Eftirfarandi er upptalning á þeim fáu íbúðum sem ég hef búið í, og smá lýsing á hverri og einni, njótið.

Seljahverfið - fyrri hluti
1990 - 1996

Ég byrjaði ævina í þriggja herbergja íbúð á jarðhæð í Seljahverfinu í Reykjavík. Þetta var hin fínasta íbúð svosem, 2 ágæt herbergi, nokkuð stór stofa, ágætt eldhús, baðherbergi og hol sem tengdi allt saman. Svo var lítil hellulögð verönd út úr stofunni og stór garður (miðað við blokkaríbúð) þaðan, sem við reyndar nenntum aldrei að girða, það var bara pínulítil girðing þar.
Man reyndar ekki mikið frá þessari íbúð, þó ég hafi verið 6 ára þegar ég flutti þaðan, hef ekki besta langtímaminni í heimi. Þetta var samt fínn staður, rétt hjá leikskólanum, og í þyrpingu verkamannabústaðablokka þar sem bjuggu fullt af krökkum, og við lékum okkur oft á leikvöllunum sem voru þarna á milli blokkana. Ég átti ágætt herbergi þarna eftir að stóra systir mín flutti út, sem var mjög langt en mjög mjótt líka. Fínt fyrir einn - pirrandi fyrir tvo, sem var reyndar raunin síðasta hálfa árið held ég (öll leikföng heimilins voru inni hjá mér, og litla systir mín var alltaf þarna inni). Hef ekkert mikið um þessa íbúð að segja svosum, nema þetta var hin fínasta íbúð.

Svo kom tími á að flytja, systir mín var vaxin uppúr rimlarúminu og þurfti sérherbergi, við neyddumst til að stækka upp í fjögurra herbergja íbúð. Fyrir okkar einskæru heppni losnaði íbúðin á móti, í sama stigagangi og sömu hæð. Við fengum hana, og það var mjög svo spes að flytja frá íbúð 1. hæð til vinstri í íbúð fyrstu hæð til hægri.
Vaknaði á flutningadaginn e-ð seint, allt í einu kominn í mömmu og pabba rúm, og sá að öll íbúðin var tóm, og allt komið inn hinum megin. Litla systir mín vaknaði líka við það, og var sko alls ekki sátt við að fólkið á móti væri búið að taka allt, svo hún náði í rúmið sitt og flutti það til baka. Það er skemmtileg saga að rifja upp.

Seljahverfi - seinni hluti
1996 - 2004

Þetta var fín íbúð sem ég bjó í á þessum árum, hún var stærri en hin íbúðin, enda fjögurra herbergja, samt nánast alveg eins, eiginlega spegilmynd af hinni, nema búin að breikka smá til að fá aukaherbergi. Ég fékk risastórt herbergi þarna, sem var spegilmyndin af gamla herberginu, nema núna var það helmingi stærra, það var bæði langt OG breitt. Eitthvað um 15 - 17 fermetrar, það er ekki amalegt fyrir 6 ára…
Þegar ég bjó þarna var mjög gaman, og gerðist margt, enda var þetta meirihluti ævi minnar held ég… Allt var svo risastórt þarna, stofan var kassalaga og svo stór að hægt var að hafa stóran sófa, stóra hillusamstæðu, stóran glerskáp og stórt borðstofuborð, þessi íbúð er einfaldlega flottasta og best skipulagða blokkaríbúð sem ég hef komið inn í á ævinni, og ég hef komið inn í þær margar. Svo var auðvitað eldhús sem var ágætlega stórt, hjónaherbergi sem var í betri kantinum, og eitt svefnherbergi í minni kantinum sem systir mín átti. Sakna þess að búa þarna, væri alveg til í 17 fm herbergi ennþá.
Þarna gekk ég í Ölduselsskóla, það er magnaður skóli, og var 5 mínútna labb í burtu. Mjög skemmtilegir tímar, og flestir stóru viðburðir lífs míns gerðust á þessum árum, en það er varla annað en eðlilegt…
Ég hef ekki farið þarna uppeftir síðan ég flutti nema einu sinni, og það var mjög skemmtilegt. Fór reyndar ekki inn, en sá þetta að utan og inn í stigaganginn og minningarnar helltust yfir mig. Good times.
Einn flottasti kosturinn við þessa íbúð var útsýnið! Það var æðislegt og mikið útsýni út um eldhúsgluggann og 2 herbergisglugga, yfir alla Reykjavík að Esjunni, og ekki skemmdi það fyrir að gluggarnir voru stórir, þetta var draumastaðurinn á áramótunum áður en maður nennti út. Reyndar var úr míunu herbergi bara útsýni á gangstéttina að inngangnum í blokkina, og sást mjög vel inn, ég þoldi það ekki. Var með gluggatjöld og klemmdi þau saman svo það kæmi ekki rifa, vildi ekki fá gluggagægja.

Aftur kom að því að flytja. Núna var það ekki tengt stærð, heldur staðsetningu, mamma og pabbi voru alltaf uppi í Mosfellsbæ í golfi, eldri systir mín bjó þar, það var styttra fyrir pabba að fara í vinnuna þaðan og fleiri kostir. Svo, þegar sumarfríið hjá foreldrum mínum sumarið 2004 byrjaði ákváðu þau að skoða íbúðir. Skoðuð reyndar bara eina, sem eldri systir mín benti þeim á, og féllu fyrir henni. Fluttum svo með allt okkar hafurtask í september, yfirgáfum Seljahverfið og héldum til sveitarinnar.

Mosfellsbær
2004 - ?

Fluttum í mjög nýlega blokkaríbúð hérna, á annarri hæð. Mamma og pabbi voru búin að fá nóg af því að eyðileggja garða, svo þau tóku ekki í mál annað en að flytja í íbúð með engan garð.
Þetta er svosum fínasta íbúð, á ágætum stað, uppvið grunnskólann (1-2 mínútur að labba!), nálægt golfvellinum og hvaðeina. 4 lítil svefnherbergi (ég minnkaði við mig í herbergi um heilan helming!), ekkert svo stór stofa sem er kjánaleg í laginu, lítið eldhús, fínt baðherbergi, allt of stór gangur sem nýtist ekkert og svo góður bílskúr og geymsla. Við þurftum að minnka við okkur í húsgögnum hérna, gátum ekki haft borðstofu svo borðstofuborðið er eldhúsborð og eldhúsborðinu var hent, ég þurfti að minnka svakalega við mig í húsgögnum, og fleira þannig. Ég einfaldlega þoli ekki hvað þessi íbúð virkar lítil, þó að hún sé stærri en þessi sem við áttum á undan. Þetta venst samt….
Staðsetningin er ágæt, þó að mér finnist ég vera aðeins of mikið úti á landi. Eitt er víst, þegar ég flyt að heiman mun það ekki vera í þessum bæ, ekki séns. Allt of langt að fara í skólann og allt annað með strætó! Þyrfti að vera meira miðsvæðis, vantar t.d. allar búðir og sjoppur í korterslabbiradíus hérna. Annars líður mér frekar vel hérna, þetta er fínasta heimili. Myndi samt ekki slá hendinni á móti að flytja til baka í Seljahverfið, magnað hverfi.

Er samt ekkert að fara að flytja í bráð, foreldrum mínum líður vel hérna, svo það bíður bara betri tíma :)

Well, þetta var upptalning á mínum íbúðum, njótið þess. Btw. blokkir eru kúl, ekki gleyma því!

-Vansi