Þetta er ritgerð sem ég skrifaði í heimspeki 103 við Menntaskólann á Akureyri, þegar ég var í þriðja bekk (í fyrra). Ég reyndi að setja hana upp eins vel og mögulegt er hér á Huga, og vona að þetta sé nóg - annars er nú alveg hægt að biðja mig um almennilegt eintak með því að senda mér tölvupóst eða eitthvað. Endilega segið mér hvað ykkur finnst.

———————

PROLOGUS…

Í ágúst 1996 fannst fyrir tilviljun snjáð bréf, skrifað af René Descartes, þar sem hann svarar andmælum vinar síns. Því miður hefur nafn vinarins máðst af pappírnum í tímans rás en innihaldi bréfsins hefur þó verið bjargað að mestu leyti, fræðimenn gátu sér til um orð þar sem þau sáust illa, eða ekki, með tilætluðum árangri. Þó gæti hugsazt að eitthvað vanti í það. Bréfið fannst í hirzlum Kristínar sem var Svíadrottning frá 1644 til 1654, en Descartes dvaldi hjá henni sem einkakennari frá síðari hluta ársins 1649 til dauðadags, eða 11ta febrúar 1650.(1)

Áður Descartes lét prenta Hugleiðingar um frumspeki(2) sendi hann handritið til „ýmissa manna sem skara fram úr öðrum að greind og lærdómi”(3) og fékk þá til að kryfja kenningu sína og reyna að hnekkja á henni með rökum. Þessi andmæli birtust svo, ásamt svörum Descartes, með Hugleiðingunum og voru í upphaflegu útgáfunni sex talsins. En Descartes var óánægður með þá útgáfu og í þeirri næstu voru sjö runur af andmælum og svörum.(4) Nú hefur fundizt, sem fyrr segir, hluti af áttundu rununni sem aldrei komst í bókina. Ekki hafa andmælin sjálf varðveitzt, heldur einungis svar Descartes í formi bréfs. Ætla má að bréfið sé það síðasta sem Descartes skrifaði um ævina. En það er óþarfi að orðlengja um tilkomu bréfsins og annað slíkt hér, því Descartes sjálfur útlistar skýrt og greinilega í byrjun þess hvernig þeim málum var háttað.

Bréfið er nokkuð merkilegt fyrir þær sakir að það gagnrýnir kenningu Descartes á harla nýstárlegan máta, ef miðað er við mótbárurnar sem bundnar höfðu verið í skinn. Gagnrýnandinn beitir þó öllum þeim helztu rökum sem fram höfðu komið að auki, en einnig nokkrum sem nýlegri heimspekingar hafa stungið uppá, og aukinheldur sumum sem kannski hafa aldrei litið dagsins ljós áður. Það þykir einkar heppilegt að Descartes vitnar verulega í bréfið sem hann er að svara, svo hægt er að fá nasasjón af uppbyggingu bréfsins. Það er væntanlega bezt að teygja lopann sem minnst og leyfa bréfinu að útskýra sig sjálft, en samt fannst mér skynsamlegt að hafa allítarlegar skýringar með því – svo hægt sé að tengja hugmyndir gagnrýnandans við keimlíkar, eða öldungis eins, hugmyndir annarra heimspekinga sem fjallað hafa um þetta efni; útskýra betur mál hans í samhengi við þau rit sem hann gaf út eða varpa ljósi á hvernig orð og orðasambönd eru þýdd úr frummálinu, þ.e. frönsku.

(1) Allt sem hér, og annars staðar, stendur um að fundizt hafi bréf árið 1996 er helber uppspuni og einungis ætlað til að bæta heildarsvip ritgerðarinnar; tilgangurinn helgar meðalið. Descartes var samt einkakennari Kristínar á þessum tíma og þar fram eftir götunum (Þorsteinn Gylfason 1991:38-40).
(2) Meditationes de prima philosophia (1941); hann kallar hér frumspeki „prima philosophia” en ekki „metaphysica” einsog tíðkaðist. Þennan sið tekur hann kannski upp eftir Aristótelesi en „metaphysica” var ef að líkum lætur skammaryrði í huga Descartes (sjá Þorstein Gylfason 2001:225-226).
(3) Descartes, René 2001:125. Þeirra á meðal voru Thomas Hobbes (1588-1679), Antoine Arnauld (1612-1694) og Pierre Gassendi (1592-1655).
(4) Þorsteinn Gylfason 2001:17-18.

STUTT ÆVIÁGRIP…

Sagt er að nýöldin hefjist í heimspeki með Descartes, að nútímaheimspeki verði einfaldlega til hjá honum, en stundum er sagt að hún byrji með Francis Bacon (1561-1650) í Bretlandi og Descartes í Frakklandi.(5) Descartes á að hafa orðið þess valdandi að kristileg skólaspeki átti ekki upp á pallborðið lengur. Auðvitað er þetta þó að vissu leyti ofsögum sagt; oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, en Descartes fékk margvíslega aðstoð – beina og óbeina – til að hljóta þennan mikilsverða sess í heimspekisögunni.(6)

Til að gera nokkra grein fyrir þeirri aðstoð sem hann fékk, frá þeim aðstæðum er myndazt höfðu í hinum franska fræðaheimi, ber helzt að nefna uppgötvun á efahyggju Forn-Grikkja. Forn efahyggja hafði fengið að liggja óáreitt í langan tíma, en fékk uppreisn æru þegar Michel Eyquem de Montaigne (1533-1592) hóf að beita aðferðum hennar í ritgerðum sínum. Montaigne hafði komizt í rit Sextosar Empeireikosar (250?-325?), Frumatriði pyrrhonismans og Gegn lærdómsmönnum þar sem hann safnar saman öllum málflutningi fornar efahyggju. Þannig fór efahyggja, þá helzt pyrrhonismi, frá Sextosi til Montaigne og þaðan til Descartes.(7) Í raun er hægt að einfalda þessa sögu þónokkuð með því að vitna í einkunnarorð þessara manna, og gera úr þeim allundarlega samræðu:

Sextos Empeireikos: Fellið ekki dóma! (8)
Michel Eyquem de Montaigne: Hvað veit ég? (9)
René Descartes: Ég hugsa, þess vegna er ég til. (10)

Svo er vitaskuld gaman að velta því fyrir sér hvernig Sextos eða Montaigne hefðu svo svarað Descartes, ef þeir hefðu fengið tækifæri til. En við látum honum sjálfum, og andmælandanum, eftir að spá frekar í slíkt.

