Já, þetta er soldið svona mikið kolvetni og lítið prótein. Skoðanir á fæðuhlutföllum ( hlutföll af heildar kkal ) eru ótrúlega fjölbreyttar. Og ef þú ferð út í íþróttir þá eru ólíkar samsetningar, eftir því hverju þú vilt ná fram. Hér á huga virðist flest snúast um að byggja upp vöðva eða lækka fituprósentu en miklu minna um átök og hámarks virkni í einhverri íþrótt, svona gróft á litið. Þess vegna heyrum við oftast ráð sem hljóma eitthvað á þá leið að borða örugglega nóg af próteini, borða hollt, og skrúfa jafnvel niður í kolvetni og eða fitu ( þó aðallega kolvetni ). Og ég held að það sé fínt þegar menn eru að byggja upp vöðva ( prótein + holl fita ) og lækka fituprósentu ( aðallega prótein ). En svo er líka til heimur fyrir utan fituprósentur og vöðvauppbyggingu.
Eitt sem kann að ýkja tölurnar soldið upp, og láta þetta líta fáránlega út er “skekkja” sem ræðst af því hve mis orkuríkir þessir fæðuflokkar eru.
( 1g fita = 9 kkal, 1g kolvetni = 4 kkal, 1g prótein = 4 kkal )
300g kolvetni = 67% grammafjölda
95g fita = 21% af grammafjölda
55g prótein = 12% af grammafjölda
Þetta virkar þokkalega ýkt. En ef miðað er við kkal lagast þetta aðeins.
kolvetni (300*4) = 1200 kkal => 53% kkal
fita (95*9) = 855 kkal => 38% kkal
prótein (55*4) = 220 kkal => 9% kkal
Þetta er samt ekki það sem maður vildi ráðleggja ef markmiðið er að byggja upp vöðva og lækka fituprósentu. Hinsvegar ef maður hugsar þetta sem eldsneyti til brennslu í starfi eða íþrótt, þá er þetta ekki alveg eins fáránlegt.
Það verður að athuga að:
( kolvetni + fita ) = eldsneyti ( 88% gramma, 91% kkal )
prótein = vefjauppbygging ( 12% gramma, 9% kkal )
Þegar við tölum um eldsneyti, þá er líka fínt að rifja það upp að líkaminn brennir fæðuflokkunum í ólíkum hlutföllum, á lægri álagsstigum brennir líkaminn hlutfallslega mest af fitu, en eftir því sem álagið eykst verður hlutfallsleg brennsla kolvetna sífellt hærri og fljótt ráðandi. Þess vegna er neysla kolvetna mikilvæg þegar mikið er um æfingar á háu tempói. En það er mikilvægt að átta sig á því að þó að hlutfallsleg brennsla á fitu minnki með auknu álagi, þá er brennslan það mikil á hærri álagsstigum að fleiri kkal af fitu er brennt; auk þess sem heildar brennsla eykst auðvitað hratt.
Sem dæmi úr götuhjólreiðum ( The Cyclist's Training Bible e. Joe Friel) er árinu skipt upp í ólík tímabil:
BASE(kkal): 35% fita, 25% prótein, 40% kolvetni
BUILD(kkal): 32% fita, 25% prótein, 43% kolvetni
PEAK(kkal): 28% fita, 25% prótein, 47% kolvetni
RACE(kkal): 25% fita, 25% prótein, 50% kolvetni
Og þetta eru auðvitað aðeins viðmið. En ætla mætti að BASE tíminn sé mest “eðlilegur” miðað við venjulegt fólk, enda er hann með áberandi jöfnust hlutföll. Raunar held ég að ef fólk fer ekki of langt frá 1/3 + 1/3 + 1/3 hlutfallinu sé það ekki að gera stór mistök. Hins vegar, svo við komum að upphaflegu tölunum frá IGD þá finnst mér soldið hjákátlegt að sjá að því svipar einna helst til RACE tímabilsins, aðallega bara minna prótein. Það verður að teljast vafasamt ( hjá IDG ). :D
Ég er því sammála þér um að þessar tölur hjóma hálf undarlega. Ég vildi bara hafa þennan fyrirvara á þessu, sem kom fram hér á undan. Þ.e.a.s. að það er ekki neitt eitt rétt mataræði til ( þó það sé til fullt af röngum ). Mataræði ræðst aðallega af því hvaða markmið þú setur þér, og svo er mataræðið lélegt eða gott til að ná þessum markmiðum.