Mér leiðist, svo ég tók þá ákvörðun að skrifa eina litla grein um herbergið mitt, og senda inn hingað á /heimilid. Mjög sniðugt.
Almennt
Ég er með, eins og flestir nú til dags, sérherbergi. Þetta er í grunninn ósköp venjulegt barnaherbergi í blokkaríbúð, ekkert svaka stórt, einungis um 8 fm. Það er mikil breyting að fara niður í svona lítið herbergi eftir að hafa búið í um 16 fm herbergi síðan ég man eftir mér. En, fórnir þarf að færa í flutningum, hjá mér var það aðallega herbergið mitt. Þar sem ég var með svona stórt herbergi áður, þá eru húsgögnin mín stór. Fer nánar í þau síðar.
Herbergið mitt er í grunninn alveg ágætt. Reyndar ljótt á litinn, það er svona baby blue, eftir litla strákinn sem bjó hér áður. Einnig eru nokkrar dældir í veggjum, stór dæld í hurðinni, sem segir manni það að þetta var vígvöllur forðum daga. Ég er með það á dagskrá að mála hérna, hef bara ekki komið því í verk ennþá, en það mun örugglega gerast fyrr eða síðar, þá er ég að spá í að mála það í einhverjum hlutlausum lit, grár, eða eitthvað í þá áttina. Hérna er parket á gólfinu, mjög þægilegt gólfefni, og skápur, innbyggður, í ljótum beykilit, sem vantar á aðra hurðina. Hún er geymd á góðum stað, hinum megin í herberginu, í geymsluholunni minni.
Hef búið hérna í 2 ár núna í september, og sé ekki fram á að hætta því í bráð.
Nánari lýsing
Komið er inn í herbergið frá fyrstu dyrum til vinstri, þar er komið inn í litla forstofu, þar er snagi, sem ég hef aldrei notað svo ég muni. Þaðan er gengið inn í stórt fallegt hol, sem er aðalæð herbergisins. Þar er aðgangur í alla aðra hluta þess. Byrjum á skápnum, sem er fyrstur ef við notum klukkuhringinn. Ofurvenjulegur innbyggður fataskápur, með beykiáferð, fullur af fötum og ýmsu öðru drasli. Á hann vantar aðra hurðina, sem ég skrúfaði af eitt desemberkvöld því það var búið að rífa allar festingarnar nema eina í sundur, lélegur viður + mikill þjösnagangur er ekki góð blanda. Fínn skápur.
Við hliðina á skápnum er sorprenna, sem reyndar er ekki innangeng frá herberginu, en hún stingur sér samt hingað inn. Sem betur fer, því annars gæti ég ekki haft hillusamstæðuna við hliðina. Þessi hillusamstæða er hvít, nokkurra ára gömul, úr rúmfatalagernum og nokkuð stór því hún var keypt inn í tvöfalt stærra herbergi, en hún passar samt hérna inn. Hillurnar eru fullar af drasli, nema nokkrar, þær eru fullar af bílum. Elska dótabílana mína, þeir eru svo flottir, og litli frændi minn elskar að leika sér með þá, þess vegna er hentugt að ein hillan er einmitt í leikhæðinni hans. Hef ekkert merkilegt í þessum hillum annars, set bara dót sem ég veit ekki hvar ég á að setja þarna, oft mjög mikið af drasli sem safnast þarna saman.
Jæja, færum okkur smá, í HOLUNA!! Holan er tilkomin því rúmið mitt nær ekki alveg veggjanna á milli, svo það myndast geymslupláss þarna. Þar er ég með svona plastkassa úr rúmfatalagernum, set ofan í þá þegar ég tek til í hillusamstæðunni. Þar geymi ég líka hurðina af skápnum, hún smellpassar þarna. Á veturna er svo þessi hola notuð sem skólatöskusæti, eini staðurinn sem ég get geymt skólatöskuna mína án þess að hún sé fyrir mér, fínt.
Þá erum við komin að aðalstaðnum í þessu herbergi, rúminu mínu. Rúmið mitt, ég elska það, það er stórt, það er þægilegt, það er æðislegt, ég elska það, uppáhalds húsgagnið mitt án alls efa! Eins og ég sagði, er það stórt, það var keypt til að fylla aðeins upp í gamla herbergið mitt, stóð úti í horninu þar, en hérna fyllir það nánast út í hálft herbergið. Þetta er svaka flott rúm, næstum einn og hálfur metri á breidd, með upplyftanlegum endum, get lyft upp undir hausnum og fótunum, það er ótrúlega þægilegt að vera t.d. í fartölvunni þannig, eða horfa á sjónvarpið. Elska þetta rúm, fékk það í Betra Bak sem fermingargjöf frá foreldrum mínum. Þetta rúm nota ég í meira en að sofa og svona, er t.d. alltaf í því þegar ég er í tölvunni, og ýmislegt annað, því ég er ekki með pláss fyrir stól hérna. Uppáhaldsstaðurinn minn á jörðinni næstum.
