HIIT er skammstöfun fyrir High Intensity Interval Training sem mætti snúa yfir á íslensku og kalla lotubundna sprettþjálfun. Heitið gefur til kynna eðli æfinganna, en það eru nokkrar lotur af sprettum. Þú skiptir æfingunni, sem er ekki lengri en 20 mínútur, í lotur. Hver lota samanstendur af rólegri hreyfingu og sprettum sem er svo endurtekinn alla æfinguna. Þegar menn eru að byrja er meirihluti lotunnar róleg hreyfing (til dæmis 60 sekúndur) og svo sprettur (til dæmis 30 sekúndur), síðan má þyngja æfinguna og gera sprettina lengri eða stytta hvíldartímann (til dæmis 30 sekúndur róleg hreyfing og 30 sekúndur sprettur). Það er auðvelt að gera þetta á hlaupabretti eða þrekhjóli þar sem þau eru oft tölvustýrð og hafa innbygð HIIT-prógrömm. Til þess að gera þetta úti þarf maður að hafa klukku, ein leið er líka að búa til playlista á iPodnum sem inniheldur stutt lög sem geta verið viðmið. Það eru líka til púlsmælar með innbyggðri klukku fyrir HIIT æfingar.
-Damphir 11.05.09