Rakhnífur Ockhams er vinsælt tæki í vísindum. Samkvæmt
honum skal tiltekið fyrirbæri útskýrt með eins einföldum hætti
og dugir til að útskýra það.

Öllum óþarfa er sleppt.

Þá hljótum við að velta fyrir okkur ýmsu. Ber okkur að skilja
veruleikann þannig að það sem okkur virðist einfaldast sé
líklegasta skýringin á raunverulegum atburðum.

Tökum dæmi.

Hiti er hreyfing sameinda. Þessi kenning er einföldust af þeim
sem hafa komið fram um hita. Menn losnuðu við “ylefni” og
ýmsar aðrar kenningar sem áður höfðu tíðkast. Menn sáu
einnig að með þessu móti mátti útskýra varmaleiðni og
þrýsting með auðveldum og auðskildum hætti.

En…

…hvers vegna skyldi það sem okkur þykir einfaldast vera í
raun einfaldast?

Mér finnst setningin:

“Mér er illt”

við fyrstu sýn vera einfaldari en setningin:

“Tveir svartir fuglar sitja á brunnloki”

En ef ég ætlaði að fara að kryfja þessar setningar má vel vera
að sú síðarnefnda sé auðveldari viðfangs á margvíslegan
máta.

Hvað mönnum þykir einfalt eða flókið segir heilmikið um
menn en því skyldi það segja nokkuð um alheiminn eða
náttúruna?