René Descartes fæddist í La Haye í Touraine í Frakklandi 31sta marz árið 1596, en bærinn heitir núna bara Descartes.(11) Tíu ára að aldri var hann settur í skóla hjá Kristsmunkum í La Fléche en þar lauk hann námi árið 1614. Svo gerðist Descartes hermaður og ferðaðist m.a. til Danmerkur, Póllands og Ungverjalands. Það var svo árið 1619, eftir að hafa marga fjöruna sopið, að hann fær einhvers konar vitrun. Vitrun þessi lá líklega til grundvallar öllum verkum hans, en þetta átti sér stað í Ulm í Þýzkalandi.

Aftur leggst Descartes í ferðalög, en sezt svo að í París árið 1625 og kemst þar inn í hóp fræðimanna fyrir tilstuðlan vinar síns, Marin Mersenne (1588-1648). Nú líður og bíður, Descartes skrifar nokkrar ritgerðir, tekur þátt í þjóðlífinu í París og heldur t.a.m. ræðu í samsæti nokkru sem vakti mikla athygli. Árið 1628 flytur hann svo alfarinn til Hollands, svo hann fái frið til skrifta. Það er ekki fyrr en 1637 að hann gefur loks út bók, sem olli miklu fjaðrafoki, en það var Orðræða um aðferð. Svo gaf hann út Hugleiðingar um frumspeki 1641 og Lögmál heimspekinnar 1644. En einsog og segir í formálanum þá fluttist hann búferlum til Svíþjóðar fimm árum síðar til að kenna Kristínu drottningu, þá aðallega guðfræði að því er virðist. Svíar fóru ef til vill of illa með aumingja manninn, t.a.m. með því að láta hann vakna klukkan 5 að morgni til að leiðbeina drottningunni. Descartes var óvanur slíku og fékk lungnabólgu sem dró hann svo til dauða, sem fyrr segir, í febrúar 1650. Síðasta rit hans var Hræringar sálarinnar sem kom út ári áður.(12) En hann rétt lifði til að sjá fyrstu eintök þess rits.(13) Hinztu orð Descartes voru „ça, mon âme, il faut partir” (jæja, sál mín, tími til að fara).(14)

(5) Copleston, Frederick 1958:1
(6) Þorsteinn Gylfason 2001:22 & Geir Þ. Þórarinsson. Geta má þess að á ofanverðri 17du öld var Sextos Empeireikos kallaður faðir nútímaheimspeki, ekki Descartes (sjá aftanmálsgr. 2 hjá Geir Þ. Þórarinssyni).
(7) Geir Þ. Þórarinsson.
(8) Þorsteinn Gylfasson 1991:171.
(9) Ibid. 159.
(10) Descartes, René 1991:99.
(11) Þorsteinn Gylfasson 2001:16.
(12) Þorsteinn Gylfasson 1991:28-38.
(13) Gilson, Étienne 1994:8.
(14) Blackburn, Simon 1996:101. Það hefði kannski verið hægt að þýða þetta með orðum Hallgríms Péturssonar (1614-1674) „Upp, upp, mín sál”; kannski ekki.

MÓTBÁRUR OG SVÖR NÚMER ÁTTA…

KÆRI REGNIER.(1)

Þakka þér fyrir langt og vel ígrundað svar, ég vissi að ég gæti treyst því að þú létir ekki þitt eftir liggja. Satt bezt að segja fannst mér svo langt síðan við hittumst að ég var ekki viss hvort þú kæmir til með að muna eftir mér – hjálp sú er þú veittir mér þegar ég var í háskóla í Leiden er ómetanleg. Skilaðu kveðju minni til fjölskyldu þinnar. En komum okkur nú að efninu.

Þú hefur greinilega fengið nokkurn pata af þeim mótbárum sem komið hafa nú þegar en sumar þeirra ganga aftur í bréfi þínu. Það er leiðinlegt að þú skulir hafa gleymt að senda bréfið svona lengi, því annars hefði það – með mínum svörum að sjálfsögðu – birzt sem bókarauki. Þú varst einn hinna örfáu, sem vegna snilli sinnar og þekkingar fengu Hugleiðingarnar sendar áður þær fóru í prentun. Ég beið ólmur svars frá þér, en nú er það orðið of seint. Það var leitt því þín gagnrýni er í raun mun víðtækari og beittari en hinar, en það gæti verið fyrir þær sakir að þú sækir efnivið í Orðræðuna, Hugleiðingarnar og fleiri heimildir.

Þér tekst með náttúrunnar skilningsljósi(2) að skynja kenningu mína skýrt og greinilega(3) og hefur aukinheldur ýmislegt út á hana að setja, en þér fipast oft og tíðum í þeim aðfinnslum.

Í fyrsta lagi, segir þú, er ég vissulega sammála því sem Leibniz skrifar háðslega um aðferðina er þú leggur þér til grundvallar í Orðræðunni, þ.e.: „þú tekur það sem þú þarft, gerir það sem gera ber, og þá færðu það sem þú vilt”. Auðvitað er þetta bæði spaugilegt og hnyttið, en þetta er aðferðin í hnotskurn.(4)

Vitaskuld er þetta ekki rétt, ég tek skýrt fram í aðferðinni hvað beri að gera, en ekki bara að gera skuli það sem gera ber. Að auki hefur þetta engin áhrif á kjarna málsins, einsog þú veizt líklega, og eyði ég því ekki meiri tíma í þetta.

Í annan stað langar mig að nefna við þig, í ljósi þess að ég þykist vera mjög vel lesinn í fræðum Ágústínusar, að hann, sjálfur kirkjufaðirinn, kemst að nánast sömu niðurstöðu og þú í De civitate Dei, XI, 26 og fleiri ritum. Þó eru aðfarir ykkar nokkuð frábrugðnar svo þetta gætu verið tvær sjálfstæðar uppgötvanir. Eða var það svo? Johann Werther frá Ulm tjáði mér að þú hefðir verið að glugga í Ágústínus um svipað leyti og þú fékkst hina frægu opinberun í Þýzkalandi fyrir nú réttum tuttugu árum síðan. Er einhver flugufótur fyrir því að Ágústínus hafi hér gert gæfumuninn og þú þá ekki lagt „bóknámið á hilluna” og rekizt á kenningu þína í „hinni miklu bók heimsins”?(5)

Mér hefur verið bent á þetta, þó ekki í nákvæmlega þessu riti. En þessi málflutingur er ekkert annað en aðdróttanir, ég vissi hvorki haus né sporð á þessu hjá Ágústínusi. Bæði ég og þú vitum að Werther er lygnari en sjálfur Lúsífer svo ég tek lítið mark á orðum hans, en í fullri alvöru, þá man ég ekki einu sinni eftir því að hafa hitt hann á þessum tíma. Ég hef sagt margsinnis að ég fagni þessari staðreynd hiklaust – farðu og gáðu hvort þeir eru ekki að koma, Jón – nú hef ég kennivald kirkjuföðursins mér til stuðnings!(6)

HVORT MÖGULEGT SÉ AÐ EFAST UM ALLA SKYNJUN EÐA ER SKYNJUN FÖLSUN EINHVERS?

