-René Descartes (1596-1650)
Halló.
Ég er svona stúlka sem tekur engu sem sjálfsögðum hlut. Ég veit ekki hvernig ég get útlistað það betur fyrir þér. Kannski ekki þörf á því heldur.
Saga mín er svona:
Ég stóð fyrir utan ískápinn, mánudagsmorgunn í september. Mér var illt í maganum og ég þurfti að fara í skólann. Ég hoppaði ekki hæð mína af kæti yfir því. Vægast sagt var ég pirruð yfir þeirri óumflýjanlegu staðreynd.
Jæja. Ég fikraði mig nær ískápnum, klukkan var að ganga sjö. Ég vissi að ef ég ætlaði að vera samfélaginu boðleg þyrfti ég að flýta mér að borða svo að ég gæti hafist handa við neyðaráætlun B, sem felur í sér húfu, þykk föt og sólgleraugu.
Ég opna ísskápinn og tek út það fyrsta sem ég sé, tómat.
Skyndilega finn ég tilfinningu sem ég hef aldrei fundið fyrir áður. Mér fannst ég svo tengd þessum tómat, og ég gat ekki útskýrt hvernig. Ég einfaldlega átti bágt með að bíta í hann, mér fannst eins og hann væri bróðir minn.
Ég starði á tómatinn og lagði hann síðan frá mér á eldhúsbekkinn. Næst geng ég að eldhúsborðinu og sest niður, stari með örvæntingarfullu augnarráði á hlægilega ljótar gardínurnar sem prýða annars mikilfenglegan eldhúsglugga. Hvað var að gerast?
Fáeinum augnablikum síðar áttaði ég mig. Ég var orðin svo andlega lömuð, hugur minn var búinn að gefast upp á því að reyna að hafa vit fyrir mér. Það eina sem ég notaði af heilanum var bragðskynið og stjórn öndunar.
Þarna, við eldhúsbekkinn með forljótar gardínurnar sem vitni tók ég örlagaríka ákvörðun. Ég skyldi breyta lífi mínu til batnaðar, frá og með deginum í dag. Ég skyldi sko rækta hugann, finna mér trúfélag, algjör Moby! Lifa í sátt og samlyndi og eignast tilgang. Rækta samskiptin við mikilvægar manneskjur og læra, læra og læra meira andlega. Eyða stundum mínum með gefandi fólki, í gefandi athöfnum. Læra hugleiðslu, blessa pasta og hætta að borða kjöt.
Já. Ég var sannarlega frelsuð.
Kjörorð mín eru “Sá sem elskar heiminn er eins og sá sem dáist að eigin málverki”. Afstæðishyggjan þarna í gangi. Jæja, þarna stend ég, alveg eins og slímugur ungi, nýskriðinn úr eggi efinshyggjunnar og ákveð að drita hugmyndafræði minni yfir mannfólkið.
Ef þú ert ennþá að lesa er takmarkinu náð.
ps. Ef þú ert viðkvæm/ur fyrir kómískri ádeilu á heimspekina, biðst ég innilegar afsökunar. Þurfti bara eitthvað að tjá mig.
I love Stan, Stan loves ham… ham I am!