Undanfarið hef ég verið í djúpum pælingum í sambandi við efasemdina. Hin
háfleygu orð „Cogito ergo sum“ (ég hugsa, þess vegna er ég), sem René Descartes
mælti, urðu að stökkpall mínum fyrir frekar skemmtilegri uppgötvun.
Ég efast um efasemdina.
Hvort ég sé fyrstur til að komast að þeirri niðurstöðu veit ég ekki. Það skiptir mig
í rauninni engu máli.
Hinsvegar lendi ég í þeirri klípu að uppgötvunin er ennþá hlekkjuð í huga mér og
sama hvað ég reyni þá hefur mér ekki ennþá tekist færa það yfir í orð hvernig
þetta getur staðist.
Descartes efaðist um tilvist efnislega líkama síns. Skynfærin gætu allt eins verið
að blekkja sig og í rauninni gæti hann efast um allt. Nema þá staðreynd að hann
efaðist. Hugurinn er sem sagt það eina í fari okkar sem er ótvírætt. Það eina sem
ekki er hægt að efast um.
Af hverju efast ég þá um efasemdina? Vá…..ég veit ekki hvernig ég get útskýrt
þetta. Ég viðurkenni að þessi pæling er á frumstigi þannig að kannski kemur bara
eitthvert rugl út núna. Hins vegar er ég svo sannfærður um þetta að ég skil ekki
hvernig ég gat ekki uppgötvað þetta fyrr.
Fyrst þegar ég fann upp á þessu þá fór ég að ímynda mér hugann sem klofið
fyrirbæri. Annar ríkti yfir hinum. Sá hluti hugans í rauninni stjórnar því hvernig
hinn hlutinn hugsar. Við getum líka þannig séð skipt þessu fyrirbæri í hugann
annarsvegar og sjálfið hinsvegar. Hugurinn ræður því sem sjálfið hugsar.
Með öðrum orðum, við efumst e.t.v. vegna þess að hugurinn segir okkur að efast.
Er þetta þá virkilega efi? Efumst við fyrir alvöru ef efinn er bara hugsun sem okkur
er sagt að hugsa?
Er efinn kannski ekki blekking líka?
Ég sé ekki betur en að efinn er varla minni blekking en allt annað. Að minnsta
kosti útfrá þessum pælingum.
Niðurstaðan sem ég fæ útúr þessu er að við getum ekki verið viss um neitt.
Ps. Ég bið ykkur um að vera ekki allt of grimm við mig í rökræðunum :). Ég veit að
þetta er ennþá meingallað.