Þú vitnar í orð mín í Fyrstu hugleiðingu: hafi ég einhverja ástæðu til að efast um hverja [skynjun] fyrir sig, nægir það mér til að hafna þeim öllum og heldur svo áfram; fyrr má nú rota en dauðrota! Þetta er einhver sú veigamesta villa sem ég sé í þinni kenningu, því með henni fellur anzi mikið, það er augljóst að þú tekur fulldjúpt í árinni með þessari fullyrðingu. Þú vilt meina að það sem getur, mögulega, stundum verið falskt gæti ef til vill alltaf verið það. Ef við treystum á eitthvað og verðum fyrir sárum vonbrigðum, þá eigum við alls ekki að treysta á það – nokkurn tíma. Skynjunin fær hér háðuglega og hroðvirknislega útreið. Við skulum taka smá líkingu. Segjum sem svo að einhver tiltekin þjóð hafi ekkert ritmál – það gerir bröskurum harla erfitt um vik að falsa rithönd einhvers. Þeir hefðu einfaldlega ekkert til að falsa. Ef þeim dytti í hug að taka af skarið og skrifa eitthvað, þá væri það ekki fölsun neins, heldur eitthvað til að falsa.

Ef þú ætlar að halda því fram að allt ritmálið sem braskararnir fundu upp geti verið fölsun, þá spyr ég um hæl: „fölsun hvers?”. Og svona er þetta með skynjunina, hún getur ekki öll verið fölsun, svikul eða ótraust. Það hlýtur alltaf að vera einhver örugg skynjun. Jafnframt, vel að merkja, þá höfum við trúverðugar aðferðir til að komast að því hvort skynfærin séu að spila með okkur. T.d. ef ég ætla að prófarkalesa einhvern texta þá get ég farið aftur og aftur yfir hann, af meiri kostgæfni en áður – og jafnvel fengið lærðan mann mér til stuðnings. Taktu eftir að það er rétt, að ég get alltaf átt á hættu að mér yfirsjáist en það jafngildir því ekki að það sé mögulegt að mér sjáist alltaf yfir allar villur. Öllum kann yfir að sjást, en hér gengurðu of langt. Kjarni málsins er að það eru ekki rök gegn getu til skynjunar að vangeta sé til, heldur eru það rök með henni.Vissulega kemstu svo að þeirri niðurstöðu að þú hafir eina örugga skynjun, þú skynjar skýrt og greinilega að þú hugsir, og þess vegna sért þú til – en varla getur öll önnur skynjun verið fölsun á því? Skynjun á því að maður skynji er af allt öðrum meiði en skynjunin sjálf, það er einsog munurinn á að mæla tommustokk með öðrum tommustokk annars vegar og að mæla borð með tommustokk hins vegar.(7)

Ég spyr á móti: „þarf allt sem er falskt, að vera falsað? Og þarf það allt sem er falskt að hafa fyrirmynd?” Hvernig veizt þú að þetta bréf sem þú ert að lesa er ekki falsað, kannski skrifaði ég það ekki – ef til vill fann einhver bréfið þitt á undan mér og svaraði undir mínu nafni. Hann hefði ekki þurft neina fyrirmynd til að apa eftir – samt væri bréfið fölsun. Þú þykist vera búinn að sanna það að það sé röklega ómögulegt að allar skynjanir, að sjálfhverfri skynjun frátaldri en hún er skýr og greinileg af öðrum ástæðum, séu falskar. En mér finnst það fullljóst að ef ég get efazt um hverja fyrir sig, einsog þú samþykkir sýnist mér, þá geti ég efazt um skynjanirnar allar. Við erum einfaldlega ósammála um hvort fölsun þurfi yfir höfuð að vera fölsun einhvers. En þú lætur tæfilinn ganga:

Og ég vil meina að sannfæring um hvað maður skynjar ætti ekki að vera borin saman við það að vera sannfærður um að maður sé til – hvað þá að heimurinn sé til; þetta er fjarri því sammælanlegt, eða sambærilegt. Um hið fyrra sannfærist maður fullkomlega, og um hið seinna heldur maður að maður sannfærist ekki fullkomlega, þegar það er borið saman við hina sannfæringuna. En í raun er það alveg jafn „skýrt og greinilegt” og sjálfhverfa skynjunin, bara þegar notaður er hinn rétti mælikvarði. Mér finnst alltaf einsog heimspekingar leggi ekki að jöfnu hvað gerist inni í þeim, hvað gerist óháð þeim og t.d. hvað aðrir hugsa þegar skrifað er um fyrirbærið eitt og sér – en leggi það hins vega að jöfnu þegar sannfæra á fólk um tilveru þess. Þ.e. að sami sannfæringarkrafturinn skuli ganga yfir öll fyrirbrigði.

Ég er ekki viss um að ég sjái þetta í náttúrunnar skilningsljósi, að minnsta kosti ekki í því sama og þú. En þú virðist meina að maður skuli sannfærast um að heimurinn sé til út frá forsendum hans sjálfs, að maður sjálfur sé til út frá hugsunum manns og þar fram eftir götunum. Og að þó maður haldi að maður sé sannfærðari um eitthvað eitt þá eigi ekki að bera það saman við einhverja aðra sannfæringu á öðru sviði. Mér finnst þetta hálfkjánaleg kenning, hvenær veit ég að sannfæringarkrafturinn er orðinn nægur á einhverju sviði neðar í stiganum en „ego sum, ego existo”? Ertu með einhverja töfraformúlu?(8)

EÐLI EÐA NÁTTÚRA SJÁLFSINS SEM HÆGT ER AÐ FÆRA SÖNNUR FYRIR(9)

Þér verður heldur betur tíðrætt um sjálfið í bréfi þínu, og það er nýlunda hvernig þú fjallar um það, en fyrst ætla ég að vitna í þig þar sem þú reifar frumsetningu mína: „ég hugsa, þess vegna er ég til”(10) staðhæfir þú, viss í þinni sök, án þess að nokkuð hangi á spýtunni. Þetta er undarleg setning og óneitanlega mjög sannfærandi – í fljótu bragði. Hér finnst mér aftur viðeigandi að tala um stig sannfæringar. Það að ég sé til er dulin forsenda alls sem hefur að gera með mig; „fullyrðingin” ég felur í raun í sér „ég er til”, en þú snýrð þessu við. Einsog eitthvað sem ég geri sé orsök mín (þ.e. tilveru minnar). Staðhæfingin „ég hoppa, þess vegna er ég til” er því í raun alveg jafn sönn – bara öðru stigi sannfæringarinnar. Til þess að hoppa verð ég að vera til. Ég kann að meta þennan málflutning, þú virðist skilja mig nokkuð vel, en þú lætur ekki hér við sitja heldur þykir [þér] vera galli á gjöf Njarðar.

