Er trú spurning um val?
Ýmsar skoðanir hafa í gegnum tíðina verið uppi um það hvort mögulegt sé að heimfæra trú upp á lögmál rökfrædinnar og beita þeim lögmálum sem þar ráða trúnni til varnar. Margir hafa gert tilraunir til að færa rök fyrir tilveru Guðs og má þar nefna m.a. heilagan Anselm af Kantaraborg, heil. Ágústínus og René Descartes. En sú tilraun sem hvað frægust hefur orðið fyrir að færa hagkvæmnisrök fyrir tilveru Guðs, er án efa rökfærsla franska heimspekingsins, vísindamannsins og stærðfræðingsins Blaise Pascals (1623-62).
Rök sín setur Pascal fram í formi veðmáls og birtist veðmálið fyrst í bókinni “Pensées de M. Pascal sur la religion, et sur quelques autres sujets” (sem í grófri þýðingu útleggst: Hugleiðingar herra Pascals um trúarbrögðin og ýmis önnur málefni ). Bókin var gefin út af fjölskyldu Pascals, vinum og aðdáendum árið 1670, en þá voru átta ár liðin frá andláti hans. Veðmálið var eins og safn þeirra brota sem birt eru í bókinni upphaflega ætlað sem hluti af stærra verki sem Pascal var að vinna að og átti að vera einskonar réttlæting Kristindómsins.
Hugmyndin að baki veðmálinu er í stuttu máli sú, að ef þú veist ekki hvort Guð er til, þá er samt skynsamlegra (eða hagkvæmara) fyrir þig að reikna með því.
Rökfærsla Pascals kemur í þrem útgáfum (samkv. Ian Hacking “The Logic of Pascal's Wager”), sem allar styðjast við það sem á ensku kallast Decision Theory eða afráðskenninguna (reyndar hef ég ekki íslenska nafnið á þessari kenningu, en sjálfsagt er það til og væri gott ef einhver sem þekkir til kæmi því á framfæri, en þangað til verður “afráðskenning” að duga og mun ég notast við það nafn hér. Það sama á við um nöfn annarra kenninga í þessari grein, ég hef ekki íslenskar þýðingar á neinu þeirra og væri gott ef þeir sem vita betur leiðrétti mig þar sem við á, en í millitíðinni notast ég við eigin þýðingar).
Fyrir þá sem ekki kannast við afráðskenninguna, þá er hún svona:
Hver athöfn hefur ákveðnar mögulegar afleiðingar;
hver þessara afleiðinga hefur ákveðið gildi;
væntingarnar fyrir hverri afleiðingu eru jafnar gildi hennar margfölduðu með líkum þess að hún eigi sér stað;
væntingarnar fyrir einni ákveðinni afleiðingu tiltekinnar athafnar er summa væntinganna fyrir hverja hugsanlega afleiðingu.
Sú athöfn sem hefur hæstar væntingar er skynsamleg.
Hér koma rök Pascals (stuðst er við The Internet Enclopedia of Philosophy):
I. Yfirburða rökin (The Super-Dominance Argument).
Pascal byrjar á því að segja að annaðhvort sé Guð til eða hann sé ekki til, og annað hvort túir X því eða ekki.
Tafla 1 Guð er til Guð er ekki til
X trúir (a) óendanleg hamingja © 250 hamingju “einingar”
X trúir ekki (b) óendanleg þjáning (d) 200 hamingju “einingar”
Ef Guð er til munu þeir sem trúa á hann njóta óendanlegrar hamingju (reitur a), á meðan sá sem trúir ekki munu hljóta óendanlegar þjáningar (reitur b). Ef Guð er hins vegar ekki til munu þeir sem á hann trúa njóta endanlegrar hamingju áður en þeir deyja (t.d. 250 einingar - reitur c) og þeir vantrúuðu munu einnig njóta endanlegrar hamingju, en ekki í sama magni, því þeir munu upplifa kvíða og ótta frekar en þess öryggis sem trúin veitir. Burt séð frá því hvort Guð er til eða ekki, þá munu þeir sem trúa hafa það betur en hinir, af þessu leiðir að skynsamlegt sé að trúa.
Þetta held ég persónulega að sé mjög hæpin röksemdafærsla, þar sem ólíklegt er að þeir sem ekki trúa vilji kannast við að þeir upplifi á einhvern hátt minni hamingju á þeim forsendum að þeir njóti ekki öriggis trúarinnar. Það er óljóst hvort er hægt að gera ráð fyrir einhverjum tengslum milli hamingju og trúar. Trúleysingjar geta allt eins verið mjög hamingjusamir og trúaðir að samaskapi óhamingjusamir, ég get ekki séð nein greinileg tengsl þarna á milli. En öðrum rökunum er ætlað að sneiða hjá þessum vanda.
