Ágætis punktur hjá þér Freysi.
Ef að allt væri fyrirfram ákveðið þá skiptir engu máli hvort að maður fari á fætur á morgnanna eða ekki, það er búið að ákveða það hvort eð er en vandamálið er að maður sjálfur veit ekki hvað er búið að ákveða. Þó svo að ég ákveði að dvelja lengur í bælinu til þess að mótmæla þeirri ákvörðun sem ákveðin var fyrir mig þá var það fyrirfram ákveðið (þessi setning var kannski of flókin?). Málið er, hver ákvað hvernig líf okkar yrði? Og hvaða máli skiptir það okkur þar sem við vitum ekki hvað er búið að ákveða fyrir okkur?
Kannski að ég útskýri þetta með einföldu dæmi:
Þar sem ég tel að allt sé fyrirfram ákveðið þá ákveð ég að frá og með þessari stundu muni ég ekki gera neitt þar sem að lífið muni sjá um mig. Ég fer því upp í rúm og dreg sæng yfir haus og geri ekki neitt. Og hvað gerist? Ef við gefum okkur það að engin utanaðkomandi hafi áhrif á þetta uppátæki mitt, eins og t.d. heimstyrjöld, jarðskálfti þ.a. húsið hrynji eða mamma komi í heimsókn, þá mun líklegast ekki gerast neinn skapaður hlutur í mínu lífi. Síminn minn hringir en ég svara honum ekki þar sem ég ætla ekki að gera neitt. Ég verð svangur en ég fæ mér ekki að borða þar sem þá myndi ég þurfa að gera eitthvað. Ég meira að segja sofna ekki því ég vil ekki gera neitt. Ég held að þið sjáið hvert ég er að fara. Þetta endar s.s. með því að ég verð of máttvana vegna næringaskorts til að gera nokkuð og á endanum sofna ég, fer síðan í dá og á endanum dey ég. HA! Þarna sýndi ég þeim sem ákveða alla hluti að ekkert er fyrirfram ákveðið!! Eða hvað? Nei, þetta var fyrirfram ákveðið, ég bara vissi það ekki.
Svo spurningin er þá sú, hver er munurinn á milli heims þar sem allt fyrirfram ákveðið og heims þar sem ekkert er fyrirfram ákveðið?
Hitt málefnið, lærdómur, er einnig áhugavert efni. Við lærum fljótlega eftir að við fæðumst að ef við gerum eitthvað gerist iðjulega eitthvað annað í framhaldinu, t.d. þegar við öskruðum og grenjuðum kom venjulega mamma og gaf okkur að borða. Smám saman lærðum við það sem er kallað lögmál orsaka og afleiðinga. Ef við stingum hendi í eld þá brennum við okkur. Við lærum að skilja þetta lögmál betur eftir því sem að við verðum eldri og uppgötvum að stundum verður þetta lögmál mjög flókið, einkum ef að fólk á í hlut. Ég gæti skrifað meira um þetta en vil frekar benda á annað, ekki síður áhugavert atriði, í sambandi við lærdóm: uppeldi eða ytri lærdómsaðstæður.
Á fyrstu árum lífs okkar lærum við óhemju mikið. Við erum óhrædd við að kanna og skoða umhverfi okkar og prófa hitt og þetta. Að upplagi þá erum við ekki hrædd við að gera mistök. Á þessum árum er umhverið sem að við lærum í mjög jákvætt. Foreldrar okkar hvetja okkur áfram, við gerum einhverja algjöra vitleysu en foreldrar okkar brosa til okkar, “gott hjá þér”, “ertu orðin(n) svona dugleg(ur)?” og fleiri hvatningarorð líða um eyru okkar. Eftir 3-4 ára fer þó umhverfið að breytast. Allt í einu megum við ekki gera hluti og foreldrar okkar fara í meira mæli að skamma okkur, “bannað að gera þetta”, “svona gerir maður ekki”, “sittu við matarborðið”, “hafðu hljót, ég er að horfa á sjónvarpið” o.s.fr. Við byrjum að ganga í skóla og svipað er upp á teningnum það, “þögn krakkar”, “setjist þið í sætin ykkar” og fleira. Á þessum árum erum við að læra mannasiði og þar er mikið um bannað að gera hitt og þetta. Í skólanum fáum við ný verkefni að kljást við og læra: lesa, skrifa, reikna og ýmsa gagnlega hluti. Við lærum hvernig er rétt að lesa og hvernig er rétt að skrifa. Okkur er gefin einkunn fyrir og við lærum að sumareinkunnir eru góðar og aðrar slæmar og fái maður mikið af slæmum einkunum þá er maður slæmur nemandi. Á þessum árum lærum við muninn á réttu og röngu. Sumir læra á þessum aldrei hvað mistök eru en flest virðumst við ekki læra hvað mistök virkilega eru fyrr en að við komumst á unglingaárin og að mistök eru virkilega slæm. Þá lærum við líka að rangt og rétt er ekki eins og svart og hvítt, nei, hlutirnir verða grárri og mörkin óljósari. Hins vegar afhverju við lítum á það sem miður fer sem mistök, skil ég ekki alveg.