Prógramminu mínu er skipt eftir hreyfingu ekki vöðvahópum. Finnst gott að breyta til svo ég prufaði að skipta æfingunni upp eftir grunnhreyfingum sem eru kenndar við Smith ef ég man rétt. Þær eru fettur, brettur, beygja, framstig, ýta og toga (þar að auki ganga eða hlaupa). Að fetta sig samsvarar því að rétta úr efri líkamanum eins og í réttstöðu, að bretta sig samsvarar því að kreppa magavöðvanna og draga efri líkaman saman, beygjur samsvara hnébeygju og álíka hreyfingum, framstig því að stíga fram á við, að ýta væri bekkpressa eða axlapressa og að toga væru upphífingar eða róður til dæmis.
Þannig ég tæki til dæmis réttstöðu og skógarhöggsmanninn eða álíka magaæfingu fyrsta daginn, svo bekkpressu og axlapressu annan daginn og þann þriðja hnébeygju og framstig. Svo breyti ég aðeins til í næstu viku, ég er dálítið fyrir fjölbreytileika. Höfuðatriðið er alltaf að virkja sem flesta stóra vöðva í staðinn fyrir að einbeita sér sérstaklega að til dæmis tví- eða þríhöfða eða álíka og að líkja sem mest eftir gagnlegum hreyfingum en ekki einhæfum.
Annars er þetta bara tilraun hjá mér, byggir lauslega á bók sem heitir New Rules of Lifting, sem er uppfull af dóti sem er bull að mínu mati en ég tileinkaði mér bara það sem var mér fannst gagnlegt.