freysi:
Ég hef alltaf trassað að lesa Wittgenstein, aðeins lesið túlkanir annarra um hina og þessa þætti í heimspeki hans. Ef ég veit rétt þá ert þú að lýsa viðhorfi Wittgensteins á fyrri hluta ferils hans, seinna tók hann upp mun afslappaðra viðhorf um tengsl tungumáls og heimspeki.
Varðandi hugmynd hans um bjögun tungumálsins þá er hún keimlík fyrirbærafræði Hüsserls, nema hvað Hüsserl gengur kannski enn lengra, því það eru öll skynfæri okkar sem brengla sýn okkar á veruleikann. Félagsfræðileg fyrirbærafræði eins og hún er sett fram af “nemanda Hüsserls?” Alfred Schultz er athyglisverð að því leiti að hann gengur í lið með “óvininum”, heimurinn er það sem skynfæri okkar, tilfinningar, hugsun og reynsla lætur okkur í té. Við erum ekkert að reyna að brjótast út úr viðjum skynfæra, tilfinninga, hugsunar og tungumál, heldur er þetta sá frumskógur sem við búum í. Hann er upplifun okkar, reynsluheimurinn (life-world), sannleikurinn. Að reyna að brjótast út úr þessum viðjum er svona svipað og ef Amazon indjáni brýst úr viðjum frumskógarins. Eina uppskeran er ný upplifun og alls ekki sannleikurinn um frumskóginn. Hann er kominn út úr honum og því hættur að skynja hann að fullu.
Eins er held ég með heimspekina, hugsanlega er hægt að setja fram heimspekilega hugsun án tungumáls, en er það sú heimspeki sem skiptir okkur máli? Er það nokkur heimspeki því öll tjáning er tungumál og eins og við höfum rætt þá er sannleikur stærðfræðinnar háður þeim forsendum sem hún setur sér.
Ef við kjósum einn sannleika, þá er hann að öllum líkindum á svo abstrakt formi að hann hefur enga þýðingu fyrir okkur. Við erum kominn svo langt frá “frumskóginum” þar sem við eigum heima að hann segir okkur ekkert um “frumskóginn” sem var jú tilefni pælingar okkar.
M.
midgardur:
Nákvæmlega. :)
En nú ætla ég að vera svolítið frakkur…
Við getum sæst á eftirfarandi:
-Tilvera okkar er háð skynjun, hugsun og tungumáli. Eina leiðin til að tjá okkur um upplifun okkar er með því að lýsa áhrifum þess upplifunar á okkar ytri skynfærum og hugsun.
-Ekki er hægt að skilja neitt hugtak til hlítar nema með yfirsýn. Ekki er hægt að fá yfirsýn nema með því að skilja sig alveg frá hlutnum, þ.e. taka eitt skref aftur á bak (sjá allann skóginn).
-Til þess að fullkomnlega skilja okkar tilveru þá þurfum við því að skilja okkur frá henni. Þetta er nú ekkert ný hugmynd af nálinni, t.d. biblían segir að allt muni verða ljóst þegar maður kemst til himna og skilur sig frá jarðneskri tilveru. En segjum sem svo að þetta sé hægt og að maður geti komið til baka með nýja vitneskju. Það þýðir að við þurfum að komast út fyrir okkar tilveru. Samkvæmt skilgreiningu á ‘út fyrir’ þá þýðir það að til er eitthvað sem er ekki í okkar tilveru, eða fyrir utan hana. Eins og þú segir, þar er ný upplifun.
Nú erum við í vanda því hvernig ætlum við að setja okkar gömlu tilveru inní þessa nýja sýn sem við höfum fengið? Við skiljum nú gömlu tilveruna okkar í sinni eigin mynd en við getum ómögulega skilið hvar hún passar inní þessa nýja upplifun. Þá hefst nýtt skeið leitar og pælinga og að lokum munum við ekki skilja þessa upplifun fyrr en við komumst fyrir utan hana. Þetta gæti gengið endalaust. Þetta er svipað og með frumsendum stærðfræðinnar, við köfum dýpra og dýpra(í þessu tilfelli ytra og ytra) og finnum alltaf nýjan sannleik sem setur gamlan sannleik í nýju ljósi. En við munum aldrei komast að niðurstöðu vegna þess að til þess að fullkomnlega skilja okkur sjálf verðum við að hætta að vera við sjálf. Sannleikurinn er hugsanlega þarna einhversstaðar en, eins og þú segir, þá hefur hann líklegast enga þýðingu fyrir okkur.
0
freysi:
Ég held að niðurstaða 20. aldar í leitinni að stóra-sannleika, hafi verið að hann er ekki til. Í það minnst hann er óskiljanlegur eins og óendanleikinn eða tómið. Það má lýsa honum á einhvern hátt, en við lendum alltaf í því sama og þú lýsir. Heimsmynd Indverja lýsir þessu ágætlega líka um heiminn á skjaldböku sem situr á skjaldböku sem situr á skjaldböku sem situr á…
M.
0