Því heimskingjar dást meira að öllu og elska það, sem þeir sjá
falið í myrkum orðum, og telja að allt sé satt, sem vegna fegurðar
sinnar nær eyrum manna og er litað með fögrum frösum.
Títus Lúcretíus Carus (98-55 f.Kr.) Um eðli hlutanna
(De Rerum Natura) I.641-644.
Gott viðtal við David Chalmers, nb. prófessor í heimspeki.
Hvað er heimspeki?
Heimspeki er glíma við grundvallarspurningar. Þeir sem fást við heimspeki reyna m.a. að skýra inntak og tengsl hugtaka og fyrirbæra á borð við sannleik, merkingu og tilvísun, skilning, þekkingu, skoðun, vísindi, skýringu, lögmál, tegund, samsemd, eðli, eiginleika, orsök, rök, vensl, nauðsyn, möguleika, lög, rétt, rangt, gott, illt, hamingju, dygð, skyldu, athöfn, atburð, réttlæti, réttindi, frelsi, vináttu, ást, fegurð, list og svona mætti lengi áfram telja. En heimspekin er ekki hvaða glíma sem er við þessar spurningar sem á okkur leita, heldur er hún fyrst og fremst tilraun til að fást við þessar spurningar af einurð og heilindum. Hún er ekki einber opinberun á einhverri skoðun, heldur er hún ætíð rökstudd, jafnvel þótt stundum séu rökin ósögð og undanskilin og þau verði að lesa á milli línanna.