Sæll midgardur,
Ég hafði ekki hugsað um þetta frá þessu sjónarhorni.
Ég held að það sé viss ástæða fyrir því að ég hafi komið með pælingu svipaða stóuspekinni. Stór hluti fjölskyldu minnar er mjög trúaður, en ekki ég. En að sjálfsögðu er ég alin upp í kristnu samfélagi eins og við öll, og einhver hluti af þessu lífsskoðunum og siðferði hefur sest að í mér. Eins og allir fór ég að hugsa út í það á vissu tímabili í lífi mínu hvað tæki við eftir dauðann. Mér finnst nú líklegast að “sálin” hverfi bara, ekkert taki við. Og þó svo að kristnin væri “sönn” og til væri himnaríki þá ætti ég ekki aðgang þangað. En hvaða máli skiptir það svosem þá? Ég er dauð, ég hugsa ekki lengur og hef því ekki áhyggjur.
En í þessum hugsunum hugsa ég um dauðann sem eitthvað órafjarlægt. Að ég muni deyja níræð, veikluleg og vælandi um góðu, gömlu dagana. Það muni ekkert skaða að deyja, eftir eitthvað sem verður vonandi hamingjusamt og farsælt líf. Og þrátt fyrir að ég hugsi að það sé í raun ekkert “slæmt” að vera dáin, þá vil ég ekki deyja núna, ekki strax.
Það er manninum eðlislægt að vilja halda lífi. Því myndi ég alls ekki vilja vera dæmd til dauða. Maður fær þessi 70-90 ár og vill lifa þau, og deyja í friði, en ekki út af slysi eða morði. Ég held því að stóuspekin nái ekki yfir dauðarefsingu, hún sé frekar til að menn sætti sig við eitthvað sem er ófrávíkjanlegt og endanlegt.
Auk þess er hægt að ímynda sér angist þess fanga sem dæmdur hefur verið til dauða. Eins og sá sem er í lífstíðarfangelsi situr hann fjöldamörg ár í fangelsi, og hugsar til þessa eina dags þegar hann verður líflátinn. Þó svo að sjálfur dauðinn sé kannski ekki af hinu illa, er hræðslan það. Ég held að enginn vilji upplifa þá tilfinningu að vita að hann verði líflátinn bráðum.
En að sjálfsögðu vill heldur enginn lenda í lífstíðarfangelsi. Slíkt líf hlýtur að vera frekar tilgangslaust, að vakna upp dag eftir dag lokaður inni í litlum klefa. Það eru þó ekki mörg lönd þar sem lífstíðarfangelsi er í raun til lífstíðar.
Semsagt: Þó svo að dauðinn sé kannski ekki af hinu illa, þá geta tilfinningarnar á undan honum verið það. Við viljum því deyja í friði.
sjoefn7 segir:
Semsagt: Þó svo að dauðinn sé kannski ekki af hinu illa, þá geta tilfinningarnar á undan honum verið það. Við viljum því deyja í friði.
—
Nokkuð spaklegt. Má vera að lífstíðarfangelsi geti friðað sálina og viðkomandi deyi í sátt. Kannski réttlætir það svo grimman dóm að dæma einstakling til ófrelsis öll manndómsár hans, dæma af honum lífið börnin sem hann hefði getað eignast, draumana sem hann hefði getað látið rætast, atorkuna að hrinda hlutum í framkvæmd og marka sér spor. Má vera að það réttlætir að kviksetja einstakling öll manndómsár hans, ævikvöld og fram í dauðann.
Spyrja má hvort það sé svo slæmt að vita nákvæma dagsetningu dauða síns. Öll vitum við að við deyjum einhvern tímann. Er nokkuð verra að vita að ófrelsinu lýkur 25.okt. 2004, en að vita það ekki. Búa við það að eiga eftir að búa við kviksetningu kannski næstu 70 árin, í stað fram á næsta ár? Skiptir það dauðafangann í raun máli, þótt lengt sé í snörunni? Er ekki best að það sé sem styst, víst að við enda fallsins er ekkert nema dauðinn?
M.
0
En af hverju erum við hrædd við að deyja? Hverju skiptir það máli hvort við deyjum í dag eða eftir 50 ár? Er það vegna þess að við viljum ljúka við einhverju? En hverju skiptir það máli ef við hverfum sjálf á brott þegar því er lokið? Af hverju ættu hlutir sem við gerum í þessum heimi…eða eigum eftir að gera, að hafa áhrif á hvenær við viljum fara héðan?
Flestir myndu segja að það sem væri erfiðast væri fólkið sem maður skilur eftir. Fólk sem mun syrgja mann og lifa áfram eftir að maður er farinn. En þessi staðhæfing gerir ráð fyrir að manni sé virkilega sama um það fólk sem maður skilur eftir….leyf mér að ústkýra aðeins nánar.
