Á heimspeki korkinum er grein um heimspekilega stærðfræðina. Hún hefur fengið mig til að staldra aðeins við pælingar um sambandið á milli ílátsins og innihaldsins.
Dæmi um ílát og innihald geta verið babúskur, rússnesku trékonurnar sem eru hverjar inni í annarri. Við getum spurt okkur hvaða babúska sé ílát undir hinar og hverjar eru innihaldið. Er það stærsta babúskan sem hinar eru inni í? Hvað ef hún er opnuð og hinar teknar út, er þá næst stærsta babúskan orðin að ílátinu? Eru kannski allar babúskurnar ílát, nema sú minnsta, hún er innihaldið því hún getur ekki verið ílát neinnar?
Mörgum kann kannski að finnast þetta fánýtar pælingar en það er auðvitað alls ekki svo við nánari skoðun og ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Á korkinum var spurt hvort 1+1 er alltaf =2 Bestu stærðfræðingarnar sýndu fram á að það þyrfti ekki ekkert að efast um að 1+1=2 er algilt.
Segjum nú að ég hafi tvær babúskur 1+1=2 Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að það eru 3 inni í annarri en 4 í hinni. Því ætti rétta svarið að vera 1+(3)+1+(4)=9 babúskur. Einhver getur hins vegar staðhæft á móti að 7 eru ílát en 2 eru innihald og því eru babúskurnar bara 2. Við nánari skoðun gæti svo komið í ljós að minnstu babúskurnar eru líka ílát, þær eru opnanlegar, en tómar, eru þá allar ílát og engin babúska?
Til að tengja þetta við talnafræði, þá getum við spurt hvort tölur séu ílát eða innihald? Er t.d. talan 2 ílát sem geymir tvö stök og þá 1 innihald en ekki ílát? Já getur einhver sagt, en segjum nú að 1 sé ílát sem geymir (0) og (1) eða (2) og (-1)? Popcorn nefndi það í sinni bollaleggingu að 1 er stak skv. skilgreiningu. Líklega er það rétt og eina leiðin til að ákveða um þessa hluti, samkomulag um skilning eða kannski rétta samkomulag um gildi.
Ílát og innihald tengjast ekki aðeins hlutum eða tölum. Ílát og innihald eru t.d. þessir stafir sem mynda þessi orð sem eru ílát utanum um merkingu. Stafirnir eru hliðstæður við hljóð sem geta líka myndað orð og verið þannig ílát utan um merkingu, þ.e. innihald. Hér erum við farin að nálgast hina eiginlegu pælingu sem hefur verið að leita á mig og vona að geti komið af stað heilabrotum hjá öðrum. Það er skyldleikinn með þessu öllu þ.e. rúmfræðilegum formum, stærðfræði og tungumálinu. Reyndar getum við bætt við efni og orku, en efnið er ílátið fyrir orkuna. Samt er ekki alveg víst hvað er ílát og innihald hvers.
M.