Flestir eru nú afskaplega þakklátir fyrir það sem oft er kallað ‘frjáls vilji’.
En hvað er frjáls vilji? Er það að hafa vald yfir eigin vilja? Er það hafa vald yfir eigin hugsunum eða bara einfaldlega valdið til að vera þú, hver svo sem ‘þú’ ert?
Ég hallast að því að frjáls vilji (ef eitthvað slíkt er til) sé valdið til að taka eigin ákvarðanir byggðar á þinni hugsun. Jafnvel þótt að hægt sé að taka allt annað frelsi af þér þá hefur þú ennþá valdið til þess að taka þá ákvörðun að þér finnist þessi frelsissvipting vera hundfúl, ekki satt.
Hvað svo sem því líður þá ætla ég að afsanna það að nokkur vera hafi frjálsan vilja með röksemdarfærslu sem byggist á einni fyrirframgefni staðreynd en ef þið eruð ekki sammála henni er ómögulegt að sannfæra neinn um neitt með eftirfarandi röksemdarfærslu:
Eftir því sem ég kemst næst þá skrifaði ég þessa grein og sendi inn í kringum ellefu leitið að kvöldi þess 23 mars. Ef við erum sammála um að þessi atburður hafi átt sér stað og á þessum tímapunkti getum við haldið áfram.
Ef þessi tiltekni atburður átti sér stað á þessum tíma þá hlýtur hann alltaf að hafa verið á leiðinni með að eiga sér stað, hversu illfyrirsjáanlegur sem þessi atburður var, hann átti sér nú einu sinni stað! Eða var það ekki annars?
Ef þessi atburður átti alltaf eftir að gerast eftir ýmsum torséðum krókaleiðum þá getur ekki verið að ég hafi haft áhrif á þessa tímalínu með mínum frjálsa vilja þar sem að tímalínan átti alltaf eftir að fara þessa leið.
Ef öll þessi rök eru rétt þá getur ekki verið að þú sért að taka ákvarðanir samkvæmt þessum ‘frjálsa vilja’ þar sem að ákvörðunin átti alltaf eftir að vera tekin og þar með falla inn í óvissa (en samt sem áður fyrirframákveðna) tímalínu.
Ég vona að þið hafið getað haft ánægju af þessari röksemdarfærslu en ef þið eruð ekki endeilis sammála þá er ykkur auðvitað velkomið að koma með ykkar eigin mótrök.
P.s.
Ég HATA staðhæfingar án einhverra raka til þess að styðja við þær þannig að ég bið hvern þann sem mótmælir þessum rökum að passa að koma með eigin mótrök (42 er voðalega sniðugt svar en verður tilgangslaust við ofnotkun, að því er mér finnst).