Nokkuð skemmtileg umræða. Ég sé að menn eru með frekar ólíkar skoðanir um hvað sé ‘gott’ og ekki. En mér sýnist líka að hér sé fólk með ólík langtíma markmið.
Dæmi um nokkur markmið.
1) Léttast ( lækka fituprósentu ).
2) Fá stærri vöðva.
3) Verða sterkari.
4) Verða þolnari.
5) Alhliða fitness.
6) Verða betri í íþrótt X.
Svörin um það hvað er ‘rétt’ breytast eftir því hvert langtíma markmið þitt er.
Ef markmiðið er að losna við ‘aukakílóin’ (1) þá er klárt mál að þú vilt stunda þolaukandi hreifingu. Lyftingar brenna svo oggu ponsu litlu miðað við hlaup eða hjólreiðar, til að nefna dæmi. Tölurnar sem hlolli nefndi eru réttar. Hæðstu tölurnar eru líklega tölur sem hann fær út í keppnum. En ég sem stunda einnig hjólreiðar get staðfest að á mjög léttu tempói í ca 4 klst ( 100 km ) er maður að brenna 3000-3500 kkal. Ef þú skrúfar upp tempóið mun þessi brennsla aukast mjög mikið.
Til þess að forðast meiðsli er gott að stunda léttar lyftingar ( 15-25 reps ) og leggja mesta áherslu á maga og bak ( eins og áður hefur komið fram ( hlolli ) ). Ef þú stundar hreyfingu, þ.e.a.s. notar vöðvana til að hreyfa líkamann í heild sinni ( flestar íþróttir ) þá skiptir öllu máli að hafa sterka miðju ( magi&bak ). Bæði til að forðast meiðsli og til að skapa stöðugan grunn sem aðrir vövar geta stutt sig við ( skilað meiri krafti frá líkamanum í heildina ).
Grunnatriði þjálfunar ( prógramsins ) eru þrjú:
1. Frequency ( ástundun ): Hve oft í viku.
2. Duration ( viðvera ): Hve lengi í hvert skipti.
3. Intensity ( álag ): Hve vel er tekið á því á viðkomandi æfingu.
Ef markmið þitt er markmið 1) ( fitubrennsla ) mæli ég með að þú leggir fyrst og fremst áherslu á FREQUENCY ( ástundun ). Vaninn skilar þér hálfa leið. Ef þú nærð að koma þér upp ástundun er hitt meira bara eins og kremið á kökunni ( líkingin á kannski illa við hér ;) ). Auka áherslan væri svo á DURATION ( viðvera ), að þú lengir sumar æfingar ( ekki allar ) og aukir þannig smátt og smátt ( betra hægt en hratt ) þær klukkustundir sem varið er í hreyfingu ( þol + lyftingar ).
Hvað er rétt fyrir þig veltur algerlega á hvaða ástandi þú ert í. Eða réttara sagt hvað þú þolir. Og inn í þetta kemur líka andlegi þátturinn. Þú getur verið líkamlega sterkur en verið veikur andlega, og þá þýðir voðalega lítið að leggja á menn íburðamikil æfingarprógröm því þeir munu gefast upp og hætta einhverstaðar á miðri leið.
Best er að byrja á að gera frekar aðeins of lítið en aðeins of mikið ( nema þér finnist það of leiðinlegt - en þá eykurðu bara við þig ).
Og mundu að lykillinn til að endast er að finna það sem þér þykir skemmtilegast. Prufaðu hlaup eða hjól, jafnvel sund. Og finndu hvað þú fílar. Kryddaðu með lyftingum 1-3 viku.
Ef þú hleypur þá held ég að þú ættir meira að miða við 30 mín í hvert skipti og byrja mjög rólega. Meiðsli eru mjög algeng þegar maður er að byrja að hlaupa. Ekki fara lengra en 3km í fyrsta skipti, og bíddu í ca 2 daga til að leyfa líkamanum að jafna sig. Þú getur svo farið í 6km og aukið þetta smátt og smátt í ca 10 km. Eftir það finnurðu hvað þú nennir.
Ef þú hjólar geturðu í raun náð að brenna mun meira, því hjólreiðar valda síður álagsmeiðslum. Þú þolir því mun meiri æfingar og getur þ.a.l. æft mun meira ( brennt meira ) yfir vikuna. En í hlaupum er meðalpúlsinn eflaust mun hærri ( og því meiri brennsla á tímaeiningu ), á móti kemur að þegar þú hjólar geturðu verið mun lengur á hjólinu þannig hlaðið upp klst á viku og meiri heildar þjálfun. Það er fínt að byrja á svona 25 km, sem er ca meðfram sjónum við Sæbraut, út á Gróttu, til baka meðfram sjónum, sunnan megin í gegn um Nauthólsvík og út í gegn um Fossvogsdal upp í Elliðaárdal, og loka hringnum með því að þvera Rvk til norðurs.
Sund. Ég veit lítið um það. En það virkar líka. Þó það sé ekki alveg eins góð þjálfun fyrir hjarta og lungu ( meira vöðvaþol ).
Jæja þetta er um það bil allt of mikið og það eina sem ég vil benda þér á er að venja þig á að teygja vel. Þú getur í raun teygt hvenær sem er. Og ættir í raun að gera það á hverjum degi. Þú þarft ekki endilega að vera heitur ( það er betra en ef þú teygjir bara eftir æfingar er hætta á að þú teygjir of lítið ). Mundu bara að teyja létt þegar þú ert kaldur og hættu ef finnur til sársauka í stað óþæginda ( það er hárfín lína á milli óþæginda og sársauka - óþægindi eru góð, sársauki þýðir bara meiðsli. ).
Ég gæti farið út í að ræða um mataræði, en ég er bara búinn með skrifkvótann minn í bili. Borðaðu fyrst og fremst hollt. Ekkert nammi. Ekkert kók og svoleiðis sykur aumingja drykki. Og ef þú getur borðað hollt skiptir minna máli þó þú borðir meira. Ef þú hreyfir þig slatta mun þetta hvort eð er fuðra upp.
Gangi þér vel!