Núna erum við komin hringinn, og endum á skrifborðinu mínu. Þetta er hornskrifborð úr Rúmfatalagernum, sem litla systir mín fékk í jólagjöf fyrir ekki svo mörgum árum.Svo þegar herbergið mitt minnkaði, skipti ég um skrifborð við hana, hún fékk mitt sem er stærra og kæmist aldrei hingað inn. Á þessu skrifborði geymi ég tölvuna mína og allt henni tengt, heimili iPodsins míns, híbýli símans míns og vekjaraklukkuna. Upp á síðkastið hefur þetta borð fengið annað hlutverk í viðbót, að geyma nýfengnu fartölvuna mína. Ég er nýbúinn að taka til á því núna, oftast er mikið drasl á því, það mun koma bráðlega aftur, þó ég vilji það ekki…
Annað
Svo er fleira í herberginu, t.d. glugginn minn, sem er með kappakstursbílagluggatjöldunum mínum sem ég fékk þegar ég var 8 ára eða eitthvað, skipti þeim í eitthvað annað þegar ég mála. Út um þennan glugga er ágætt útsýni, enda önnur hæð, sé t.d. eitthvað fjall núna sem ég held að sé Esjan. Segjum það bara.
Svo eru veggirnir þaktir plaggötum og ýmsu. Ætla núna að telja það upp: 3 BMW plaggöt, 9 BMW innrammaðar gamlar myndir, eitt Porsche Carrera GT lítið plaggat, ein svona a4 árituð mynd frá Mark Webber þegar hann var hér á landi, og svo dagatal, frá því í janúar febrúar og mars 2005, sem ég nenni ekki að taka niður. Notaði það til að telja niður í utanlandsferð sem ég fór í þá, mína fyrstu í mörg ár. Einnig bíður nýfengið Ford GT plaggat úr Brimborg þess að komast upp á veggina, ég hef bara ekki fundið pláss ennþá, og ég nenni varla að hengja það upp.
Svo er eitt sem ég verð að minnast á, serían í loftinu hjá mér. Keypti hana fyrir jólin 2004, samt er þetta ekki jólasería, heldur heilsárssería, og hengdi hana upp í loftið, fasta við ljóskastarann í loftinu, og ömmustöngina. Hún er blá, með æðislega róandi góðri birtu, ég gæti ekki verið án hennar núna þegar ég hef kynnst henni.
Að endingu er það gólfið, sem er ekkert spes, eina sem er á því fyrir utan það sem ég er búinn að telja upp eru fötin sem ég er að nota í augnalikinu en er samt ekki í. Ekkert drasl beint, enda þoli ég ekki að hafa gólfin þökt einhverju ógeði >_<
Myndir
Ég ætla að gera eins og margir aðrir, og taka myndir. 6 talsins, sérvaldar af mér, teknar með Sony myndavélinni minni. Ótrúlegt en satt, það er ekkert búið að eiga við þær í myndvinnsluforritum, herbergið mitt er bara svona geðveikislega flott!
(það er pínu erfitt að fara nógu langt frá myndefninu til að taka mynd af heila klabbinu, svo það vantar kannski endana á húsgögnin á þessum myndum)
Skápurinn minn.
Hillusamstæðan mín, og við hliðina sést glitta í mín eldgömlu dagatöl (á veggnum).
Holan við rúmið mitt, náði ekki betri mynd en þetta, þarna sést skáphurðin mín samt vel.
Rúmið mitt, erfitt að ná því öllu vegna þrengsla, en svona lítur það út, sængurverið fékk ég með rúminu þegar ég fékk það. Það er mjög sjaldgæft að það sé búið svona vel um það, en hvað gerir maður ekki fyrir myndatöku?
Skrifborðið, með öllu draslinu á sem ég taldi upp áðan. Þess má geta að á gólfinu er fjarstýringin fyrir rúmið mitt, ahh.
Serían mín, besta myndin sem ég náði í dagsljósinu, hún lítur miklu betur út í myrkri, þá er líka allt herbergið bláleitt.
Jæja, vonandi hefur einhver lesið þessa grein alla í gegn, ég geri mér grein fyrir að hún er kannski pínulítið löng, en ég reyndi að setja hana vel upp.
Takk fyrir mig,
Vansi =}