Í Faídoni eftir Platón fer Sókrates m.a. yfir nokkrar röksemdir fyrir því að sálin sé ódauðleg. Það gæti komið málinu við, að það er ekki langt þangað til honum verður færður eiturbikarinn og að hann muni fljótlega lognast út af og deyja. En ég nenni nú ekki að velta mér uppúr ástæðum þess að hann sé að tala um þessi mál, heldur ætla ég aðeins að rekja röksemdafærslu hans og gagnrök við henni í (tiltölulega) stuttu máli.
Fyrst í stað minnist Sókrates á þá gömlu trú manna að sálir endurholdgist aftur og aftur. Þær fara til Hadesarheims og dvelja þar um hríð, en fyrr eða síðar taka þær sig til og setjast aftur að í líkama. Þetta reynir hann að sanna með því að sýna fram á að það sem lifir verður af hinu dauða og engu öðru. Hann nefnir fyrst önnur dæmi, sem hann vill meina að séu hliðstæð: Þegar eitthvað stækkar þá verður það úr hinu minna, þegar eitthvað minnkar þá kemur það úr einhverju stærra, og svo framvegis, þegar eitthvað verður réttlátara þá kemur það úr hinu ranglátara. Allt verður semsagt til úr andstæðu sinni, og þar sem að lífið er andstæða dauðans og dauðinn er andstæða lífsins, þá er eðlilegt að ætla að það sem lifir verður af hinu dauða.
Það liggur raunar nánast í augum uppi að svo sé. Við verðum til úr því sem við borðum, þannig séð, og næstum því allt sem við borðum er dautt. Sumt af því sem er dautt – lík og annað eins, jafnvel moldin líka – það verður til úr því sem er lifandi. En af þessu draga menn síðan þá ályktun að sálir skreppi í helgarferð til Hadesar áður en þær troða sér aftur inn í saklausa og lífvana líkama. Og þetta eru fyrstu rökin fyrir því að sálin sé til bæði fyrir og eftir dauðann. Samkvæmt henni hefur lífið alltaf verið til, þótt það fylgi nú ekki að það verði alltaf til, þar sem heimsendir er jú hugsanlegur. Þar sem lífið er alltaf til, þá er sálin líka alltaf til.
Hins vegar galli á þessari endurholdgunarkenningu. Sókrates virðist standa í þeirri meiningu að hann sjálfur sé að fara til Hadesarheima, það er að segja, að sálin sé hann. En það ef allt hitt sem gefið er – að sálin hafi verið til áður en Sókrates fæddist, eða a.m.k. áður en hún fór í þennan líkama – þá getur það naumast verið. Ef það væri tilfellið, þá er sálin ekki Sókrates frekar en hún er rakari á Indlandi (en hún dvaldist einmitt síðast í slíkum líkama), veiðimaður á fornsteinöld eða hvað sem er annað. En þar sem Sókrates segist sjálfur vera að fara „til einhvers dýrlegs ódáinsakurs“, þá sé ég ekki betur en að hann sé að lenda í pínulítilli mótsögn við sjálfan sig. Nema þá að hann trúi því að hann hafi líka verið áðurnefndur rakari, veiðimaður og svo framvegis. En myndi hann þá segja „ég“? Væri þá ekki eðlilegra að segja „sálin í mér“ eða eitthvað í þá áttina?
Önnur rökin eru upprifjunarrökin. Þar sem að allt nám er upprifjun, og þar sem sálin hefur þegar lært allt sem hægt er að læra, þá hlýtur hún að hafa lært það áður en hún kom í þennan líkama. Okkur verður hugsað til jafnaðar þegar við sjáum jafna stokka og steina, þ.e. það sem okkur virðist jafnt minnir okkur á Jöfnuð. Og sömuleiðis með fegurðina og allt hitt – allir fallegir hlutir minna okkur á Fegurðina sem við, eða a.m.k. sálir okkar, sáu í frummyndaheiminum. Allir þessir jöfnu hlutir eru ekki að öllu leyti jafnir – þær gætu verið jafn þungir en ekki jafn langir, eða þá jafn harðir en ójafnir t.d. að lögun. Þar sem þeir eru ekki fullkomlega jafnir – og engir hlutir í þessum heimi, eða svo gott sem, eru fullkomlega jafnir - dregur Sókrates þá ályktun að þekking á jöfnuði hljóti að koma annars staðar frá, þ.e. úr frummyndaheiminum. En þekkingu á þeim heimi fá menn ekki nema þeir séu sjálfir þar, og þar sem líkamarnir eru ekki þar, þá hlýtur sálin ein og sér að hafa verið þar og kynnst þessu öllu saman.
Þessi rök þykja mér aðeins meira sannfærandi, en samt ekki mikið meira en aðeins. Í fyrsta lagi dugir þetta naumast til að sannfæra mig um að sálin verði áfram til eftir dauðann, en það var kannske ekki ætlunin þar sem fyrstu rökin áttu að sjá um það. Þessi rök sannfæra mig heldur ekki um að sálin hafi verið til löngu fyrir daga líkamans – hún gæti hafa orðið til tveim dögum fyrir fæðingu. Þau duga eiginlega ekki til annars en að sýna að sálin hafi verið til á undan líkamanum og til að þetta segi manni eitthvað um það hvernig málum sé háttað, þá verður maður eiginlega að fallast á fyrstu rökin, mótvægisrökin. Þar sem ég geri það ekki, þá er ég ennþá ósannfærður.
En hvers vegna ætti maður ekki að geta lært það eftir fæðingu? Ég held að það sé ekkert fráleitara að segja að maður læri það allt í þessu lífi heldur en að segja að sálin hafi lært það í fyrndinni. Og svipað með jöfnuðinn: Ég held að maður ætti alveg að geta lært að þekkja það sem er líkt með jöfnum hlutum, nefnilega jöfnuðurinn, í þessu lífi. Auk þess, til að geta þekkt jöfnuð þarf maður líka að þekkja ójöfnuð, til að þekkja fegurð þarf maður líka það sem er ljótt. Ef allt væri nú fallegt, þá myndi það naumast segja manni neitt um neitt. Maður myndi kannske vita að þetta væri allt fallegt, en myndi maður skilja hugmyndina nema að maður hefði fyrir sér a.m.k. einn hlut sem er ekki fallegur? Þetta er kannske helst líkast þeirri hugmynd hvort maður myndi skilja ekki-grænt í heimi sem væri annars algrænn. Hins vegar getur ójöfnuður varla átt sér frummynd. Frummyndir eru fullkomnar – hvernig getur ójöfnuður verið fullkominn?
Upprifjunarrökin þykja mér þá heldur ekki vera alveg nógu góð, þótt þau séu þó betri en mótvægisrökin, sem mér þykja eiginlega út í bláinn.
Þá er komið að rökunum, nefnilega þeim að sálin líkist helst frumyndunum. Það er svosem einfalt í grunninn. Fyrst er bent á að það sem er sýnilegt, snertanlegt og svo framvegis – semsagt af þessum heimi – er síbreytilegt, á stöðugri hreyfingu (ef svo má segja). Það sem er ósýnilegt og aðeins þekkjanlegt með rökhugsuninni – eins og t.d. ást og hugrekki, og síðan frummyndirnar – er hins vegar óbreytanlegt. Þessu næst fallast þeir á að menn séu tvennt og ekkert annað, nefnilega líkami og sál. Líkaminn er öllum sýnilegur, hann er efnislegur, á meðan að sálin er það ekki. Við sjáum ekki sálina, við getum ekki snert hana og svo framvegis. Og þar sem að sálin er nú líkari hinu ósýnilega að þessu leyti, gætum við þá ekki sagt að hún sé líkari því að öðru leyti? Það fallast þeir a.m.k. á. Ef sálin er þá líkari hinu ósýnileg að öðru leyti, þá fylgir að hún er óbreytanleg og því ekki dauðleg. Hún hættir aldrei að vera.
En af þessu virðist þó leiða að sálin sé frekar af frummyndaheiminum heldur en þessum heimi. Og meira kemur til. Til að eitthvað geti verið heitt, þá þarf að vera Hiti í því – með stóru „hái“. Til að eitthvað sé fallegt, þá þarf Fegurðin að vera í hlutnum. Hlutir eru semsagt fallegir og heitir vegna Fegurðarinnar og Hitans. Það sem er heitt getur síðan aldrei um leið tekið við Kulda: Þegar hiti nálgast kulda þá hlýtur annað hvort að víkja. Stundum tekst kuldanum að standast áhlaup hitans og stundum víkur hann. Þetta segja þeir að eigi við um allar andstæður: Það sem er óréttlátt getur aldrei um leið tekið við Réttlæti, og svo framvegis.
Þá kemur að rúsínunni. Sókrates spyr Kebes hvað verði að vera í líkamanum til að hann lifni. Því svarar Kebes um hæl að það sé sálin, ófrávíkjanlega, og að sálinni fylgi alltaf líf, hvar sem hún kemur. Þar sem þeir voru þegar búnir að fallast á að það sem hefur t.d. hita í för með sér muni aldrei taka við andstæðu þess (kulda), þá gildi það sama hér: Það sem hefur líf í för með sér mun aldrei taka við andstæðu lífs, þ.e. dauðanum. Af þessu fæst svo hin ánægjulega niðurstaða, að sálin sé ódauðleg. Enn fremur, þar sem hún er ódauðleg, þá hlýtur hún eiginlega að vera óforgengileg líka. Það virðist a.m.k. undarlegt ef eitthvað deyr aldrei en hættir þó að vera til. Ef það hættir að vera til, er það þá ekki dáið, líka? Þeim sýnist það.
Það spillir aftur á móti aðeins fyrir, að hér um bil strax og þeir hafa fallist á að sálin sé ódauðleg, það sem þeir segja og samþykkja um snjóinn: „Og ef kuldi er óforgengilegur, mundi þá ekki snjórinn víkja fyrir hita óskertur og óbráðinn? Því hann gæti ekki tortímst, né heldur þyldi hann hitann.“ Ég veit ekki alveg hvað skal segja um þetta. Þetta eru jú Miðjarðarhafsbúar, og hafa kannske litla reynslu af snjó. Mér hefur hins vegar alltaf sýnst snjór bráðna þegar hann lendir á einhverju heitu, hvort sem það er á mér, bíl eða gangstétt með snjóbræðslulögnum. Það er ósköp freistandi að fella alla röksemdafærsluna á þessu. Þeir þurfa jú á því að halda að það sem hafi eitthvað í för með sér muni aldrei taka við andstæðu þess. Það er svo sem satt, að snjórinn, sem hefur kulda í för með sér, mun aldrei taka við hita – ég hef a.m.k. aldrei nokkru sinni heyrt um heitan snjó (þótt ég hafi heyrt um djúpsteiktan ís). En hann bráðnar og verður að vatni (sem getur vel orðið heitt).
En ætli maður verði ekki frekar að gera ráð fyrir því að þeir hafi einfaldlega tekið lélegt dæmi. Snjór er aðeins ein mynd vatns, rétt eins og gufa. Sálin er það hins vegar ekki – sál er ekkert annað efni á öðru formi. En þetta furðulega dæmi gerir þetta allt saman vafasamt. Er ekki til dæmis enn opið fyrir þann möguleika, að það sem hafi t.d. hita í för með sér (eins og eldur) víki fyrir því sem hefur kulda í för með sér (t.d. köldu vatni)? Það er einmitt það sem þeir segja: „Og eins geri ég ráð fyrir, að ef hitinn væri óforgengilegur, þá slokknaði eldurinn aldrei eða tortímdist, þegar eitthvað kalt réðist á hann, heldur mundi hann skunda burt óskertur.“ Ég hef nú bara aldrei séð logandi viðardrumb gera slíkt þegar hann er lagður í snjó eða baðkar fullt af ísmolum. Þetta þýðir þó ekki að það sé ósatt að það sem hafi eitthvað í för með sér muni ekki veita andstæðu þess viðtöku. Strangt til tekið veitir snjórinn hitanum ekki viðtöku, heldur eyðist hann bara. Og eldurinn verður ekki kaldur, það slokknar einungis á honum, og þá aðeins við vissar kringumstæður. Það hefði hins vegar lítið tapast ef þeir hefðu einfaldlega sleppt því að minnast á snjóinn.
Er þetta nóg gegn rökum Sókratesar? Ég er ekki alveg viss. Eldurinn er ennþá ókælanlegur. Það er alveg sama hve mikið frostið er, hann frýs ekki. Hann eyðist bara við vissar kringumstæður. Því er hins vegar öðruvísi farið með sálina. Hún hefur líf í för með sér. Hún getur þess vegna sjálf aldrei tekið við dauðanum, hún getur ekki dáið. Og ólíkt eldinum, þá virðist ekkert granda henni heldur, því eins og áður sagði, þá er það að deyja fyrir lifandi hlut ef hann hættir að vera til. Hins vegar má benda á það á móti, að ef sálin eyðist, þá hefur hún ekki veitt dauðanum viðtöku. Þá er hún ekki lengur neitt og þá hvorki lifandi né dauð.
Það lítur því út fyrir að Sókratesi hafi mislukkast það sem hann reyndi. Það útilokar þó auðvitað ekki að sálin, sé hún til, sé eftir sem áður ódauðleg. En röksemdafærsla Sókratesar sýnist mér ekki ganga upp.
All we need is just a little patience.