Viltu vita ástæður alls...? Ástæður alls
eftir Magnús Svein Jónsson.



Halló.

Það er ástæða fyrir því að ég sit hér í stólnum fyrir framan tölvuna mína og er að skrifa niður hugleiðingar mínar um, ja, allt. Það er líka ástæða fyrir því að þú ert að lesa það sem ég er að skrifa. Það eru í raun nokkuð margar ástæður fyrir þessu tvennu, og þú munt komast að því hvaða máli það skiptir ef þú lest lengra.
Þú getur vonandi verið sammála mér um þetta með ástæðurnar. Ég ætla að láta það vera að telja upp allar þær ástæður sem ligga að baki því að ég er að skrifa þetta, því það væri ógjörningur. Þótt ég ráðist sjaldan á garðinn þar sem hann er lægstur, læt ég það ógert að reyna að framkvæma hið ómögulega. Kanski er það veikleiki minn hver veit? Mestu snillingar allra tíma hafa einmitt yfirleitt verið að reyna það sem á þeim tíma var talið ómögulegt. En ég verð seint talinn í þeirra hópi.
Ég ætla hinsvegar að útskýra fyrir þér flest það sem þú varst ekki alveg viss um hvernig virkaði, eða frekar af hverju þetta gerðist en ekki hitt. Ég veit að þú hefur hugsað það milljón og einu sinni eins og við hin. Af hverju? Þú hugsar kanski með þér, „hann er óskaplega viss í sinni sök um að hann geti útskýrt svo flókinn hlut fyrir mér”, og það er rétt. Ég er viss um það. Ef ég væri ekki viss um það, hver tæki þá nokkuð mark á mér? Það trúir enginn því sem hann lærir, ef sá sem kennir trúir því ekki sjálfur!