Í fyrsta lagi, skrifar þú, sýnist mér fullljóst að þú vilt sanna tilveru sjálfsins, með það til hliðsjónar að þú skrifar í latneskri útgáfu Orðræðunnar „ego cogito” en ekki bara „cogito” – sem hefði verið nóg.(11) Einnig segir í Orðræðunni að þessi hlutur eða veruleiki sem þú ert sé „þú sjálfur, það er að segja sálin”(12). Mér sýnist þú með þessu leggja mikla áherzlu á þetta atriði, og það held ég að verði kenningu þinni að falli.

Ég ritaði „ego” til að leggja á alendu að það væri ég sem hugsaði, enda er það mikilvægt atriði. Það að þú hugsir sannar ekki tilveru mína, jafnvel þó þú hugsir um mig. Aukinheldur skynja ég skýrt og greinilega að ég, ég sjálfur, það er sálin, er til. En þú bíður ekki boðanna og heldur áfram: þú ert hér strax byrjaður að ætla þér meira en það sem ekki verður efazt um, jafnvel einvörðungu að ætla þér eitthvað víst sem hægt er að efast stórlega um. Hið raunverulega sjálf er gífurlega vandmeðfarið, en þú lætur sem svo að við séum sami hugurinn frá degi til dags – eitthvað varanlegt og óbreytanlegt. Ég sætti mig við það að „það sé verið að hugsa” en ekki að þú sannir tilveru sálar, eða hvað sem þú kallar það, með því. Hvernig í ósköpunum veiztu að það er ekki e.k. heimssál að hugsa í þér, eða hvaðeina, frekar en þú hugsir sjálfur? Þú segir að púkar gætu villt fyrir þér, hvernig veiztu að það er ekki einhver púki að hugsa alfarið fyrir þig? Breytir það ekki öllu?(13)

Hér veður þú í villu og svíma, þó ég sé ekki sama manneskjan frá degi til dags þá hef ég minningu um allt sem ég hef hugsað, og skynja greinilega hvernig ég hef breytzt sem hugsandi hlutur, og þar af leiðandi ég hlýt ég að vera þær í ofanálag við sjálfið. Það að ég sé dauðlegur og síbreytilegur sýnir bara að ég er ófullkominn. En ég hef hugmynd um fullkomleika, og það er kjarni málsins; varla getur þessi hugmynd komið frá sjálfum mér? Hið smærra getur ekki valdið hinu stærra, af þessu leiðir að Guð er til, skapari alls. Þetta útskýri ég skýrt og skorinort í Hugleiðingunum. „Ef ég ætti nú tilveru mína sjálfum mér að þakka efaðist ég ekki, mig langaði ekki í neitt”(14). En ég efast, og er ófullkominn, Guð er fullkominn og blekkir ekki – ef ég væri partur af heimssál myndi ég skynja það skýrt og greinilega, líkt og tilvist Guðs. En svo er ekki.

Hefurðu velt því fyrir þér á hvað orðið „ég” vísar? Það er fjarri því að vera sömu merkingar og nafn mannsins sem segir það. Orðið „ég” hefur tvo ólíka notkunarmáta. Annars vegar er sagt eitthvað í líkingu við „ég er fótleggsbrotinn” og hins vegar „ég er með verk í tánni”, hugmyndin um sjálfið er sprottin upp úr ruglingi á þessum gjörólíku notkunum.T.d. gæti ég ruglast og haldið að fótur sem væri ekki minn, væri minn, í fljótu bragði. En það væri fáránlegt að spyrja hvort ég væri viss um að ég væri með verk en ekki bara einhver annar. Í seinna dæminu er „ég” ekki ábendingarfornafn, það vísar ekki á neitt – þetta „ekki neitt” er sjálfið sem allir halda að dúsi einhvers staðar inni í sér. Góð líking væri að segja sem svo að ég ætti páfagauk, og kenndi honum að segja „ég hugsa, þess vegna er ég til”, allir myndu vita að þetta væru orðin tóm, persónufornafnið vísar ekki á neitt. Ef ég hefði kennt honum að segja „ég er grænn að lit” þá vísaði orðið „ég” á eitthvað, og er allt annarrar merkingar. Við ættum ekki að nota ábendingarfornafn um eitthvað sem á að vera inni í okkur, við gætum allt eins verið að tala um botnlangann í okkur. „Ég” er ekki nafn á persónu, alveg eins og „hér” er ekki nafn á stað, svo það er augljóst að þú hefur ekki sannað tilveru þína, herra Descartes.(15)

Auðvitað vísar „ég hugsa” ekki á neitt hjá páfagauki, en hann hugsar einmitt ekki;(16) það geri ég aftur á móti. Þannig að þessi orð vísa á hugsun mína. Flest í þessum málflutningi þykir mér álíka fjarstæðukennt, ég hef ekki fengið tíma til að íhuga þetta í næði – ég er nú í Svíþjóð við bágbornar aðstæður. En sumt sem þú skrifar er umhugsunarvert, þegar það er sett í samhengi. Ég viðurkenni þó að ég sanna ekki tilveru Descartes (mína þ.e.) með því að setja nafnið í stað „ég” í setningunni, enda var það ekki ætlunin, svo ég vitni í Arnauld: „Ég efast um að ég hafi líkama, ég efast ekki um að ég er til, þess vegna er ég sem efast og hugsa ekki líkami minn, því að þá væri ég þegar ég efast um líkama minn að efast um tilvist mína”(17). Taktu eftir; ég hef líkama, ég er ekki líkami – en ég sanna svo að hann er til með því sem ég leiði af setningunni. Ef þú myndir setja það í samhengi svona einu sinni, og hætta að væla yfir einhverjum smáatriðum, þá myndirðu sannfærast – á hvaða „stigi” svo sem það er.

Þú klykkir út með vanhugsaðri athugasemd þú þykist vita að þú hugsir, sem má allt eins vera (þó ég sé farinn að efast um það), en þú getur ómögulega komizt að einhverju lögmáli þíns eðlis – þó þú viljir halda öðru fram. Það má líkja þessu við upplifun blinds manns af sólinni, hann finnur hitann og honum er sagt að sólin orsaki hann. Ef þú værir þessi blindi maður, myndir þú segjast hafa skýra og greinilega hugmynd um sólina, vegna þess eins að ef þú ert spurður hvað hún sé, þá getur þú svarað: hlutur sem hitar. Hún hitar, þess vegna er hún til. Þvílíkri endemis vitleysu svara ég ekki.(18)


AF GUÐI OG FULLKOMNUM EÐA ÓFULLKOMNUM HUGMYNDUM UM FULLKOMLEIKA

Næst ferð þú að huga að Guðdóminum og skrifar þar ýmislegt merkilegt sem kemur kenningum mínum bara lítillega við, en ég kann að meta það sem þú ritar – sérstaklega þetta um köngurkirtilinn.(19) Svo segist þú ekki vera sammála mér um skilninginn á fullkomleika því það sem er óendanlegt og alviturt er í raun ekki fullkomið. Alger fullkomnun er augljós þversögn, ef einhver, eitthvað, er fullkomið í einu og öllu þá er það bæði óendanlegt og endanlegt, bæði fullkomlega fullkomið og fullkomlega ófullkomið. Þannig má færa rök fyrir því að þessi hugmynd um fullkomleika, sem þú hefur, sé vitlaus; falli um sjálfa sig – og Guð með henni. Ennfremur má segja að hugmynd þín um fullkomleika hljóti að vera ófullkomin, þar sem þú er ófullkominn sjálfur og getur varla haft fullkomnar hugmyndir.

