Hverjar eru skyldur heimspekinnar í dægurmálaumræðunni?
Hef stundum verið að velta þessu fyrir mér, þegar málflutningur stjórnmálamanna virðist vera vaðandi í rökskekkjum. Í þessu sambandi þá hef ég aldrei heyrt fréttamenn leita álit heimspekinga á ummælum sem geta orkað tvímælis, né heldur hef ég tekið eftir því að heimspekingar skrifi greinar til að útskýra og benda á mögulegar rökskekkjur. Þetta er í sjálfu sér undarlegt þar sem það er mjög algengt að fréttamenn leiti til alskyns sérfræðinga til fréttaskýringar.
Það er leitað álits lögfræðinga, jarðfræðinga, hagfræðinga, eðlisfræðinga osfrv. um hin ýmsu mál, en aldrei er heimspekingur fengin til að útskýra og skera úr um hvort tiltekin málflutningur sé ólöglegur (lýðskrum). Heimspekin hefur ágætis tækjabúnað til að meta útskýra hvers konar retórík (málatilbúnað) er notuð í hinum og þessum málum.
Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að rödd heimspekinnar heyrist í þessari umræðu og má líta á þetta sem mikilvægan lið í heimspeki uppeldi þjóðarinnar. Ég sat í forspjallsvísindum hjá Páli Skúlasyni á sínum tíma og þar var hann einmitt að hvetja og benda væntanlegum háskólaborgurum á þessa skyldu sína, að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni. En þarna finnst mér einmitt vanta rödd heimspekinnar. Þetta þýðir ekki endilega að heimspekingurinn þurfi að taka afstöðu til málsins, heldur eingöngu til formlegrar framsetningu þess.
Hér að neðan er tilvitnun í glærur frá Róberti H. Haraldssyni, heimspekikennar við HÍ um algengar rökskekkjur (sjá http://www.hi.is/~robhar/040203VSD.ppt Einnig má í þessu samhengi benda á skrif Jürgens Habermass um málaðstæður):
Rökskekkjur 1
Óleyfileg endurskilgreining:
Dæmi: Ég borga engar dagsektir vegna þess að skaðinn af töfinni varð enginn.
Rökskekkjur 2
Tvímæli:
Aðeins hundar eiga hvolpa.
Pétur á hvolp.
Pétur er hundur.
Rökskekkjur 3
Ad hominem (persónuníð).
Ráðist er gegn manninum frekar en að beita rökum gegn málefninu. Dæmi:
Þetta segir hún bara vegna þess að hún er kona.
Þetta er dæmigert karlaviðhorf.
Þessi maður hefur ekki menntun til að fjalla um þetta. Osfrv. Osfrv.
Rökskekkjur 4
Post hoc, ergo propter hoc (á eftir þessu þar af leiðir vegna þess eða ályktun af rangri orsök).
Ég læknaðist af kvefinu vegna þess að ég tók vítamín í tvær vikur.
Kvíðinn hvarf vegna þess að ég gekk til sálfræðings í eitt ár.
Ég varð svona snjall viðskiptafræðingur vegna þess að ég lærði aðferðafræði.
Rökskekkjur 5
Átyllurök (ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur).
Að berja fuglahræðuna.
Að afskræma vísvitandi skoðanir andstæðingsins.
Að notfæra sér vitneskju um andstæðinginn sem kemur málinu ekki við.
Rökskekkjur 6
Fótfesturök (Slippery slope argument).
Varað við hættulegum afleiðingum sem tiltekin skoðun kunni að hafa í för með sér og það notað sem rök fyrir því að rannsaka hana ekki.
Varað við mögulegum afleiðingum athafnar og það notað sem rök fyrir því að forðast hana.
Rökskekkjur 7
Ignoratio elenchi (Vankunnátturök)
Færa rök fyrir niðurstöðu sem er umræðuefninu alveg óviðkomandi.
Svara út í hött til þess að forðast kjarna málsins.
Rökskekkjur 8
Umdeild flokkun, að draga í dilka, „stimpla“ („stereotyping“)
Það er ekkert að marka þessa hvalavini.
Þessi maður er nasisti.
Rökskekkjur 9
Að eitra við upptökin (poisoning the well).
Að níða eitthvað niður með alls kyns ókvæðisorðum áður en reynt er að færa málefnaleg rök gegn því.
Dæmi úr fjölmiðlaumræðu: Lyfjanotkun
—-
M.