Sæll.
Ekki hlusta á þessa vitleysu, það er ekkert sem bendir til þess að lyftingar séu óhollar fyrir unglinga sem hafa ekki náð fullum þroska.
Þú veist væntanlega að ef þú ætlar að bíða eftir fullum þroska og fara svo að lyfta þá þarftu að bíða alveg fram yfir tvítugt?
Ég er ekki að segja að ég myndi henda 8 ára krakka beint í tækjasalinn til að fara að stunda lyftingar, á þeim aldri eru styrktaræfingar með eiginþyngd það sem ég myndi mæla með, ef krakkinn ætlaði á annað borð að styrkja sig (þess má samt geta að það eru til líkamsræktarstöðvar sérhannaðar fyrir börn, þar eru krakkarnir undir stöðugu eftirliti).
Númer eitt, tvö og þrjú fyrir þig er að gera þetta rétt. Ef þú dembir þér í ræktina og gerir æfingarnar vitlaust og þannig, þá ertu að bjóða hættunni heim, en það myndi líka gerast ef þú værir þrítugur, engin breyting þar á.
Ef þú virkilega vilt stækka, þá mæli ég eindregið með lyftingum, ekki hlusta á það að 14 ára sé of ungt, vegna þess að það er það ekki.
Samkvæmt lýsingunni sem þú gafst á þér, þá ert þú líklega “ectomorph” (grannur að eðlisfari, átt erfitt með að þyngjast), ég þekki það sjálfur, er í sömu sporum.
Þess vegna þarftu að passa extra vel upp á mataræðið, passaðu að þú borðir nóg af próteinríku fæði, það er jú úr próteininu sem þú smíðar vöðvana.
Þarft í rauninni að úða í þig mat (ekki misskilja mig, þú vilt hafa hann hollan), þeim mun betur sem þú stendur þig í því, þeim mun fyrr sérðu árangurinn.
Þess má geta að allar þær rannsóknir sem ég hef séð um aldur og lyftingar benda ekki til þess að það sé óhollt að byrja snemma, heldur þvert á móti mjög hollt.
Gangi þér sem allra best, kveðja. Birkir.