Að sjálfsögðu er þessi hugmynd um fullkomleika bara mótsögn, en nú leggjum við bara ólíkan skilning í orðið „fullkominn” sú hugmynd sem ég hef er um óendanlega, sjálfstæða, alvitra og almáttuga verund(20) sem getur ekki verið minn uppspuni – því ekki veldur hið ófullkomna hinu fullkomna. Ennfremur má segja að hugmynd um fegurð er falleg, um ljótleika er ljót, um blátt er blá og þar fram eftir götunum, ef hugmynd um blátt er ekki blá þá er það einfaldlega ekki hugmynd um blátt. Ófullkomin vera getur auðveldlega haft fullkomnar hugmyndir, hún getur bara ekki verið orsök þeirra.(21)

Aukinheldur finnst mér þú taka sem sjálfsagðan hlut að geta skynjað óendanleikan skýrt og greinilega, þá sérstaklega óendanlega vitneskju,(22) ég get bara ómögulega verið sammála þessu, ekki hef ég þessa skýru hugmynd. Þetta er í raun svipað og að spyrja tilfinningalausan og lamaðan mann sem aldrei hefur fundið til sársauka á sinni ævi hvað sársauki er. Getur hann haft skýra og greinilega hugmynd um það?

Ég hafði búizt við þessum andmælum, því hverjum og einum virðist detta þau í hug. Kannski er það ástæða til að svara rækilega. Hér geri ég greinarmun á hinu óákveðna og hinu óendanlega, ég kalla aðeins það óendanlegt sem hefur engin takmörk; í þessum skilningi er bara Guð óendanlegur. Það er sem er óákveðið er t.a.m. hve margar tölur eru til og í hve marga parta hægt er að skipta hinu og þessu – þetta er nefnilega ekki óendanlegt að öllu leyti. Ég viðurkenni, líkt og guðfræðingarnir, að maðurinn geti ekki höndlað að hugsa um Guð í öllu hans veldi. En hann getur hugsað um hverja hlið hans í einu. Auðvitað hefur þú hugmynd um óendanlega vitneskju – vitneskja sem hefur engar takmarkanir. En það er með óendanlega vitneskju, og Guð, að skilningur á henni er í okkur með fremur ráðvilltum hætti, einsog Tómas frá Akvínó segir. Ég hunza þetta sem þú skrifar síðast af augljósum ástæðum.(23)

VÍTAHRINGUR, LÍKAMSLAUS HUGSUN OG STAÐFESTING Á „HINUM“

Að lokum tæpir þú á þremur atriðum, í fyrsta lagi vitnar þú í Hugleiðingarnar, „…öll sönn og áreiðanleg þekking er í einu og öllu komin undir vitund minni um hinn sanna Guð. Áður en ég öðlaðist þekkingu á honum hafði ég fullkomna þekkingu til að bera…”(24) og segir svo: hér skýturðu sjálfan þig svo sannarlega í fótinn. Hvernig fórstu að því að sanna tilveru Guðs fyrst þú öðlast ekki fullkomna þekkingu fyrr en búið er að sanna tilveru hans? Hvernig gaztu þá verið viss um frumsetningu þína? Þú hafðir þá ekki í vitund þinni hinn sanna Guð. Hér má vera að ég hafi ekki passað mig nógu vel á orðavali, en staðreyndin er sú að við getum treyst á sum skýr og greinileg sannindi án þess að vera viss um tilveru Guðs. Þessi sannindi eru sönn per se og áreiðanleg á meðan við einbeitum okkur að þeim og „ég hugsa, þess vegna er ég til” eru einmitt slík sannindi.(25)

Aftur vitnar þú í mig, nú úr Orðræðunni, „…ég gat látið sem ég hefði engan líkama…”(26) og kemur svo með fljótfærnislega líkingu, sem er greinilega það eina sem þú kannt: Getur þú ímyndað þér að skólinn í La Fléche sé til, þegar búið er að jafna hús skólans við jörðu? Ég get svarað þessu í nokkrum orðum; hefur þú aldrei heyrt um að það sé kennt undir berum himni? Síðan hvenær skipta hús skólans einhverju máli, þetta styður kenningu mína frekar en hitt!(27)

Það seinasta sem ég ætla að gagnrýna við þetta allsherjarkerfi þitt er það að, í raun, þá staðfestir þú tilveru annarra (þ.e. hinna) í frumsetningunni sjálfri. Þegar þú segir „ég hugsa” ertu ekki einvörðungu að staðfesta tilveru þína, heldur líka þess sem þú ert að tala við. Vissa þín um tilveru „hins” er fólgin í setningunni. Þú gerir þér grein fyrir að þú gætir ekki verið það sem þú ert (þ.e. res cogitans(28)) nema aðrir viðurkenni þig sem slíkan. Þannig skil ég heimspeki þína, herra Descartes. Ég er sannfærður um að þú hefðir aldrei fengið opinberunina nema þú værir viss um bæði tilveru þína og annarra, ef þú veltir vöngum yfir þessu munt þú sjá – ef til vill skýrt og greinilega – að þetta er sannleikanum samkvæmt.

