Ég var að skoða áhugamál sem nefnist “Syndir”. Greinarhöfundar skrifa þarna um einhver afglöp sem þeir hafa framið og hafa samviskubit yfir. Stjórnandi áhugamálsins tekur skýrt fram að þarna er ekki endilega verið að tala um syndir í biblíulegum skilningi. Nú læt ég liggja á milli hluta hvort hægt sé að ræða um synd í öðru samhengi en biblíulegu og þá sérstaklega í kristilegu, en ætla sjálfur að reyna að átta mig á henni í sínu kristilega samhengi.

Nú eru sjálfsagt margir sem hafna kristni sem jafnframt hafna því að til sé synd. Því skv. kristni er syndin uppreisn eða afbrot gagnvart Guði og trúi maður ekki á Guð þá er markleysa að tala um afbrot eða uppreisn gagnvart því sem ekki er til.

Ég læt líka liggja á milli hluta hér að velta fyrir mér hvort Guð sé til eða ekki, heldur ætlað ég að skoða þetta líkingarlega og setja upp hliðstæðu: Syndin er afbrot eða uppreisn gegn einhverjum, getur verið vinur okkur, foreldri, barn, samfélagið osfrv. Í þessari hliðstæðu minni reyni ég að skoða syndina eins og hún væri í þessu trúarlega samhengi.

Í sínu kristna samhengi er syndin tilkomin vegna hins frjálsa vilja sem við höfum (læt hjá líða að vera með vangaveltur um erfðasyndina). Sem slík komumst við nánast ekki hjá því að fremja syndir. Lögmál Guðs er hið góða, kærleikurinn og á hverjum degi hljótum við að brjóta gegn þessu boðorði, það er einfaldlega innbyggt í taugakerfi okkar að angrast, pirrast og sýna einhverjum “vígtennurnar”, fyrir utan það þegar við föllum í freistni gagnvart lostanum í okkur og öllum þeim ódyggðum sem geta blundað í einum manni. Sjálf fyrirmynd hinna kristnu, Kristur sjálfur, syndgaði oft, t.d. þegar hann missir stjórn á skapi sínu og æðir um musterið nánast frávita af reiði yfir vanhelguninni.

Í kristni er syndin þannig nánast sjálfgefin, en það er líka fyrirgefningin. Öll kristin guðsþjónusta nánast hverfist um fyrirgefningu: Guð fyrirgefur allar syndir sem einstaklingurinn játar frami fyrir honum í iðrun og trú. Mismunandi kristnir söfnuðir nota mismunandi aðferðir við að koma þessu á framfæri, en allir eiga það sameiginlegt að fyrirgefa syndir. Ansi merkilegt fyrirbæri ef maður fer að spá í það.

Ef við yfirfærum þetta núna yfir á hinn mannlega heim, hvað þýðir þetta? Þetta þýðir einfaldlega að hvað sem við gerum á hlut einhvers þá fyrirgefur hann okkur það. Við þurfum bara að biðjast afsökunar af einlægni og þá er fyrirgefningin tryggð, eins og afbrotið hafi aldrei verið framið. Sá sem fyrirgefur, gerir það í fullkomnum kærleika, tilfinningalíf hans gárast ekki einu sinni við það að heyra syndarann játa frami fyrir honum að hann hafi verið honum ótrúr, stolið frá honum, myrt einkabarn hans, skáldað um hann illmælgi og borið út, eyðilagt líf hans osfrv. Hann ber jafnmikla elsku til syndarans jafnt sem áður og fyrirgefur honum þetta allt, í það óendanlega. Jafnvel þótt hann viti að hann muni gera þetta aftur og aftur. Fullkomlega ómennsk hegðun.

Það merkilega við þetta er að þessi “ómennska hegðun” að geta fyrirgefið í það óendanlega í fullkomnum kærleika, er ekki óraunveruleg. Kristin söfnuður, kristin kirkja gerir þetta við guðþjónustuna. Allt “leikritið” sem er sett upp hefur þetta að markmiði, öll umgjörðin, bænirnar, blessunin, fyrirgefningin allt virðist miða að þessu eina; að fyrirgefa allar syndir í fullkomnum kærleika. Ansi merkilegt ef hugsað er út í það.

M.