“Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil…” Texti úr lagi sveitarinnar Ný Dönsk, lagi sem er búið að endurvekja í auglýsingum á fjarskiptabúnaði. Stenst þessi fullyrðing Björns Jörundar?

Hvað er frelsi? John Stuart Mill segir í riti sínu “Frelsið” að frelsi sé að geta gert það sem manni fýsir, svo framarlega sem það skaði engann.

Afhverju viljum við vera frjáls? Er sú hvöt í huga okkar? Eða er frelsisþrá lífeðlisleg hvöt, líkt og hungur eða þorsti?

Ef frelsisþrá er lífeðlisleg hvöt, þá hefur ekki enn tekist að mæla hana. Ekki að mér vitandi, endilega leiðréttið mig ef það er rangt.

Ef þráin er í huga okkar, sem hvorki hefur tíma né rúm, hvernig getur þá þessi þrá, sem hvorki hefur tíma né rúm, haft áhrif á heilann - sem er efnislegur? Hvernig getur eitthvað óefnislegt haft áhrif á hið efnislega?

Hvers vegna steypir fólk harðstjórum af stóli? Flýr úr fangelsum? Eða sleppir því að brjóta lögin til að lenda í fangelsum?

B.F. Skinner segir í riti sínu, “Beyond Freedom and Digity” (lauslegri þýðingu höfundar) að: “Barátta mannkyns fyrir frelsi stafar ekki af vilja til að vera frjáls, heldur af vissum atferslismynstrum sem einkenna manneskjuna. Þar vega þyngst áhrif forðunar eða flótta sem orsökuð eru af svokallaðri óbeitarskilyrðingu frá umhverfinu.”

Samkvæmt Skinner erum við það sem í daglegu tali er kallað “fórnarlömb aðstæðna”.

Mér finnst Skinner skýra þetta ágætlega. Hans röksemdafærsla heldur betur en hinar tvær. En ég efast um að Skinner hafi rétt fyrir sér. Afhverju ætti hann, af öllum þeim sem hafa velt þessu fyrir sér, að hafa komist að réttu niðurstöðunni?