Í fljótu bragði hef ég lítið við þessu að segja, þetta er ekki svo galið, enda fellur kerfi mitt alls ekki með þessari staðreynd, ég sannaði að lokum tilveru „hins” einsog þú svo fjálglega orðar það.(29) En eitt er það sem virðist fara framhjá mörgum, að það var aldrei mitt aðal mark og mið að sanna að heimurinn væri til. Ég get vitnað í sjálfan mig, því til staðfestingar: „Þessi rök gera ekki mest gagn, að mínu viti, fyrir þá sök að þau sanna niðurstöðurnar – nefnilega að heimurinn er til, og að menn hafa líkama og þar fram eftir götunum – því að enginn sem er heill á geðsmunum hefur nokkru sinni dregið þessar niðurstöður alvarlega í efa.”(30) Takmark mitt var mun frekar að heimur eðlisfræðinnar, heimurinn sem hægt er að lýsa með stærðfræði, gæti verið kortlagður og útskýrður með fullri vissu – þrátt fyrir að skynfærin leiði manninn á stundum villan vegar. Ég tel mig hafa sýnt fram á þetta.(31)


Il faut parier,(32)
René Descartes

EPILOGUS…

Margir hafa haldið því fram statt og stöðugt að bréfið sem birtist hér í fyrsta skipti í íslenzkri þýðingu sé fölsun, og er m.a.s. stungið upp á því í sjálfu bréfinu. Hér verður ekki tekin afstaða til þess, en þó er víst að bréfið varpar einhverri tíru á kenningar Descartes og hlýtur því að vera einhvers virði. Ef þetta er ófalsað bréf, er mjög líklegt að þetta sé það síðasta sem Descartes skrifar og því ómetanleg heimild um hvernig hann leit á kenningar sínar undir endalokin. Ekki má sjá að hann hafi skipt alfarið um skoðun, eða söðlað um á einhvern afdrifaríkan hátt. Þó má greina smá tilbreytingu við það sem stendur í bókum hans í lok bréfsins – en ég tel það alls ekki hafa verið nýtilkomna skoðun hjá Descartes. Hann var alltaf mjög stærðfræðilega sinnaður maður, og skrifaði mikið þeim viðvíkjandi. Á því sviði er hann kannski hvað þekktastur fyrir að hafa uppgötvað hnitakerfið og hitareikninginn sem er snar þáttur í stærðfræði nútímans.


SKÝRINGAR…

(1) Henri Regnier, eða Reneri (Encyclopædia Britannica. Descartes, René) (1593-1639) var lærisveinn Descartes í Háskólanum við Leiden árið 1630 (Copleston, Frederick 1958:174), það er alls ekki víst að hann hafi verið sá sem átti að fá bréfið því að nafn hans máðist af einsog fyrr segir. Einnig hafa verið leiddar líkur að því að Gísli Magnússon (1621-1696), sýslumaður á Hlíðarenda í Fljótshlíð hafi átt að fá bréfið (Þorsteinn Gylfason 2001:27). En þetta eru allt eintómar getgátur, fullkomlega úr lausu lofti gripnar.

(2) Descartes skrifar oft um náttúrunnar skilningsljós og á þá við að „Guð [hafi] gætt hvern og einn nokkru ljósi, að hann megi greina rétt frá röngu…”, (Descartes, René 1991:90) sem er ef til vill af sama meiði og það sem hann segir í byrjun Orðræðunnar um brjóstvitið: „[því] er deilt með mönnum af mestum jöfnuði, því hver og einn þykist gæddur því í svo ríkum mæli, að jafnvel þeir, sem örðugast er að gera til hæfis í öllum öðrum greinum, telja sig ógjarnan afskipta í því efni.” (Descartes, René 1991:61). Hann sagði hvergi að konur hefðu meira brjóstvit en karlar, því þær væru með stærri brjóst; enda væri fáránlegt að halda slíku fram!

Á latínu skrifar hann „lumen naturelle”, á frönsku „lumiére naturelle” og í enskum þýðingum stendur annað hvort „natural intellegence” eða „natural vision“. Þýðingin „náttúrunnar skilningsljós” kemur frá Jóni Þorkelssyni (1697-1759) rektors í Skálholtsskóla, í íslenzkri þýðingu Magnúsar G. Jónssonar á Orðræðunni stendur hins vegar „eðlileg sýn” (Descartes, René 1991:169-170 & 70).

(3) Þetta orðalag er Descartes heldur betur tamt og það getur valdið ruglandi upp á íslenzku, því þetta er hvunndagsleg tugga einsog „satt og rétt” og „glaður og reifur” s.s. klifun. En Descartes notar þetta ekki á þennan hátt, hjá honum eru orðin ekki sömu merkingar – hann segir „að hugmyndir geti annars vegar verið skýrar frekar en myrkar, og hins vegar greinilegar frekar en ógreinilegar” (Þorsteinn Gylfason 2001:93 & 91-107 til frekari glöggvunar).

(4) Bréfritarinn (þ.e. sá fyrri, ekki Descartes) er greinilega léttur í lund og hefur mál sitt með meinlausri kerskni. Til að lesa sjálfa aðferðina og nánar um hvað Leibniz gekk til með þessum ummælum sjá Þorstein Gylfason 1991:21-23.

(5) Antoine Arnauld var fyrstur til að benda á þessa samsvörun, í Mótbárum númer fjögur, hann bendir þó á annað rit en hér er gert. Blaise Pascal (1623-1662) minnist einnig á þetta 1655 í De l’art de persuader (Pascal, Blaise. Bibliographie). Arnauld vísaði á De Libero arbitrio bók II, 3ðja kafla (Descartes, René o.fl. 1952:144); en einnig hefur þetta fundizt víða í De trinitate og í Soliloquim (Þorsteinn Gylfason 2001:35). Ritið sem hér er bent á, De civitate Dei, inniheldur stuttan kafla sem er mjög áhugavert að lesa með rit Descartes til hliðsjónar, Gunnar Harðarson hefur þýtt lauslega hluta þessa kafla, og leyfi ég honum að fylgja hér:

Því að við erum til og við vitum að við erum til og við unnum tilveru okkar og vitneskju. Og við erum viss um sannleika þessara þriggja hluta. Því að þeir eru ekki eins og viðföng skynjunar okkar, sem geta blekkt okkur með því að segja okkur rangt til. Ég sé ekki að hér gildi rök efahyggjumanna né að þeir geti sagt: En þér skjátlast? Því að ef mér skjátlast, þá er ég til, því að manni getur ekki skjátlast nema hann sé til. Úr því að ég er þá til, ég sem skjátlast, hvernig getur mér skjátlast um það að ég sé til, úr því að það er öruggt að ég er til ef mér skjátlast? Og úr því að það yrði alltaf mér sjálfum sem skjátlaðist, þegar að því kæmi að mér skjátlaðist, þá er hafið yfir allan vafa að mér getur skjátlast í því að ég er til (Gunnar Harðarson. Cogito Ágústínusar, sjá einnig Augustine 1952:336-337).

Á latínu myndi þetta í stuttu máli útleggjast „si fallor, sum”, sem er vissulega nauðalíkt frumsetningu Descartes. Þetta hefur verið þýtt sem „ef mér skjátlast, þá er ég til” einsog Gunnar gerir hér, en orðréttari þýðing væri kannski „ef ég er blekktur, þá er ég til”.

Það er allt á huldu um það hver þessi Johann Werther frá Ulm hefur verið, nema þetta sé hinn upprunalegi Werther ungi Goethes, en það er í hæsta máta ólíklegt. Bréfritarinn vitnar hér tvisvar í Orðræðuna, sjá Descartes, René 1991:69.

