Þessar pælingar snerta á mörgum áhugaverðum málefnum.
Eins og áður hefur verið bent á lendir pæling þín í vandræðum varðandi þróunarkenninguna (sem nú hægt að treysta töluvert vel eftir yfir 150 ára rannsóknir): líf hér á jörð var ekki nýtt af nálinni þegar efri heili nútímamannsins tók vaxtarkipp fyrir um 100.000 árum. Við menn erum komnir af öðrum lífverum sem svo voru komnar af öðrum lífverum og svo framvegis aftur að þeim punkti þar sem líf kviknaði.
Þú gerir líka ráð fyrir að heimurinn sé ,,skapaður“. Það virðist ekkert benda til þess að heimurinn sé skapaður af einhverri veru eða verum. Gögn hingað til benda til þess að það sem við köllum alheiminn hafi hafist í mikilli sprengingu fyrir 15-20 milljörðum ára. Síðastliðin 15-20 ár hafa menn verið að þróa kenningar og stærðfræði sem er megnug þess að reikna út hvað gerðist fyrir þessa miklu sprengingu. Þessi óvissa um hvað gerðist fyrir sprenginguna er alls ekki vísbending um að heimurinn hafi verið skapaður! Þvert á móti virðast allir þeir þættir sem tileinkaðir hafa verið skapara/sköpurum í gegnum tíðina vera auðskiljanlegir og útskýranlegir með náttúrulegum skýringum nútímavísinda.
Endurfæðingar eru skemmtileg umræða (þó svo á endanum sé lítið eftir af kenningunum). Hvað er þetta ,,ég” sem endurfæðist? Hvað ert þú? Flestir samþykkja að stór hluti SJÁLFS (það er þetta ÉG) sé byggt á minni sem er geymt í heilastöðvum líkamans. Þessar heilastöðvar geta skemmst og skemmast þegar einstaklingur deyr. En hvað er það þá sem endurfæðist? Hvað er eftir þegar minningarnar eru teknar í burtu? Nú myndi einhver vilja segja sál. Engar vísbendingar liggja fyrir um tilvist slíks fyrirbæris; og reyndar liggja vísbendingarnar í þveröfuga átt: það er að við fæðumst án SJÁLFS: samanber að við eigum engar hugtakabundnar minningar áður en við LÆRUM tungumálið. Ennfremur lenda kenningar um sál í vanda þar sem þær eru EILÍFAR, ÓUMBREYTANLEGAR og ÓEFNISLEGAR. Við skynjum bara þá hluti sem eru tímanlegir, breytanlegir og efnislegir og því skynjum við aldrei þessa sál (sem sumir vilja halda fram að sé til). Sálin verður því ,,draugur í vélinni" eins og Gilbert Ryle orðaði það. Við þekkjum bara líkamana (vélina) en kynnumst aldrei sálinni (draugnum). Nú ef sálir eru ekki eilífar, óumbreytanlegar og óefnislegar gætu þær ekki lifað af dauðann og heldur ekki endurfæðst. Ein kenning segir þó að við endurfæðumst þannig að við séum sett saman á nákvæmlega sama máta og áður: það er sami líkami og sama sál og áður. Skemmtilegustu mótrökin gegn henni eru mannæturökin: að það sé ekki hægt að setja saman sama líkama þar sem sumir voru mannætur og því eru hlutar af öðrum mönnum í þeim mönnum og þá myndi vanta í þá sem voru étnir af öðrum mönnum.
Titillinn þinn vekur hins vegar upp margvíslegar skemmtilegar pælingar. Hvað ef hægt væri að hlaða niður á tölvidisk öllum minningunum þínum? Væru þá til tvær Lolur (í það minnsta á því augnabliki sem afritunin stóð yfir - þar sem báðar eindir þróast á mismunandi vegu eftir afritunina)? Kannski er það ekki nóg eitt og sér, en hvað með klónað eintak af manni sjálfum sem inniheldur tölvudrif með öllum minningunum manns?
Vonandi veittu þessar vangaveltur mínar yður einhver ný sjónarhorn á málefni greinar yður.
KMA