Sumir hafa eflaust lent í því að tyggjó klínist í hár eða á húð þannig að það er algjört “pein” að ná því úr/af. Ekki rjúka til og ná í skærin strax (ja klippir náttúrulega ekki húðina af, en kannski hárið). Sæktu smjörlíki, makaðu því vel á staðinn þar sem tyggjóið er fast og voila: mikið auðveldara að ná því úr. Mæli samt með að þvo hárið líka eftir slíka meðferð.
Eins kannast margir við hvernig ná á vaxblettum úr efni; nærð þér í dagblað, leggur yfir blettinn og straujar svo yfir. Þá bráðnar vaxið og sogast upp í dagblaðið.
Hvítir kaffibollar vilja oft verða blakkir að innan með tímanum. Einfaldri aðferð til að hressa við blakka kaffibolla kynntist ég þegar ég vann í eldhúsinu á Borgarspítalanum þegar ég var 17 ára. Maður smellir bollunum einfaldlega í klórvatn og leyfir þeim að liggja yfir nótt. Þetta kölluðum við að “klóra” bolla. Síðan þvær maður þá bara eins og venjulega og þeir glansa að innan.
Oft eru börnin manns dugleg við að skreyta heimilið með allskyns listaverkum og líma þau á glugga og spegla. Kannist þið við límdrulluna sem situr oft eftir? Nú til að ná límblettum af gleri er gott ráð að fá sér sítrónudropa (kökudropa), hella þeim í blauta tusku og nudda vel yfir.
Blettir á parketti er annað sem er frekar hvimleitt, en stundum virkar að taka blauta tusku og hella ediki í hana og strjúka yfir blettina.
Skal senda inn fleiri húsráð um leið og ég kemst yfir þau.
Kveðja,