(6) Þetta dregur mjög dám af því sem Descartes svarar Arnauld til í Mótbárum númer fjögur, sjá Descartes, René o.fl.. 1952:152. Það sem hann skrifar í lokin „farðu og gáðu hvort þeir eru að koma, Jóhann” er á frummálinu „va t’en voir s’il viennent, Jean” og er orðtak sem þýðir, þótt ótrúlegt megi virðast: „þú getur bókað það” (sjá t.a.m. Frændi Rameaus e. Denis Diderot, í útgáfu Hins íslenzka bókmenntafélags. 2000. bls. 144.)

(7) Þessi mótrök eru ótrúlega lík þeim sem Gilbert Ryle beitir í bók sinni Ógöngur (Ryle, Gilbert 2000:213-225), hann notar þó aðeins öðru vísi líkingu: „Land sem hefur enga mynt gefur peningafölsurum ekkert svigrúm” bls. 216. Það hjálpar líklega að lesa útgáfu Ryles til að skilja bréfritarann hér. Þessi tommustokka-líking á sér þó enga hliðstæðu hjá Ryle, enda er bréfritarinn á svolítið annarri bylgjulengd en hann. Í byrjun er vitnað í Descartes, René 2001:134.

(8) Bréfritarinn er vægast sagt óskýr í orðanotkun hér, en hugsunin kemst nokkurn veginn til skila. Það virðist vera að Descartes nái að fella þessa mótbáru með nokkrum orðum, en þetta er umhugsunarvert. Þó hnýt ég um eitt sem hann segir, þ.e. að þessi tilteknu fyrirbrigði séu ekki sammælanleg – ef þau væru ekki sammælanleg þá gæti hann nú varla komizt að því að þau væru það ekki. Ef þú telur þig geta fullyrt að eitthvað sé ekki sammælanlegt, þá bara hlýtur það að vera sammælanlegt! Þessar mótbárur eru helzt til ólíkar því sem nýlegri heimspekingar hafa skrifað, nema þá kannski Bertrand Russell (1872-1970) og Alfred Jules Ayer (1910-89) um skynreynd og slíkt, þó er ekki minnst einu orði á „mismunandi styrk sannfæringarinnar” o.þ.h. svo ég viti til. Í lokin vitnar Descartes í sjálfan sig (Descartes, René 2001:142), bara á latínu.

(9) Descartes notar þetta orðalag líka í Orðræðunni „eðli eða náttúra” (Descartes, René 1991:99).

(10)Þetta er án vafa einhver frægasta setning sögunnar, og hefur mikið verið um hana rætt og ritað. Bréfritarinn á eftir að fjalla af kostgæfni um hina ýmsu hnökra setningarinnar, en gerist þó líklega sekur um algengan misskilning í þessari fyrstu efnisgrein. Upp úr þessum misskilningi hefur orðið til brandari nokkur sem ég set hér til gamans: Descartes var á bar í Lundúnum að drekka öl, þegar hann hefur setið í dágóða stund og klárað úr einni krús kemur barþjónninn til hans og spyr: „would you like another?” Descartes svarar: „I think not” og hverfur. Það er mjög auðvelt að misskilja þessa setningu, sérstaklega upp á okkar ástkæra ylhýra, „ergo” er þýtt sem „þess vegna” en þetta er ekki orsakasamband; einungis ályktun, eða sönnun. Réttari íslenzk þýðing væri kannski „ég hugsa, samkvæmt því er ég til”. Descartes virðist ekki sjá að bréfritarinn gerist sekur um þessa villu, eða horfir framhjá því. Reyndar hafa verið leiddar líkur að því að Descartes hafi verið orðinn veikur þegar hann skrifar bréfið og því kannski verið með óráði – ýmislegt í efni bréfsins bendir sterklega til þess.

(11) Þorsteinn Gylfason 1991:173.

(12) Ibid. 99. Til frekari glöggvunar má vitna í fræga efnisgrein úr Hugleiðingunum „Hvað er ég? Hugsandi vera. Hvað er það? Vera sem efast og skilur, játar og neitar, vill og vill ekki, ímyndar sér og skynjar”(Descartes, René 2001:146).

(13) Mér þykir sæta furðu hve þessi rök eru yfirmáta lík þeim sem Bertrand Russell beitir tæpum þremur öldum síðar, bréfritarinn hefur augljóslega verið langt á undan sinni tíð í hugsun (Russell, Bertrand 1983:8). Russell tekur þó líklega hugmyndina um að hann geti ekki vitað hvort hann sé sami hugurinn frá degi til dags frá Immanuel Kant (1724-1804); bréfritarinn hefði mátt eyða fleiri orðum í að útskýra sínar hugmydir hér. „Ef við höfum enga leið til að tala um sama hugann frá einum tíma til annars, eða gera greinarmun á einum hug og mörgum hugum á sama tíma, virðumst við ekki geta talið þennan hug vera einn sjálfstæðan veruleika” (Þorsteinn Gylfason 2001:100). Heimssálina er þó hvergi að finna hjá Russell og satt bezt að segja hefði verið skemmtilegt að sjá Descartes svara þeirri pælingu nánar (Þorsteinn Gylfason 2001:100-101). Hér er ekki úr vegi að setja litla limru eftir Mikael M. Karlsson:

When Descartes was trying to be,
he reasoned: „je pense, donc je suis”,
thus a thinker exists,
but my problem persists,
for how do I know it is me? (sjá aftanmálsgrein 42 hjá Geir Þ. Þórarinssyni).

Einnig má til gamans geta þess, bréfritaranum til stuðnings, að Roger Waters syngur í laginu „Brain Damage” af plötunni Dark Side of the Moon með Pink Floyd þá kyngimögnuðu setningu: „There’s someone in my head but it’s not me”. Descartes hefði átt að hlusta á Pink Floyd, það er deginum ljósara.

(14) Descartes, René 2001:172 & sjá t.d. 168-169 til að sjá sönnunina. Kant kallaði þetta heimsfræðirökin fyrir tilveru Guðs. Bréfritarinn á eftir að fjalla betur um þau.

(15) Það er hreint út sagt ótrúlegt hve þessi efnisgrein er lík einhverju sem Ludwig Wittgenstein (1889-1951) hefði sagt, hann hefði þó getað sagt margt fleira. Það mætti halda að þetta væri tekið beint upp úr Bláu bókinni (Wittgenstein, Ludwig 1998:203-212; aukinheldur: Wittgenstein, Ludwig 1974:120-127 greinar 398-428). Ég er samt efins um að Wittgenstein hefði líkt þessu við páfagauk – annars er aldrei að vita.

