Í fyrra tók ég heimspekiáfanga sem valgrein á seinasta ári mínu í menntaskóla. Þetta er lokaritgerðin mín frá þeim áfanga, mér datt svona í hug að henda henni hingað inn og gá hvort hún fái einhver viðbrögð
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - >
Í upphafi heimspekinnar reyndu fyrstu heimspekingarnir að finna svör við ýmsum spurningum sem lengi höfðu plagað menn. Þetta voru aðallega spurningar um náttúruna, úr hverju heimurinn væri og annað álíka. Fyrstu heimspekingarnir voru þannig eiginlega náttúrufræðingar og komust að niðurstöðu um margt sem nú er ekki kennt í heimspeki heldur í náttúrufræði og stærðfræði. Þetta eru óhrekjandi staðreyndir sem heimspekingarnir hafa komist að með því að finna svörin við spurningunum.
Núna aftur á móti virðist það vera almenn skoðun fólks að heimspekingar geri fátt annað en að spá í einhverju rugli og eyða tímanum í að velta fyrir sér einhverjum absúrd spurningum sem ekki nokkur einasta leið er að finna svarið við. Ekki veit ég það fyrir víst en hins vegar finnst mér fróðlegt að velta því fyrir mér hvort það sé rétt að eyða tímanum í að velta fyrir sér spurningum sem ekkert svar er við.
Til að athuga það þarf að finna rök sem styðja það að tímanum sé eytt í þess háttar vangaveltur og einnig þarf að finna rök sem mæla á móti því. Svo er niðurstaðan fengin með því að bera rökin saman. Það er það sem ég ætla að gera núna.
Fyrst er þó eflaust ágætt að skilgreina aðeins hvað ég á við með spurningum sem ekkert svar er við. Það sem ég á aðallega við með því eru spurningar sem afar ólíklegt ef ekki útilokað er að við fáum nokkurn tíman svar við. Spurningar eins og „Hvað gerist eftir dauðann?”, „Er alheimurinn endalaus, og ef ekki, hvað er þá handan endimarka alheimsins?”, „Hvað er tími?”, „Hvers vegna finnur maðurinn tilfinningar?”, „Hvernig eigum við að lifa lífi okkar?” og „Hver er tilgangurinn veru okkar hér eða lífi yfir höfuð?” eru allt dæmi um spurningar sem ekkert eitt svar gildir. Margir hafa ritað kenningar og sett fram eigin hugmyndir um hvað þeir telja að sé svarið við þeim en það er enginn leið fyrir okkur að vita með góðu móti algilt svar við spurningunni.
Spurningarnar hér fyrir ofan eiga allar það sameiginlegt að vera mjög heimspekilegar í eðli sínu, þ.e. margir heimspekingar hafa velt þeim fyrir sér og rökrætt þær sín á milli. Það er líka í takt við almannaálitið á heimspekingum nú á dögum að fáir aðrir en þeir sem hafa áhuga á heimspeki myndu nenna að líta á meirihluta þessara spurninga. Þess vegna má eiginlega segja að þessi ritgerð snúist að einhverju leyti um það að tala með eða á móti heimspeki nútímans, allt eftir því hvernig niðurstaðan verður.
Til að byrja með ætla ég að athuga hvað mælir gegn því að tímanum sé eytt í spurningar af þessu tagi. Í fyrsta lagi getum við litið á spurningar eins og „Hver er tilgangur lífsins?”, „Hvað gerist eftir dauðann?” og „Hvernig stendur á því að við erum hérna?” Margir hafa glímt við þessar spurningar í gegnum þau árþúsund sem liðin eru síðan maðurinn fór fyrst að velta fyrir sér fleiru en nánasta umhverfi. Það er þó augljóst að við þessum spurningum er ekkert skynsamlegt svar sem fullyrða má að reynist rétt. Við vitum ekki hvort það sé einhver tilgangur með lífi okkar eða ekki, við vitum ekki hvort okkar bíði eftirlíf eftir þetta líf eða hvort líkaminn muni bara rotna og andinn slokkna eftir að við deyjum og við vitum ekki hvernig í ósköpunum stendur á allri þessari nánast endalausu röð tilviljana sem leiddi til þess að við erum stödd hér á þessum stað á þessum tíma. Hins vegar voru einstaklingar til forna sem einfaldlega sættu sig ekki við það að við þessum spurningum væri ekkert svar þannig að þeir hreinlega tóku sig til og bjuggu til svarið. Þetta svar var guð. Alls staðar spruttu upp hópar sem fundu sín eigin svör við þessum spurningum og það voru þeirra guðir. Ég las á Vísindavef Háskólans að þeir Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson, heimspekingar, héldu því fram í einu svara sinna að svarið við spurningu hlyti að vera texti. Ég ætla að gerast svo djarfur að leyfa mér að vera ósammála þeim í þessu. Ég held því nefnilega fram að svarið sem búið var til fyrir þessar spurningar, og er svo sannarlega ekki réttara en neitt annað svar við spurningunum, séu hin fjölmörgu trúarbrögð sem fyrirfinnast í dag. Nú ætla ég alls ekki að halda því fram að það sé eitthvað slæmt eða vont að trúa á almáttugan guð sem situr uppí skýjunum og bíður eftir manni þegar maður deyr. Trúin hefur hjálpað mörgum og vissulega er tilhugsunin um skemmtilegt eftirpartý á himnum með Jimi Hendrix og JFK eitthvað sem fær marga til að haga sér betur og margt jákvætt um það að segja. Ég get líka ekki fullyrt það að það sé ekki til neinn guð eða guðir. Hins vegar eru trúarbrögð neikvæð á þann hátt að flest dauðsföll sem ekki eru af náttúrlegum völdum má rekja til trúarbragðadeilna. Flestar styrjaldir hafa hafist vegna trúarbragða. Mikil mismunun ríkir víða vegna trúarbragða og þarf ekki að nefna annað en ofsóknir Rómverja á kristnum á fyrstu árum kristninnar eða helförina gegn gyðingum í seinni heimstyrjöldinni. Þannig má segja að það að búa til svör og staðhæfa að þau séu rétt geti í besta lagi talist kjánalegt og í versta falli stórhættulegt.