Það eru (nánast)allir hræddir við að deyja…þýðir það þá að nánast allir eigi einhvern núlifandi sem myndi syrgja þá? Þýðir það að öllum sé ekki sama um þá sem koma til með að syrgja þá? Það eru margir í þessum heimi sem er nákvæmlega sama um fólkið sem mun syrgja þá. En þetta fólk er samt alveg jafn hrætt við að deyja.
Það er svo margt sem við gerum ráð fyrir til að útskýra hvers vegna við erum hrædd við að deyja. Til dæmis….ef við vissum að heimurinn myndi enda þegar við deyjum…myndum við samt vera hrædd? Þá er enginn eftir til að syrgja okkur. Ef við vissum að allir aðrir í heiminum væru bara ímyndun okkar…eða ímyndun einhvers annars…myndi tilfinningar þeirra skipta okkur máli? Við semsagt gerum ráð fyrir því að allir aðrir séu eins og við…og að heimurinn muni halda áfram eftir að við förum.
En það er engin leið sem að við getum vitað þessa tvo hluti.
Ég geri mér fullkomnlega grein fyrir því að þarna er ég að útvíkka þessa umræðu töluvert…en samt finnst mér þetta mikilvægir punktar.
0
skemmtilegt innlegg Freysi,
Getur verið að dauðahræðslan sé af svipuðum toga og hræðslan við að meiða sig. Einfaldlega einhver sjálfvirkni í taugakerfinu?
Til er fólk sem er hrætt við að lifa. Ef grannt er skoðað má jafnvel fullyrða að flest okkar erum hrætt við eitthvað sem felst í því að lifa. Þessi hræðsla kemur í veg fyrir að við lifum til fulls. Að lifa til fulls er að nýta alla möguleika okkar og getu. Dæmi: Hræðslan við sviðsljósið getur komið í veg fyrir að einhver stígi upp á pall og láti álit sitt í ljós frami fyrir alheiminum. Jafnvel þótt hann telji sig hafa margt fram að bjóða. Þessi einstaklingur er hræddur við að lifa. Sama gildir um einstakling sem þorir ekki að taka ábyrgð og bera ábyrgð, hann lifir ekki til fulls. Einnig má benda á þá sem þora ekki að tjá ást sína til einhvers þótt allt lífið í brjósti þeirra æpi á annað.
Það má segja að þetta sé óttinn við lífið.
Þannig held ég að við getum bæðið óttast lífið og dauðann. Á sama hátt þá getum við líka umgengist lífið af fífldirsku eins og við getum umgengist dauðann með algjöru skeytingaleysi. Sá sem gengur að lífinu af algjöru óttaleysi er jafn hættulegur sjálfum og öðrum og sá sem gengur að dauðanum með fífldirfsku. Óttablandin virðing fyrir lífinu og dauðanum er kannski meðalhófið sem affarasælast.
Afhverju við óttumst lífið og dauðann? Er það bara ekki til að halda okkur í jafnvægi?
M.
0
midgardur:
'Getur verið að dauðahræðslan sé af svipuðum toga og hræðslan við að meiða sig. Einfaldlega einhver sjálfvirkni í taugakerfinu?'
Já ég kaupi það. En þýðir það að dauðahræðslan sé ekki á neinum meðvituðum rökum reistur? Ef þessar tvær hvatir eru jafngildar, að vera hræddur við sársauka og hræddur við dauðann, er þá ekki jafngildar spurningarnar : ‘Af hverju hræðumst við sársauka’ og ‘Af hverju hræðumst við dauðann’ ? Ef svo er, þá getum við svarað báðum með því að svara annarri.
Við vitum (nokkurnveginn) svarið við fyrstu. Við hræðumst sársauka vegna þess að það breytir náttúrulegu stöðu líkamans. Það táknar að það sé eitthvað að skemmast í líkamanum. En getum við heimfært þetta svar á seinni spurninguna? Við getum sagt jú, að dauði sé breyting á náttúrulegu stöðu líkamans, að vera lifandi. En er þá dauði ónáttúrulegur? Eða betri spurning væri…'ef dauði er náttúrulegur hluti af lífi manns, þ.e. endir á því, af hverju er maður hræddur við það á þann ósjálfráða hátt og maður er hræddur við sársauka?'
Semsé, er dauði þá ónáttúrulegur? Eigum við í raun ekki að deyja? Þetta er smá rökvilla í þessu máli sem þarf að leysa. Við ættum ekki að vera hrædd við eitthvað sem er náttúrulegt (að mínu mati)
0