“Að vera, eða ekki að vera” kjarnaspurning hjá Shakespeare ekki satt?

Allt frá því ég man eftir mér hef ég undrast yfir því að vera til og að það sé það að vera til! Og þannig held ég að sé hjá flestum öðrum þó margir kjósi að halda viti og sönsum með því að velta þessu ekki fyrir sér.

Því er?

Hvernig getur á því staðist að yfirleitt sé nokkuð til og í þokkabót verundir sem gera sér grein fyrir því að þær eru?

Ég er ekki að velta fyrir mér eðlis og efnafræðilegum upplýsingum, kosmogonískum eða kosmologískum þeóríum því þær falla inn í vangaveltuna sjálfa og eru til.

Því er?

Það er gersamlega ómögulegt að ímynda sér að ekkert sé til, í þeirri merkingu sem maður leitar því alltaf er ekkertið enn til staðar í þeirri hugsun og inniheldur sjálft sig.

En er ekki eðlilegra að hugsa til þess að aldrei hefði nokkurt verið, hvorki ekkertið né allt sem á eftir ekkertinu kemur, ekki myrkur né ljós, ekkert efni né andefni, enginn alheimur né alheimar.
Og er ekki eðlilegra að hugsa sér að aldrei hefði vitund vaknað til verundar og farið að skoða sjálfan sig og umhverfið eða að undrast um hvað, hvar, hvenær og hvert?

Það að vera er magnaðra fyrirbæri en orð fá lýst. Sem barn horfir maður á fjallið og hugsar með sér að eftir að maður er allur og er ekki lengur, þá er fjallið. En sú hugsun hefur einnig leitt hugann að því hvað það er að vera?

Það að vera er að gera sér grein fyrir því að maður er, það gerir fjallið líklega ekki, og að þeim sökum er fjallið ekki fjall með sjálfi sér.

Að sama skapi er sólkerfið eða vetrarbrautin og allur alheimurinn ekki verund í sjálfi sér, eða hvað?

Það að vera virðist ekki samkvæmt minni skoðun vera bundið líkama eða því sem við skilgreinum sem efni en inniheldur þó allt sem við skilgreinum sem efni í sjálfi sér.

“Að vera eða ekki að vera” er spurningin því hin spurningin “því er” virðist ósvaranleg. Allt er því það er og getur ekki annað.

Það er, það er í mér og ég er í því. Ég er, ég er í því og það er í mér. Það og ég/ég og það, erum eitt!

Sá grunur læðist að, að verundin sé algildi og ómæld, að verundin sé ekki hlutbundin og því ekki persónulegt sjálf eða egó. Vitundin er væntanlega egó en þó sonur verundarinnar og af henni komin.

“Að vera” er líklega ekki okkar sérkenni og hefur væntanlega ekki af tegund okkar, “að vera” fæðist ekki.

“að vera ekki” er að öllum líkindum sérkenni tegundar okkar því tegund okkar fæðist og deyr.

Þá er það blessuð vitundin, sálin, egóið, sonur verundarinnar. Ef sálin er verund á svipaðan hátt og dropi er vatn, þá má leiða að líkum að sálin fæðist og deyr, hvenær hún fæðist og hvenær hún deyr vil ég lát liggja á milli hluta, en aðalatriðið er að hún er í eðli sínu sprottin af verund og upplifir “ég er”.

Og á sama hátt og frumefni líkamans hafa aldrei sagt skilið við þann heim sem þau eru komin af og við dauða þá umbreytist formið og frumefnin samlagast uppruna sínum, á sama hátt má leiða líkum að því að sálin sem í eðli sínu er verund og hefur aldrei sagt skilið við uppruna sinn mun samlagast verundinni þegar hún umbreytist.

Verundarinnar verður ekki leitað í moldinni, verundin er.
Sálarinnar verður ekki leitað í frumefninu, sálin er.

“Ég” er verund.

“að vera eða ekki að vera” ja, ég er, en!

“Því er” það er nú spurningin?

Babl