Annað sem minnast má á er það þegar spurningar verða til þess að við festumst í einhverri hringrás, eða vítahring hugsanna, þar sem við reynum að bögglast í gegnum einhverjar vangaveltur af þessum toga. Þá á ég við spurningar eins og „Er alheimurinn endalaus og ef ekki, hvað er handan hans?” eða „Hvernig varð alheimurinn til?” eða jafnvel „Erum við í raun og veru hér eða höldum við það bara?” Svona spurningar eiga það til að rugla fólk í ríminu. Ég þekki það sjálfur vel að hafa staðið sjálfan mig að því að eyða alltof miklum tíma í að velta fyrir mér hvort allt það sem ég telji raunverulegt sé kannski bara blekking, að þetta sé einungis hugarburður minn. Frægir heimspekingar hafa einnig fjallað um þetta og allir áhugamenn um heimspeki þekkja til Berkeley og kenninga hans. Hugtök eins og endalaust og ekkert eru utan við okkar skilning og því komumst við lítið áleiðis í pælingum í þá áttina. Vangaveltur um spurninguna hvernig alheimurinn varð til er einnig þess eðlis að hægt er að hlaupa marga hringi um það. Þannig eru hugsanlegir möguleikar á því hvernig alheimurinn komst á það stig að vera til hér og nú ýmist að hann hafi ávalt verið til, þ.e. í óendanlega langan tíma, hann hafi orðið til úr engu, hann sé í raun ekki til eða það að einhver æðri máttur, kraftur eða “vera” hafi hreinlega búið hann til. Þetta eru allt svör sem af einhverjum ástæðum ganga gegn því sem flestir líta á sem almenna skynsemi. Allir þessir svarmöguleikar koma, þannig lagað, til greina en það er engin leið að segja til um hver af þeim er réttastur.
Það er svosem ekki skaðlegt að hringsnúast í pælingum um hluti sem við getum aldrei vitað með vissu svörin við en þá er náttúrulega tími að fara til spillis sem við gætum verið að nota til þarfari verka. Einnig er hætta á því að við komumst ekkert áfram í heimspekilegum þroska ef við festumst of mikið í tilgangslausum íhugunum.
Ef við lítum svo á rökin sem mæla með því að tímanum sé eytt í spurningar án svara er svo sannarlega hægt að minnast á ýmislegt. Fyrstu rökin eru ef til vill þau að það má eiginlega segja það að heimspekin hafi orðið til við þá iðju. Forn-Grikkir fóru að velta fyrir sér ýmsum spurningum. Þales velti fyrir sér eðli alheimsins og úr hverju allt væri búið til. Spurningin „Hvað er eðli alheimsins?” flokkast svo sannarlega til svarlausra spurninga í þeim skilningi sem þessi ritgerð fjallar um. Allir geta verið sammála um ágæti heimspekinnar því ef heimspekin hefði aldrei komið fram þá væri líklega engin náttúrufræði, sálfræði, líffræði, eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði og fleiri líkar greinar með því sniði sem nú tíðkast.