Ég endurtek, þú getur vonandi verið sammála mér um þetta með ástæðurnar. Það er ástæða fyrir því af hverju þú keyptir þessa kextegund en ekki hina. 1) þér þykir þetta kex betra, 2) einhverjum öðrum á heimilinu þykir það betra, 3) það var í flottari umbúðum, 4) það var nær innkaupakerrunni, og svona gæti ég haldið áfram endalaust. Það eru alltaf fjöldamargar ástæður fyrir öllum ákvörðunum sem við tökum. Fyrri reynsla okkar til dæmis. Hún hefur yfirleitt mikið að segja, hvort sem það var í uppeldi okkar eða eitthvað sem þú lærðir í skóla, hvort sem það gerðist fyrir tíu árum eða í fyrradag.
Tökum annað dæmi af öðru sviði. Regndropi fellur á jörðina. Það er frekar lítill og ómerkilegur atburður í sjálfu sér. Ekki ákvað dropinn sjálfur, „jæja, ég er búinn að fá nóg af því að svífa hérna um, besta að skella sér niður og sjá hvað er í gangi þar…”. Nei, dropinn ákvað ekkert, þetta bara gerðist. En það eru alveg jafn margar ástæður fyrir því að hann féll á þessari sekúntu og á þennan stað, eins og þegar þú varst að versla þér kex. Í þetta skiptið voru það önnur öfl að verki. Vindurinn feykti skýjunum til, eflaust marga kílómetra þar til loksins að skýið þéttist nógu mikið til að mynda regndopann sem féll til jarðar.
Ég gæti tekið fleiri dæmi, en málið er ekki svo flókið. Að baki öllu sem gerist, hversu smátt eða stórt sem það er, liggja ástæður. Óteljandi ástæður. Ef þú ert ekki sammála mér þá er það hið besta mál, en mundu bara að ég hef rétt fyrir mér, sannaðu til.
Tökum kexkökuvandamálið á örlítið þróaðra stig. Við setjum manneskju inn í herbergi með fimm lokuðum dyrum, og segjum henni að velja sér eina dyr til að opna. Hún gæti valið hvaða dyr sem er til að opna, eða hvað? Í huga manneskjunnar er ógrynni af upplýsingum sem hún vinnur meðvitað og ómeðvitað úr til að ákveða hvaða dyr skuli opna. En það liggja ástæður að baki ákvörðunar manneskjunnar. Ógrynni af ástæðum. Allt sem manneskjan hefur upplifað, allt sem mótar persónu hennar spilar inn í. Það er nær ómögulegt að segja til um hvaða dyr manneskjan mun velja, því við getum ekki reiknað inn í myndina allar ástæðurnar sem liggja bak við þessa einföldu ákvörðun. Þegar allt kemur til alls, er aðeins ein dyr sem kemur til greina. Við getum ekki sagt fyrirfram hvaða dyr það verður, manneskjan getur það ekki einu sinni sjálf, ekki með 100% öryggi.
Er þá allt fyrirfram ákveðið? Já og nei, en aðallega nei. Í sjálfu sér eru hlutirnir ekki ákveðnir, það er ekki einhver sem stjórnar því hvað gerist, heldur er (fræðilega) hægt að rekja til baka ástæður alls þess sem hefur nokkurntíman gerst allt til upphafs veraldar. Það sem gerist hefur ástæður, en þar sem ekki er hægt að reikna inn í allar breyturnar í þessari jöfnu, getum við ekki sagt hvað muni gerast. Ekki nákvæmlega.
Þó getum við spáð fyrir um ýmislegt. Veðurfræðingar gera það á hverjum degi, og eru orðnir svo góðir í því að þeir gera það með nokkuð mikilli nákvæmni með nýjustu tækjum og tólum. Svo eru til einfaldari spádómar, þeir sem við spáum á hverjum degi. Ég spái því til dæmis að ég muni fá mér að borða á morgun. Þetta var ekki flókið, því flest bendir til að ég muni gera svo sjálfsagðan hlut á morgun, eins og ég er búinn að gera á hverjum degi allt mitt líf. Ég get líka spáð lengra fram í tímann. Ég spái því að eftir fjögur ár (árið 2006) verði haldin heimsmeistarakeppni í knattspyrnu. Ekkert bendir til annars, en ef ég spái því að úrslitaleikurinn endi í vítaspyrnukeppni þá myndu fáir taka mig alvarlega. Ég get spáð því út í loftið, en ég get ómögulega vitað það fyrir víst. Það getur enginn! Samt er eitthvað að gerast í dag, og eitthvað gerðist í gær, sem mun að lokum orsaka það hvort leikurinn endi í vítakeppni.
Ég hef mína hugmynd um örlagamestu stund í lífi mannanna. Og það er getnaður. Þegar þú varst getin(n), þá var ein lítil sáðfruma sem fann egg í móður þinni og frjóvgaði það. Það var upphafið af þér. Þetta vissir þú fyrir, en hugsaðu þér ef mamma þín hefði haft hausverk þetta kvöld? Eða að nágrannarnir hefðu kíkt í heimsókn? Eða, eða, eða… Það eru óteljandi margar ástæður fyrir því af hverju þú ert til. Ef við hugsum okkur að mamma Adolfs Hitler hefði ekki þvegið sér um hárið það kvöld sem hann var getinn. Einhver önnur manneskja hefði (að öllum líkindum) vaxið inn í henni, kanski kvenkyns eða bara allt önnur manneskja en varð. Þetta hefði líklegast ráðið því hvort milljónir manna hefðu dáið vegna hans (meðal annars að sjálfsögðu, því það eru ótlejandi ástæður fyrir öllu eins og fram er komið). Þú getur ekki neitað því að heimurinn væri ekki sá sami og hann er í dag hefði allt þetta saklausa fólk lifað og eignast börn og sett þannig sitt mark á heiminn?
Þetta dæmi um svo áhrifaríkan mann er bara til að sýna að það er alltaf hægt að segja ef, ef, ef. Ef þetta, þá hitt. En það er tilgangslaust. Því það sem gerist er það eina sem mögulega hefði getað gerst. Það er bara ein hurð af þessum fimm sem manneskjan mun ákveða að opna, og það er sú eina sem hún hefði nokkurntíman getað ákveðið að opna. Þetta þýðir ekki að hún hafi ekki haft val. Valið hennar var allt það sem gerði hana að persónu, öll sú orka sem hún eyddi í að ákveða hvað gera skyldi. Hurðin sem hún opnaði er sú eina mögulega, af því að hún opnaði hana. Svolítið flókið orðalag, ég viðurkenni það.
Höldum áfram með fótboltann frekar en Hitler. Maður brennir af vítaspyru í fyrri hálfleik, og í búningsklefanum hellir þjálfarinn sér yfir hann og skammar hann. Af hverju gerði hann ekki þetta frekar en hitt. En við vitum betur. Þetta var það eina sem hann gat gert í stöðunni. Hvort sem það var honum að kenna, þjálfaranum, boltanum eða einhverju öðru, þá var þetta það eina sem gat gerst. Þannig að frekar en að segja leikmanninum hvað hann hefði átt að gera, þá á hann að segja honum hvað honum beri að gera í framtíðinni í sömu stöðu. „Við værum núna eitt núll yfir!” öskrar þjálfarinn. En, það hefði aldrei getað gerst. Aðstæðurnar leyfðu það ekki.
Í sjálfu sér var það leikmanninum að kenna að hann brenndi af vítinu. Við getum ekki fært sökina frá honum. Hann gerði eitthvað sem hann vildi að hefði farið betur, og hann fær refsingu fyrir það, t.d. reiðilestur frá þjálfaranum. Þetta þýðir kanski að hann muni leggja harðar að sér næst eða æfa sig betur fyrir næsta leik, hver veit? Enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Svo mikið er satt.
Þessar hugleiðingar sverja sig upp að vissu marki til örlagatrúar, fyrir utan eina stóra staðreynd. Þótt allt geti aðeins farið á einn veg, er það alls ekki ákveðið hvaða vegur það er. Það getur framtíðin aðeins leitt í ljós.

Ef þú ert búinn að lesa þennann pistil til enda, þá vona ég að þú skiljir hvað ég átti við. Ég skipa þér ekki að vera sammála mér, enda brýtur það gegn því sem ég trúi á. Og svo eru það þeir sem ekki nenntu að lesa til enda. Ég lái þeim það ekki, því það liggja þúsund og ein ástæða fyrir því af hverju þeir kláruðu ekki. Kanski var ég bara svona leiðinlegur? Hver veit?
…enginn.

Magnús Sveinn Jónsson.