Komið þið sæl,
Eins og titill færslunnar gefur til kynna þá á ég við hnémeiðsli að stríða.
Þannig er mál með vexti að í september síðastliðnum þá lenti ég í smá slysi á æfingu, ég var að taka próf í 100 metra spretti.
Það vildi þannig til að ég spretti af stað og þegar ég var að fara að stíga yfir endalínuna þá hrundi ég niður og veltist fram fyrir mig og lenti beint framan á hægra hnénu mjög harkalega.
Ég fékk djúpan skurð á hnéð og vikuna eftir gat ég ekki gengið, mér leið eins og hnéð væri bólstrað af bómulli eða eitthvað álíka og sársaukinn var ekki af skárri endanum. Ég missti mikinn svefn vegna þessa og mátti varla hreyfa mig án þess að kenna til.
Þremur vikum seinna fer ég til læknis og er send í röntgen til að athuga með beinbrot en það kom ekkert út úr því, engin beinbrot en ég bjóst svosem ekki við því að svo væri, eftir einar þrjár vikur.
Læknirinn sagði mér að svona högg gæti tekið dálítinn tíma í að lagast. Núna er kominn janúar og ég er enn meidd. Ég hef upplifað ýmis konar meiðsli áður enda verið íþróttamanneskja frá unga aldri, í fótbolta, frjálsum íþróttum o.fl.
Meiðslin lýsa sér þannig að ég er mjög viðkvæm í kúlunni hægra megin á hægra hnénu. Verkurinn leiðir frá kúluliðnum aftan á hnéð og þegar reynir á þá finn ég mjög til og satt að segja er ég í rauninni ófær um að reyna mikið á hnéð. Allt sem er ekki beint áfram er sársaukafullt t.d. að hlaupa áfram og breyta um stefnu.
Ég get í rauninni alls ekki hlaupið, því þegar það er komið ákveðið álag á hnéð þá er sársaukinn svo mikill að ég bara kemst ekki lengra sama hvað ég reyni. Ég get hvað þá ekki sparkað í bolta en það reynist mér mjög erfitt þar sem ég hef verið frá fótboltanum lengur en ég ætlaði.
Það er eitt sem mér finnst líka skrítið, ég datt og lenti beint framan á hnénu og fékk þar mikinn skurð og var að sjálfsögðu bólgin þar og mjög aum lengi eftir á og finn stundum fyrir því núna. En mesti verkurinn er ekki á þeim stað, heldur í kúluliðnum og fyrir aftan hnéð sem ég skil ekki alveg.
Er einhver hér sem hefur lent í svipuðum hnémeiðslum?
Einhver ráð, er þetta eðlilegt eftir að hafa dottið á þennan hátt?