(16) Hann færir sín frægu rök fyrir þessu í Orðræðunni (Descartes, René 1991:126-129). Þessi rök hafa verið uppi á pallborðinu undanfarið, með tilkomu s.k. gervigreindarfræða. Hægt er að lesa góða umfjöllun um þau efni í nýútgefinni bók Atla Harðarssonar; Af jarðlegum skilningi. Háskólaútgáfan. 2001: 4ði kafli.

(17) Þorsteinn Gylfason 2001:72.

(18) Pierre Gassendi hafði þegar spurt Descartes á mjög líkan hátt, og svar hans var m.a.s. mjög líkt þessu. Ég fæ ekki betur séð en þetta séu ágætis rök gegn Descartes – en Guð fer nú varla að blekkja hann þannig að eitthvað hlýtur að vera til í orðum hans (sjá Descartes, René 1952:174-175 & 209, númer 6).
(19) Köngurkirtill er líffæri sem Descartes taldi vera í heilanum, þar á að eiga sér stað víxlverkun efnis og anda (Gaarder, Jostein 1995:224 & Þorsteinn Gylfason 1991:189).

(20) Svipuð upptalning á sér stað í Hugleiðingunum (Descartes, René 2001:162).

(21) Sjá §8 hjá Þorsteini Gylfasyni (Þorsteinn Gylfason 2001:51-58)

(22) Ibid. 52-53.

(23) Þetta svar er mjög líkt nokkru sem Descartes segir í Svörum við fyrstu mótbárum, spurningarnar eru þó ekki jafn líkar (Descartes, René o.fl.. 1952:106 & 112). Tómas frá Akvínó (1225-1274) var mjög áhrifamikill guðfræðingur og heimspekingur (Gaarder, Jostein 1995:170). Það er kannski ekki eins augljóst og Descartes heldur hvers vegna hann hunzar sársaukalíkinguna. Líklega fannst honum þetta ekki við hæfi því „sársauki” er ekki komið frá Guði einsog óendanleikinn og annað þess háttar.

(24) Þorsteinn Gylfason 2001:97.

(25) Þetta er kallað „vítahringur Descartes”. Þessi vítahringur er um þessar mundir mikið drekasæði fræðimanna því hann á sér hliðstæður í þekkingarfræði nútímans (Þorsteinn Gylfason 2001:95-98).

(26) Descartes, René 1991:98.

(27) Halda mætti að Atli Harðarson hafi þekkt til bréfsins, sem andmælandin hefur skrifað, þótt ótrúlegt megi virðast – það er með öllu týnt. En Atli notar nákvæmlega sömu rök gegn kenningu Descartes og bréfritarinn gerir hér í bók sinni Afarkostir. Eini munurinn er að Atli notar Fjölbrautaskóla Vesturlands sem dæmi – ætli hann sé á einhvern hátt frábrugðinn öðrum skólum þá? Þ.e. að þar verði að kenna innan veggja skólans (Atli Harðarson 1995:52-53).

(28) Sjá Þorstein Gylfason 2001:229 skýring 32.

(29) Nú þykir mér tíra á tíkarskottinu! Þessu hefði bréfritarinn auðveldlega getað stolið frá Jean-Paul Sartre (1905-1980), nema Sartre hafi á einhvern ótrúlegan hátt stolið þessu frá honum. Sartre fjallaði um þetta í fyrirlestri sínum „L’Existentialisme est un humanisme” (Copleston, Frederick S.J. 1958:150-151 & Sartre, Jean-Paul. Existentialism and Humanism:hlutar 22-23).

(30) Descartes, René 2001:132.

(31) Hér kveður eiginlega við nýjan tón hjá Descartes, í Hugleiðingunum skrifaði hann á eftir ívitnuðu orðunum á þá leið að hann hafi vilja sýna að rökin fyrir efahyggju eru ekki eins gagnsæ og traust og rökin fyrir tilveru Guðs og okkar sjálfra, svo það verði augljósustu og áreiðanlegustu þekkingaratriði mannlegs skilnings (Descartes, René 2001:132)

(32) Samkvæmt óstaðfestum heimildum er þetta einmitt það sem Descartesskrifaði í lok persónulegra bréfa, og styður það trúverðugleika bréfsins (http://www.arches.ro/archives/summer2002/c-arad2.htm). Lausleg þýðing gæti verið: „Nú verður að kveðja“.

HEIMILDASKRÁ…

FRUMHEIMILDIR

Descartes, René. 2001. Hugleiðingar um frumspeki, Þorsteinn Gylfason þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Descartes, René. 1991. Orðræða um aðferð, Magnús G. Jónssn þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Descartes, René o.fl.. 1952. „Objections Against the Meditations, and Replies”. Great Books of the Western World. 31. Descartes. Spinoza, bls. 104-293. Ritstj. Robert Maynard Hutchins. Encyclopædia Britannica, Inc., Chicago.

STOÐRIT

Augustine, Saint. 1952. „The City of God“. Great Books of the Western World 18. Augustine. Bls. 129-618. Ritstj. Robert Maynard Hutchins. Encyclopædia Britannica, Inc., Chicago.

Atli Harðarson. 1995. Afarkostir. Háskólaútgáfan, Reykjavík

Blackburn, Simon. 1996. Oxford Dictionary of Philosophy. Oxford university press, New York.

Copleston, Federick S.J.. 1958. A History of Philosophy. Burns Oates & Washbourne Ltd., London.

Geir Þ. Þórarinsson. Que-sais je? Tilraun um þátt úr sögu heimspekinnar.
www4.mmedia.is/geirth/te-montaigne.htm [sótt 8da marz 2003]

Gilson, Étienne. 1994. Að skilja heimspeki Descartes, Gunnar Harðarson þýddi. Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Gunnar Harðarson. Cogito Ágústínusar.
www.hi.is/~gunhar/nyold/augustinus.htm [sótt 18da marz 2003]

Encyclopædia Britannica. Descartes, René. Residence in the Netherlands.
http://search.eb.com/eb/article?eu=115145 [sótt 15da marz 2003]

Pascal, Blaise. Bibliographie. De l’art de persuader.
http://philosophons.free.fr/philosophes/pas cal/pascal.htm [sótt 18da marz 2003]

Russell, Bertrand. 1983. The Problems of Philosophy. Oxford University Press, New York.

Ryle, Gilbert. 2000. Ógöngur, Garðar Á. Árnason þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík

Sartre, Jean Paul. Existentialism and Humanism.
http://www.cis.vt.edu/modernworld/d/Sartre.h tml [sótt 23ðja marz 2003]

Wittgenstein, Ludwig. 1974. Philosophical Investegations. Basil Blackwell, Oxford.

Wittgenstein, Ludwig. 1998. Bláa bókin, Þorbergur Þórsson þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Þorsteinn Gylfason. 2001. Inngangur og skýringar við Hugleiðingar um frumspeki. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Þorsteinn Gylfason. 1991. Inngangur og skýringar við Orðræðu um aðferð. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.