II. Væntinga rökin (Expectation Argument).
Ef trúleysinginn er hamingjusamur og sá trúaði óhamingjusamur, þá er gildi reits (d) meira en gildi ©, og “yfirburða rökin” gilda ekki lengur. En ef það eru helmings líkur á því að Guð sé til þá getum við reiknað út væntingarnar svona:
Tafla 2 Guð er til Guð er ekki til
X trúir (a) + óendanleiki © eitthvað endanlegt
X trúir ekki (b) - óendanleiki (d) eitthvað endanlegt
Væntingarnar fyrir afleiðingar þess að trúa á Guð eru:
jákvæður óendanleiki x 0.5 + eitthvað endanlegt = jákvæður óendanleiki
Væntingarnar fyrir afleiðingar þess að trúa ekki á Guð eru:
neikvæður óendanleiki x 0.5 + eitthvað endanlegt = neikvæður óendanleiki
Það er því skynsamlegt eða hagkvæmt að trúa á Guð, þar sem við hljótum að velja jákvæðan óendanleika fram yfir neikvæðan. Það er hinsvegar ólíklegt að líkurnar á því að Guð sé til séu nákvæmlega helmings líkur, en það skiptir ekki máli samkvæmt þriðju rökunum.
III Yfirburða-væntinga rökin (The Dominating Expectation Argument).
Óendanlega gildið í reit (a) gerir það að verkum að ef tilvera Guðs hefur endanlegar líkur (1/2, 1/3,… o.s.frv. ) þá eru væntingarnar fyrir því að trúa á Guð óendanlegar. Auk þess mun þessi óendanleiki alltaf hafa meira gildi en gildi reita (b), © og (d), svo lengi sem © er ekki óendanlega neikvætt og hvorki (b) né (d) eru óendanlega jákvæð.
Hér er upptalningu á rökum sem lesa má beint úr skrifum Pascals sjálfs lokið, en margir seinnitíma heimspekingar hafa haldið uppi vörnum fyrir gildi veðmálsins gegn fjölmörgum andmælum, en það er of langt mál að fara í gegnum allar þær rökræður hér svo ég læt nægja að nefna helstu andmælini:
Margra-Guða andmælin (The Many-God's Objections) sem felast í því að hægt er að setja hvaða guð eða guðdómlega veru inn í dæmið í stað þess guðs sem Pascal nefnir;
andmæli sem byggja á raunverulegum valmöguleikum (Genuine Options) rök sem eru ættuð frá William James og byggja á því að veðmálið sé máttlaust frammi fyrir þeim sem ekki líta á trúnna á Guð Pascal's sem raunverulegan valmöguleika (ástæðurnar taldi James vera að miklu leyti uppeldislegar og ég er sammála honum um það), margir hafa hinsvegar talið skilgreiningu James á því hvað er raunverulegur valmöguleiki ófullnægjandi;
afstæðisandmælin segja að Veðmálið hafi haft meira og fullkomnara gildi fyrir samtímamenn Pascals, en það hefur í fjölþjóðlegum samfélögum nútímans. Forsendurnar sem þeir gefa sér fyrir því eru að samtímamenn Pascals hafi ekki þekkt eins vel til annarra trúarbragða og hafi því aðeins haft um tvennt að velja; trú á Guð eða trúleysi. Þetta er einfaldlega rangt, því þótt þetta hafi e.t.v. átt við almenning í Frakklandi á 17.öld þá voru vel upplýstir menntamenn í Frakklandi á þessu tíma búnir að hafa kynni af ýmsum öðrum trúarbrögðum, t.d. vegna Krossferða á 11. öld en þá kynntust Frakkar Islamstrú, vegna landafundanna í nýja heiminum á 16.öld o.s.frv. Svo þessi mótrök rista grunnt.
En þess má geta að margir nútíma heimspekingar og hugsuðir hafa látið sannfærast af rökfærslu Pascals og fallist á að trú geti sannarlega verið hagkvæmur og skynsamlegur kostur. Í þeim hópi er meðal annarra Hannes Hólmsteinn Gissurarson eins og sjá má á heimasíðu hans, og kemur fram á kasmír-síðu thortho (http://kasmir.hugi.is/thortho) undir “Veðmál Pascals” (takið eftir ummælum Hannesar um mömmu sína, IKEA-húsgögn ofl. …hehe)
Hins vegar er það mjög umdeilt hvort við getum með einfaldri viljaákvörðun fengið okkur til að trúa einhverju. Við getum auðveldlega sannfærst um hagkvæmni þess að trúa, en getum við sannfærst um innihald trúarinnar með sama hætti? Það held ég ekki, trú er í mínum huga ekki spurning um einfalt val.
Hvað hafið þið hugarar góðir um rök Pascals að segja og hvað finnst ykkur um þá skoðun manna að fólk geti einfaldlega ákveðið að trúa einhverju útfrá hagkvæmnissjónarmiðum?
Mynduð þið trúa því að himininn væri grænn ef ég borgaði ykkur þúsundkall fyrir?
Ég vildi líka gjarnan trúa því að ég ætti þúsundkall til að borga ykkur, en sama hversu mikið ég reyni, þá er mér ómögulegt að sannfærast um það. Ástæðan er sú að ég hef einfaldlega ekkert sem rennir stoðum undir þá fallegu og skemmtulegu hugmynd :(