Kenningin gengur út á þetta: Þegar einhver tekur fyrstu sprautuna inni á ákveðnum stað (segjum til dæmis inni á klósetti í vinahúsi) þá líður honum ótrúlega vel. Næst þegar hann kemur inn á þetta klósett, þá kallar líkaminn fram viðbrögð (eða bregst við aðstæðunum) og gerir heilann tilbúinn fyrir næstu sprautu. Líkaminn lækkar magn “gleðihormóna” í heilanum og býst við því að sprautan muni vega upp á móti þessari lækkun (líkaminn leitast við að viðhalda jafnvægi í sjálfum sér – hvorki of ánægður né dapur = engar öfgar í hvora áttina.) Þegar sprautan kemur svo ekki, þá mun aðilanum líða illa – því hormónamagnið helst ennþá lágt. Af þessari ástæðu fer aðilinn að vilja heróínið mjög sárt, fer kannski inn á nýjan stað til að taka það inn og þá festist sá staður einnig inni í minninu sem “heróíninntökustaður”. Eftir því sem stöðunum fjölgar – því oftar verður aðilinn með fráhvarfseinkenni því líkaminn bregst alls staðar eins við aðstæðunum og vill þetta oftar og oftar. Þegar aðilinn fær efnið, þá batnar honum strax – en ef hann ákveður að afeitra sig og hætta neyslunni – mun honum koma til með að líða mjög illa á heróíninntökustöðunum þar sem hann var vanur að sprauta sig.
= Fráhvarfseinkenni.
En af hverju tengist þetta allt ástinni?
Mér datt allt í einu í hug um daginn, þegar ég var að hugsa um ástarsorg og hversu lengi hún varir stundum… af hverju hún kemur eiginlega fram. Mér datt í hug að kannski eru aðstæður út um allt, aðstæður sem kalla fram viðbrögð og eru fastar í minninu sem “ástaraðstæður”. Segjum til dæmis að þegar einhver hefur alltaf gengið með ástinni sinni inn í sömu búðina til að versla í matinn, þá festist það í minninu sem ástaraðstæður. Þau hætta saman, margar vikur líða áður en annað hvort kemur inn í búðina, en þegar þau svo gera það – kallar heilinn fram minninguna, líkaminn minnkar magn gleðihormónanna og heilinn býst við ástinni (eða “ástarsprautunni” – kallið það hvað sem þið viljið) til að vega upp á móti lækkuninni… þegar ekkert slíkt gerist, helst magn hormónanna ennþá lágt og sálin skynjar það sem ástarsorg?
= Fráhvarfseinkenni?
Það mætti svo sem kalla ýmislegt annað ástaraðstæður, til dæmis það að heyra lagbút sem parið hlustaði oft saman á, það að keyra framhjá heimili annars hvors á leiðinni eitthvert annað eða að upplifa eitthvað svipað aftur sem parið hafði gert oft saman áður – heilinn kallar þá fram minninguna, gleðihormónin lækka enn og aftur og sálin skynjar það sem ástarsorg eða söknuð.
Þetta er auðvitað bara pæling en það er samt sumt sem rökstyður það að ástin sé ekkert annað en fíkn:
Fráhvarfseinkennin eru oft svipuð: Almennur doði, skapsveiflur, magaverkur, hausverkur og eirðarleysi.
Besta lækningin er líka svipuð: Að skipta algjörlega um umhverfi og eiga þannig ekki í hættu við að ráfa inn á “ástaraðstæður” eða “heróínaðstæður”. Tíminn læknar svo auðvitað bæði meinin líka.
Er þetta algjör geðveiki hjá mér… eða er kannski eitthvað til í þessu?
Er ástin bara fíkn?
Ætti kannski að reisa meðferðarstofnanir við þessu líka? ;)
-pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.