Varðandi Habitat Fyrir stjórnendur Habitat vil ég byðja að lesa ekki þessa grein, sömuleiðis starfsmenn eða þá sem hyggjast kæra mig ef ég gagnrýni fyrirtækið.

Ég fór í Habitat í Bæjarlind um daginn. Ætlaði að skoða skáp í herbergið mitt. Mig hafði lengi grunað að mér þætti verslunin ekki falleg. En þetta gerði útslagið.

Eins og margir vita er verslunin á þremur hæðum, neðst er rúmgóður salur sem hýsir smáhluta- og stofudeild verslunarinnar og upp frá honum opinn stigi upp á 2. hæð. sem geymir sömuleiðis smáhluti. Þaðan upp er svo stigi upp á 3. hæð sem ég er ekki viss um hvað hýsir, hvort það sé lager eða önnur deild, það hef ég ekki hugmynd um.
Húsnæðið er mjög vel hannað, salurinn sem gengið er inn í er bjartur og vandaður. Sömuleiðis stiginn sem gengið er upp á 2. hæð. 2. hæðin er líka mjög vel hönnuð og sömuleiðis 3. hæðin, sem er einnig nokkuð skemmtileg, með brú á milli 2 hluta hæðarinnar.

En það sem ég sá þegar ég kom inn í búðina… Svæðið kringum afgreiðsluborðið var reyndar allt í lagi, en nær allt annað svæði er allt í rusli, kössum og slíku drasli. Óraðaðar vörur voru hér og þar á skítugu gólfinu og sópar og aðrir hlutir sem starfsmenn nota voru einnig á víð og dreif um salinn. Á 2. hæð er skipulagið reyndar meira en samt ófullnægjandi að mínu mati. En ef litið er á 3. hæð er skipulagið ömurlegt. Þar er skipulagið þannig að skápar ætlaðir til sölu eru stútfullir af allskonar öðrum vörum, svo að þegar maður kaupir þá eru rispur á þeim. Ég hef aldrei komið yfir brúna og á hinn part 3. hæðar, því að ég komst ekki leiðar minnar fyrir öllum kössunum og skápunum og sópunum og borðunum sem eru þar. Það gæti náttúrulega verið að hæðin sé ætluð fyrir lager en samt ætti að gefa meira rými í hann, því að ef varan sem viðskiptavinurinn ætlar að kaupa er innst inni í þessari hrúgu af hlutum, þar sem einum hlut er kastað ofan á annan, þá er beinlínis ómögulegt að koma honum til skila.

Ég gekk út úr búðinni skömmu síðar eftir að hafa aðeins keypt eina bastkörfu. En þegar ég kom heim sá ég að jafnvel vörurnar þeirra voru gallaðar. Neðst í bastkörfunni var ógeðsleg mygla og lyktaði eins og einhver hefði migið ofan í þetta. Handfangið sem átti að taka lokið af með var brotið eftir 5 mínútna bílferð og ekki nóg með mygluna ofaní, heldur hafði einhverskonar skordýr víst borað sig inn í körfuna og étið botninn úr henni. Varðandi framtíð körfunnar fór hún ekki einu sinni á Góða Hirðirinn, ég taldi það ekki hægt að fátækir byggju við skordýr og myglu og lok sem er ekki hægt að taka af.

Og ef að þetta eru þær lágmarkskröfur sem Habitat gerir til verslanna sinna og vara, þá held ég að alla vega ég hætti viðskiptum við þessa verslun.