Hér sat ég um helgi og las leiðinlega, þurra danska bók fyrir skólann um hörmungar þegar eitthvað sló mig.

Þessi ákveðna tilvitnun sem kom þessari skrift í gang var frá ákveðinni konu komin sem öskraði og veinaði að hún gæti ekki gert neitt vegna þess að hún hefði svo mikið að gera. Þetta getur maður sér hvar sem er, líklega hafið þið öll lent í þessu. Því eldri sem maður verður, því meira áberandi verður þetta. Ég er á fyrsta ári í menntaskóla, og þegar hef ég engan tíma, eða frekar, ekki nógan tíma til þess að virkilega gera eitthvað. Og hvað tekur tímann?

Í þessu tilfelli menntun. Þetta heilaga hugtak. Við erum menntuð eða siðmenntuð. Ómenntað fólk er illt fólk, fólk sem sker sig úr.

Það er það sem þjóðfélag er. Það eru allir soðnir niður í sama farið, stereótýpur. Þeir eldri ganga í jökkum, þeir lægri í einhverju léttara, hvor hópur þráir að vera hinn. Sá fyrrnefndi vill frelsi frá vinnu, sá seinni frelsi frá menntun. Báðir hópar eru fórnarlömb samfélagsins. Fólk hatar þessa skyldu sem á það hefur verið lagt, það finnur enga hamingju lengur. Of langur tími hefur liðið í rútínu. Þess vegna er það að, eins og hver maður veit, þetta kerfi sem við búum við virkar alls ekki. Til að kerfi eins og þjóðfélag okkar er gæti virkað fullkomlega þurfa allir að vera eins.

En það erum við ekki. Við erum öðruvísi, við erum einstaklingar. Hið fullkomna þjóðfélag, Útópían, er ekki möguleg. Ímyndið ykkur Útópíuna. Hver og einn einstaklingur eins og aðhyllist aðeins það starf sem honum var úthlutað, hugsunar ?og hamingjulaust. Hvað væri það? Hræðilegt, en fullkomið.

Fullkomnun. Það er það sem Guð er og hefur alltaf verið, fullkomnun. Eitthvað sem við menn erum ófærir um. Með Guði viljum við leiðtoga sem er óvéfengjanlegur. Við viljum að fullkomnun sé til með Guði, því að þegar við deyjum viljum við öðlast hana, viljum við halda í von.

Er von það sem bindur okkur saman, það sem menn eiga sameiginlegt?

Sem færir mig aftur að upprunalega umræðuefninu. Ég vona að ég geti einhvernveginn notið lífsins án þess að taka heilalaust á móti því sem soðið er ofan í mig með menntun minni. Siðferði er það sem við lærum helst í skólum, gott sem slæmt. Það sem maður lærir af kennaranum er ekkert miðað við það sem við lærum um lífsins gang af öðrum nemendum í sömu sporum. Síðan erum við rekin af hinni eiginlegu menntabraut, og látin læra það sem er hægt aðrir geta kennt manni inní tímum.

Við erum helstu kennararnir, við vitum hvaða kennsluaðferðir virka á okkur sjálf. En hinsvegar eru okkur aðeins gefin ákveðin vitneskja til að kenna sjálfum okkur, sem færir okkur aftur að samfélaginu sem við búum í.

Hvar er frelsið? Getum við gert það sem okkur lystir? Kerfið er sett svo upp að allir eiga að vera að þjóna sjálfum sér, en jafnframt að þjóna fjöldanum. Það að maður sé að svíkja fjöldann er rugl. Það eina sem við hugsum um erum við sjálf, okkar eigin hagsmunir, og það er alls engin hræsni eða vitni um skort á manngæsku, það er einfaldlega staðreynd.

Þegar ég losna úr menntun, hvað mun þá taka við? Skítastarf, léleg íbúð og kelling? Rútína, daginn út og inn? Eignast börn, en aldrei hafa tíma til að vera með þeim? Skilja svo, að sjálfsögðu, vegna árekstra milli vinnunar og einkalífsins, eins og svo margir gera?

Það er tilgangur lífsins. Að halda áfram í þessari eilífu leit að hamingju, að fullkomnun, að alsælu, að Nirvana, að Guði, eða hvað sem maður vill kalla það. Okkur er talin trú um að við getum öðlast þetta í gegnum menntun, góða vinnu, konu, þrjú lítil börn, hund, lítinn kettling, sem hleypur í kringum vatnið. En þegar þar er komið er fólk í alsælu í nokkra mánuði eða janfvel ár, en svo fer maður að vilja meira, og meira og meira og meira. Að vinna sig upp, fæða metnaðargirndina. Og þegar maður er kominn á toppinn horfir maður á restina af heiminum og hugsar að þarna liggi hamingjan.

Og stríð brýst út. Það virðist alltaf vera endapunktur alls í mannkynssögunni, og mun verða áfram, bendir allt til. Því að þegar að næsta stríði kemur, þá munu mjög margir komast að því hvort þessi fullkomnun, tilgangur lífsins og frelsi frá böndum samfélags, sé til.
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane