Mér datt í hug að senda inn, sem mitt innlegg i umræðuna um hópa og “stéttaskiptingu” í samfélaginu sem kork byrjaði á, ritgerð sem ég skrifaði í heimspekilegum forspjallsvísindum í fyrravetur, en hér er hún örlítið lagfærð:
Í þessari greinargerð ætla ég að líta á hugtökin Sjálfið og Hinn, eins og Simone de Beauvoir notar þessi hugtök í grein sinni „Hitt kynið“[Greinin "Hitt Kynið" er inngangur að bókinni "Simone De Boauvoir, Heimspekingur, Rithöfundur, Femínisti" þýð. Torfi H. Tulinius, Háskólaútgáfan: Reykjavík 1999]. Beauvoir gerir grein fyrir þessum hugtökum einkum til útskýringar á stöðu kvenna gagnvart körlum, en bendir einnig á hve víða og dult þessi hugtök leynast í öllu atferli okkar mannana. Ég ætla að leggja megin áherslu á hið síðara, með sérstakri áherslu á mikilvægi hugtakanna í tengslum við mótun sjálfsmyndar einstaklingsins, og birtingu þess atferlis sem hugtökin lýsa í daglega lífinu.
Fyrst ber að huga að uppruna og tilkomu þessara hugtaka. Þau eiga sér óneitanlega langa sögu og ekki er gott að segja nákvæmlega hvenær þau hafa í raun orðið til, þó er ljóst (í mínum huga) að atferlið hefur orðið til laungu áður en menn fóru að búa sér til hugtök um þetta efni eða annað. En um leið og við höfum öðlast vitundina um atferlið hefur hugtakið sjálkrafa orðið til eins og Simone de Beouvoir segir: „Hugtakið Hinn er jafnupprunalegt vitundinni.“ Ég er sammála henni, því ég vil meina að hugtök almennt séu beinar afleiðingar vitundarinnar, og það að öðlast vitund er, að mínu mati, að hafa ákveðna og afmarkaða hugmynd um tiltekið efni, og hugtak er orð sem við finnum þessari hugmynd, en það er nauðsyndlegt til þess einfaldlega að geta hugsað um hugmyndina og tjáð hana. Því til að geta hugsað um flókin huglæg efni þurfum við að geta fellt hugmyndir okkar að táknum tungumálsins, annars getum við ekki rætt hugmyndirnar í huga okkar og vegið þær og metið. Beauvoir heldur áfram og segir: „Í frumstæðustu samfélögunum, í elstu goðafræðinni, er ávallt fyrir hendi tvískipting í Sjálfið og Hinn.“ (bls.29) Ég er aftur sammála, en tel að ganga megi enn lengra og segja að atferlið, sem tvískipting felst í, gæti ekki aðeins meðal manna heldur megi einnig finna vísi að sambærilegri tvískiptingu meðal allra einstaklinga, af öllum dýrategundum sem tilheyra ákveðnum hópi eða heild. Því tvískiptingin fellst í því að greina sjálfan sig frá hinum og það gerum við með því að draga upp og meta sameiginleg og ósameiginleg einkenni og skipa einstaklingum niður í flokka eða hópa eftir því, s.s. ákveðnar dýrategundir, hópa innan þeirra o.s.frv. Þetta virðast flestir einstaklingar allra dýrategunda vera færir um, reyndar ómeðvitað, en í það minnsta virðast þau öll vera fær um að bera kennsl á einstaklinga af sömu tegund og kunna að forðast óvinveitta einstaklinga af öðrum tegundum. Eini munurinn á okkur mönnunum og dýrunum í þessu tilliti er sá að við búum yfir hæfileikanum til að geta gert okkur grein fyrir þessu atferli og verið meðvituð um það, jafnvel þó fæst okkar séu það dags daglega.
Þetta atferli verður sífellt flóknari og flóknari eftir því sem samfélagið verður fjölbreyttara og umfangsmeira og skilin milli hópanna daufari. Við heyrum til margra mismunandi hópa og höfum misjöfnum skildum að gegna gagnvart þeim og þeir hafa misjafna forgangsröðun í huga okkar. Á þennan hátt er fjölskyldan mikilvægasti hópur flestra, hún gengur fyrir og maður hefur flestum skildum að gegna gagnvart henni, svo eru til aðrir hópar sem skipta minna máli en við myndum samt einhverskonar tengsl við, Simone de Beauvoir tekur gott dæmi um þess háttar tengsl, „[þ]að nægir að þrír ferðalangar sitji af tilviljun saman í klefa til að hinir farþegarnir í lestinni verði að eilítið óvinveittum „öðrum“.“(bls. 29) Þarna verður strax til einhver lítil og óskýr hópkennd, eða öllu heldur vottur að sameiginlegri andstöðu ef við lítum á þetta eins og Beauvoir gerir (vikið verður betur að þessu atriði síðar). Ef við höldum áfram með dæmið og fylgjum ferðalöngunum út úr lestinni þá koma hugsanlega fleiri hópar í ljós sem þeir tilheyra, s.s. fjölskylda, vinir, vinnufélagar, samlandar og kynbræður eða -systur o.s.frv.
Greining hugtakanna Sjálfið og Hinn er afar mikilvægt atriði til skilnings á grein Simone de Beauvoir og við verðum að gera okkur grein fyrir því hvaða viðhorf hún telur að Sjálfið hafi til annara einstaklinga. Til skýringar á því vitnar hún í Hegel, en hann hélt því fram að vitundin sjálf væri í grundvallaratriðum fjandsamleg öllum öðrum vitundum, og að sjálfsveran ákvarði sjálfa sig einvörðungu í andstöðu við eitthvað annað og fullyrði að hún sjálf sé inntak verunnar en geri ráð fyrir að hinn sé inntakslaus hlutvera.(bls.30) Ég tek að hluta til undir þetta með þeim Hegel og Beauvoir, en að mínu mati á þetta frekar við um hópsjálfið, ef hægt er að tala um það sem slíkt, heldur en einstaklingssjálfið. Ég er fullkomlega sammála Beauvoir, aðeins fyrr í greininni, þar sem hún segir: „Ekkert samfélag skilgreinir sig nokkurn tíma sem heild án þess að benda samstundis á Hinn.“ Hér finnst mér fullyrðing Hegels eiga miklu betur við, því mín tilfinning er sú að það séu frekar hópar sem ákvarða sjálfa sig í andstöðu við aðra, en einstaklingar. Mér virðast einstaklingar fyrst og fremst hafa tilhneigingu til að tilheyra hópi og vera meðteknir sem hluti af heild, það er svo ekki fyrr en þeir eru farnir að njóta þess öryggis sem því fylgir, að þeir fara að líta á aðra í neikvæðum samanburði við sjálfa sig og hópinn.
Áhrif tvískiptingarinnar á mótun sjálfsmyndar okkar er greinileg. Eina hugmyndi sem við höfum um sjálf okkur er staða okkar gagnvart öðrum, innan hópsins og utan, við metum umhverfi okkar og einstaklingana í kringum okkur út frá ýmsum ólíkum þáttum og á sumum sviðum stöndumst við samanburð en á öðrum ekki. Útkoman úr þessum samanburði er sjálfsmynd okkar, en þar sem erum sjálf bæði sá sem metur og sá sem er metinn, þá kunna niðurstöðurnar oft að verða annarlegur og sjálfsmyndir hanga víða skakkar á veggjum.
Það er margt sem getur haft áhrif á sjálfsmynd okkar, bæði neikvæð og jákvæð. Í fyrsta lagi er sú hugmynd sem við höfum um aðra sjaldan allur sannleikurinn, við sjáum yfirleitt aðeins toppinn af ísjakanum en vitum ekki hvað leynist undir yfirborðinu. Sem dæmi þá sjáum við myndir af fólki í fjölmiðlum sem virðist ganga allt í haginn, leikara og tónlistarmenn sem lifta listgreinum sínum á hærra stig og við hrífumst með, afburða íþróttafólk sem vinnur afrek og stórvirki, og við látum okkur dreyma um að líf okkar væri jafn sórfenglegt og fullkomið. En þetta eru aðeins stök orð slitin úr samhengi heillrar setningar, við sjáum ekki það sem býr að baki, erfiðið og vinnuna. Auk þess sjáum við oftast aðeins þær hliðar fólks sem það vill að við sjáum. Sjálf leikum við sama leikinn, án þess þó að segja ósatt þá veljum við úr það sem við viljum að aðrir viti og sleppum því að hafa orð á hinu, við blekkjum og látum blekkjast. Í öðru lagi eru hugmyndir okkar um aðra oft litaðar alskyns fordómum, við ímyndum okkur ótrúlegustu hluti um fólk sem oft eru byggðir á haldlitlum upplýsingum og stökum atburðum sem við drögum af alhæfandi ályktanir. Það er athyglisvert og vel þess virði að fara nánar ofan í þennan punkt sem ég minntist lítillega á hér að framan og kemur fyrir í dæminu sem Beauvoir tekur þ.e. „[…]hinir farþegarnir verði að eilítið óvinveittum „öðrum“.“, hún tekur reyndar fleiri dæmi þar sem Hinir verða ýmist eilítið óvinveittir, grunsamlegir eða framandi. Þetta virðist byggja á ákveðnum ótta við hið óþekkta og á þessu þrífast fordómar. Við höfum búið okkur til fyrirfram skoðanir á heilum kynstofnum, þjóðum, samfélagshópum og einstaklingum. Margir eru t.d. haldnir þeirri sannfæringu að allir Kínverjar séu skipulagðir, allir gyðingar nískir, allir hestamenn fyllibittur o.s.frv. Yfirleitt eiga fordómar sem þessir við lítil rök að styðjast, en við leggjum dóm á þetta fólk og metum sjálft okkur útfrá þessum dómum, áhrifin af þessu eru þau að heimsmynd okkar ekki síður en sjálfsmyndinni hættir til að vera úr samhengi og á skjön við raunverulega stöðu mála.
Það er ljóst að þessi tvö hugtök, Sjálfið og Hinn, eru bæði flókin og fjölþætt, enda hafa þau orðið mörgum heimspekingum og sálfræðingum umfjöllunarefni og hægt væri að gera langt mál um allar þær skilgreiningar og kenningar sem til eru um þau frá höfundum eins og Kant, Hegel og Freud, en til þess væru þrjúhundruð blaðsíður heppilegri en þrjár. Ég hef því reynt að forðast að blanda hugmyndum annarra í umræðu mína að svo miklu leyti sem það er hægt, en þess í stað einbeitt mér að því hvernig Beauvoir hugsar sér þessi hugtök og reynt að draga fram hvernig þessi hugtök eiga við nánast allt atferli okkar og birtast okkur daglega þó við gerum okkur sjaldnast grein fyrir því.