Það leiðir hugann að því að þegar fyrstu heimspekingarnir voru að byrja að velta hlutunum fyrir sér þá voru þeir með margar spurningar í kollinum sem höfðu engin svör. Spurningar eins og „Úr hverju er alheimurinn?”, „Úr hverju er sólin?”, „Hvernig stendur á því að lítið fræ verður að stóru tréi?”, „Af hverju finnum við sársauka?” og ýmsar fleiri voru hulin ráðgáta lengi vel. Þales hélt því fram að allt væri úr vatni. Uppúr því kom annar Grikki, Anaxímandros og mótmælti því og sagði að allt væri ómælið. Þar með varð heimspekin til. Núna vitum við aftur á móti svörin við flestum þessara spurninga, við vitum að alheimurinn er gerður úr atómum og frumefnum, við vitum hvaða efni má finna á sólinni og við vitum mjög mikið sem áður var ekki vitað. Þannig má eiginlega segja að við vitum ekki endilega hvort spurningarnar sem við erum að velta fyrir okkur séu svarlausar eða ekki. Hver veit nema einn góðan veðurdag muni einhver skyndilega uppgötva aðferð til að skoða hvað er handan við alheiminn eða finni allt í einu reikningsformúlu fyrir tilgang lífsins. Það er eitthvað sem við vitum ekki og því getum við ekki ákveðið hvað sé tilgangslaust og hvað ekki. Enski heimspekingurinn Bertrand Russel var eitt sinn beðinn um að nefna dæmi um gagns- og tilgangslausa fræðigrein. Hann nefndi rökfræði Booles, einnig stundum kallaður bókstafareikningur Booles. Hún er sérviskuleg aðferð til að setja saman rökfræðikerfi, undanfari nútímarökfræði sem, meðal annarra, Russel sjálfur kom fram með. Boole glímdi þar við ýmsar sértækar þrautir um gildar og ógildar ályktanir. Núna er aftur á móti svo komið að bókstafareikningur Booles er ein af undirstöðugreinum allra tölvufræða. Þetta sýnir að það sem þykir tilgangslaust einn daginn getur öðlast nýtt líf og nýjan tilgang þann næsta. Svo ég vitni nú í íslenskan heimspeking þá sagði Þorsteinn Gylfason í bók sinni Tilraun um heiminn að „[h]eimspeki gerir mest gagn þegar hún reynir ekki að gera gagn.” og finnst mér það eiga ákaflega vel við hér.
Þrátt fyrir það að ekkert svar finnist við spurningu getur hún samt boðið uppá ýmislegt. Heimspekin snýst að miklu leiti um samræður og rökræður af ýmsu tagi og má eiginlega segja að það sé eitt af aðaleinkennum heimspekinnar. Þá koma sér vel spurningar sem eru tvíræðar og óvissa hvílir yfir því þannig skapast oft fjörugar umræður og jafnvel rökræður sem jaðra við rifrildi. Þannig hefur það í gegnum heimspekisöguna oft leitt til þess að svör hafa fundist en margar kenningar liggja eftir sem gaman er að spá í og lesa. Einmitt annað einkenni heimspekinnar er það að vera sífellt að spyrja spurninga og vera gagnrýninn á allt.
Annað sem svaralausar spurningar bjóða oft uppá er það að oft eykst skilningur spyrjandans á viðfangsefninu þegar hann fer að velta fyrir sér hugsanlegu svari eða svörum eða jafnvel bara hvað felst í sjálfri spurningunni. Þannig má nefna sem dæmi siðfræði eða sálfræði þar sem oft er komið fram með spurningar sem ekkert eiginlegt rétt svar finnst en hjálpar samt til við að fá aukna vitneskju um okkur sjálf sem manneskjur. Þannig má nefna siðferðislegar spurningar eins og „Hvernig ber að lifa lífinu?”og spurningar eins og „Hvað er hamingja?” eða „Hvers vegna er manneskjan svona mikil tilfinningarvera?” sem dæmi um spurningar sem hjálpa til við að veita upplýsingar um sjálfan sig sem persónu, þrátt fyrir að veita ekki nein afdráttarlaus svör.
Lokaspurningin sem mig langar til að tala aðeins um núna er svo spurningin „Hvað er heimspeki?” Það er spurning sem margir heimspekingar, sem og aðrir, hafa glímt við og reynt að finna einhverja pottþétta skýringu á. Reyndar gekk það svo langt að gefin var út bók með þessa spurningu sem titil. Í henni var reyndar viðurkennt í inngangskafla bókarinnar að bókin gæfi ekkert eitt svar við henni og að í raun væri maður litlu nær eiginlegu svari við spurningunni eftir lestur á henni. Hins vegar dýpkar maður skilning sinn á heimspeki til muna við lestur bókarinnar og þannig hlýtur tilgangnum að vera náð.
Það er alveg ljóst á þessu að það er hægt að tína til rök sem styðja hvorn málstað fyrir sig. Hins vegar verð ég persónuleg að segja að mér finnst rökin með því að halda áfram pælingunum vera sterkari en þau sem mæla á móti. Ég sé því enga ástæðu til að tala gegn heimspeki þó svo að ég viti til þess að sumir haldi að það sé lítið gert í heimspekitímum í Háskólanum annað en að sitja í hring og spá í hvernig það sé að vera tré eða annað álíka „gáfulegt”. Meðrökin, sem eru óvissa um hvort það sé öruggt að engin svör finnist við spurningunum, aukinn skilningur á umræðuefninu þrátt fyrir að kannski finnist engin eiginleg svör og það að þetta sé ein af undirstöðum heimspekinnar finnst mér vera betri en mótrökin, þ.e. trúarbragðavitleysan eða hættan á að vera að búa til svör og hringavitleysuhugsanagangurinn. Því segi ég að það sé vissulega réttmæti í því að eyða tíma í að velta fyrir sér hinum ýmsu spurningum sem hafa þó engin eiginleg svör.