Ég hef nú ekki flutt það oft um ævina, mest bara núna í sumar, en staðirnir sem ég hef búið á eru ansi dreifðir.
Heimili 1:
Ég bjó þarna mestan hluta af ævi minni, eða um 16 ár. Þetta er rosa flott einbýlishús á 3 hæðum, í Suðurhlíðunum í Kópavogi. Ég hef átt herbergi á öllum hæðum hússins, en við systkinin vildum alltaf vera að skipta, og aldrei sátt við herbergin okkar! Seinustu 2-3 árin var þó loksins komið endanlegt skipulag á þetta og allir loksins sáttir! Það eru 4 svefnherbergi í húsinu, en foreldrar mínir voru búnir að breyta húsinu talsvert síðan við fengum það. Þau voru búin að láta hækka þakið og gera kvist, gera auka hurð útí garð frá jarðhæðinni, byggja stóra verönd í garðinum og taka þvottahúsið og fl. Í gegn. Ég var sko ekki sátt við að þurfa að flytja þaðan, en foreldrar mínir seldu húsið núna í júni, og fluttu til Lúxemborgar.
Heimili 2:
Var í Suður-Frakklandi. Ég átti heima þar í 1 ár, þegar ég var 11 ára. (semsagt, áttum ennþá hús nr.1, en leigðum það út í 1 ár.) Þetta var lítið og krúttlegt hús í Valbonne. Staðurinn sem ég bjó á var oft kallaður ‚The Silicon Valley of Europe’ vegna þess hve mikið af tæknifyrirtækjum var á svæðinu og framfarirnar í tölvutækni miklar. Þetta var alveg frábær staður, öll hús umkringd af trjám og mikið um skemmtileg útivistarsvæði fyrir krakka. Húsið var á einni hæð, 3 svefnherbergi, lítið eldhús og stofa. Þrátt fyrir það voru samt 3 baðherbergi! Ég og systir mín þurftum að deila svefnherbergi, því litli bróðir minn var einfaldlega of mikil subba og of frekur til þess að hægt væri að deila herbergi með honum!
Heimili 3: (og 4)
Flutti þangað í sumar. Fjölskyldan öll flutt út, foreldrarnir og litli bróðirinn til Lúx. Og eldri systir mín til Kaupmannahafnar. Þannig að ég fór að leigja litla kjallaraíbúð ásamt kærastanum í Kópavoginum, flutti alveg 3 götum frá æskuheimilinu!  Þetta var svosem ágæt íbúð, nema það að útidyrahurðin var eitthvað biluð, og það var einungis 1 opnanlegur gluggi á allri íbúðinni! En íbúðin samanstóð af einu stóru rými, þar sem við vorum með rúm, sófa, sjónvarp, skrifborð, fataskáp o.s.frv. Svo var lítið eldhús, þar sem var líka þvottavél og þurrkara, og svo pínkulítið baðherbergi, með svölustu sturtu í heimi… ég sakna sturtunnar.. Þetta var svona sturta frá Sturta.is með fjarstýringu, innbyggðu útvarpi, 7 nuddstútum, gufubaði ofl…
Heimili 5: (og 6.)
Jæja, við kærastinn vorum svo að flytja aftur fyrir um 2 mánuðum. Foreldrar mínir ákváðu semsagt að kaupa handa okkur íbúð, sem væri með auka svefnherbergi sem að þau gætu sofið í þegar þau kíkja í heimsókn. Þetta er semsagt voða sæt kjallaraíbúð í Teigahverfinu í Laugardalnum, en þrátt fyrir að vera í kjallara er hún mjög lítið niðurgrafin og það er hátt til lofts þannig að manni líður alls ekki eins og maður sé í kjallara.
Hún er um 85fm, sem er eiginlega alltof stórt fyrir tvo unglinga! En það eru semsagt 2 svefnherbergi, annað risastórt sem að við notum og svo eitt lítið fyrir foreldrana (sem að koma 3svar á ári circa). Svo er meðalstórt baðherbergi, og eldhús. Svo er stofa, sem er jafnstór og aðalrýmið í gömlu íbúðinni, þannig að það er meira en nóg pláss! Frábær íbúð í alla staði… fyrir utan það að ég heyri það ef nágrannarnir fyrir ofan svo mikið sem kveikja á sjónvarpinu… og þau eiga mörg börn, sem eru farin á fætur kl.9 á sunnudagsmorgnum!
Svo smá um heimili 6, en það er hús mömmu og pabba í Lúxembourg, en ég fer þangað í öllum fríum. Þau eru í alltof stóru húsi með 5 svefnherbergjum (þau búa þrjú þarna), þannig að ég og systir mín eigum herbergi þarna sem bíða bara eftir okkur þegar okkur dettur í hug að kíkja í heimsókn.
Húsið er á 3 hæðum, með 2 baðherbergjum, stóru eldhúsi og stofu með arni, stórum garði og 2,5 bíla bílskúr. Voða flott eitthvað… kostar náttúrlega ekkert miðað við það sem maður borgar á Íslandi!
Jæja, ég vona að þetta hafi ekki verið alltof langt hjá mér, en ég þakka bara fyrir lesturinn.
p.s. myndin er af fyrsta heimilinu.