ég tryði án vonar þá væri trúin mér slæm.
Guð er hreyfikraftur alheimsins, hann kom honum af stað, hann er það góða sem býr í lífinu, hann er það góða sem býr í öllu lífi, allsstaðar í alheiminum er hann að verki. Hann býr í mér og hann býr í þér, hann er hinn sanni guð, hann er aflið sem leyðir það góða til okkar á órannsakanlegann hátt því vegir guðs eru jú órannsakanlegir.
Með því að trúa á lífið, trúa á tilgang lífsins, þá spyr ég sjálfan mig hver er tilgangur minn sem lífveru í geysistórum heimi? Svarið er ekki flókið en fyrir mér er það eina rétta svarið við þessari spurningu. Ég trúi því að tilgangur minn hér sé nákvæmlega sá sami og tilgangur blóðfrumunnar sem býr í æðum mínum. Tilgangur lífsins hlítur fyrst og fremst alltaf að vera að halda lífinu við því lífið hefur ekki tilgang ef það er dautt. Þessvegna er það hlutverk mitt að koma lífinu áfram eins og það er hlutverk blóðfrumunnar að halda áfram. Stórt og smátt líf er líf samt sem áður og sama hversu flókið lífið er þá er það alltaf þessi megin tilgangur sem er frumforsenda þess að lífið haldi áfram. Ég trúi á lífið og tilgang þess vegna þess að ég vona að lífið hafi tilgang.
Ég trúi því að þessi einfalda trú mín á æðri mátt sé í raun eins og trú flestra annarra manna, hún er einlæg og hún er sönn. Fyrir mér er guð til og þessvegna er guð til, guð er til fyrir svo mörgum öðrum mönnum og þessvegna er guð til í hugum okkar. Fyrst hann býr í hugum svo margra þá fyllist ég af en meiri trú á það að hann sé innra með okkur, við þurfum bara að hlusta á hann og heyra hvað hann vill segja við okkur, og ef við hlustum vel þá heyrum við hvað hann segir.
Til að tilgangur minn í mínu lífi nái fram að ganga þá verð ég að hlusta vel og gaumgæfilega eftir því góða í hjarta mér vegna þess að það er guð að senda mér skilaboð, þeim skilaboðum verð ég að koma á framfæri, það er minn tilgangur og allra annarra sem heyra í rödd aflsins sem býr innra með öllum mönnum. Ég trúi á það góða í manninum, ég trúi á ástina, ég trúi því að lífið stefni að ákveðnu marki, ég trúi því að þetta mark sé fullkomleikinn og til að fullkomleikinn verði að veruleika þarf lífið að halda áfram, lífið þarf að sigra dauðann. Ég trúi á lífið, ég trúi á tilgang alls þess góða, ég trúi á sigur lífsins, ég trúi!!!
En þú?