Tekið af vísindavefnum:
“Þegar talað er um bauga undir augum er oftast átt við dökka hringi undir augunum, en stundum líkjast þessir baugar þó meira pokum.
Ýmsar orsakir geta verið fyrir baugum undir augunum. Ein ástæðan eru þunn augnlok en slíkt getur haft í för með sér að æðar verða meira áberandi, sem gerir neðri augnlokin dekkri. Þunn augnlok ganga í erfðir en með aldrinum þynnist einnig húðin sem þekur augnlokin.
Baugar geta einnig stafað af því að neðri augnlokin þrútna. Þegar legið er, einkum á grúfu, veldur þyngdarkrafturinn því að vökvi safnast fyrir í neðri augnlokunum og þá geta myndast dökkir hringir undir augunum.
Ef baugarnir eru pokar fremur en hringir má rekja það til vökvasöfnunar í lausri húð eða fituútfellingum en vökvi safnast fyrir í líkaminn ef maður borðar saltan mat eða er þreyttur.
Oftast eru pokar eða dökkir hringir undir augunum arfgengir. Pokarnir virðast verri hjá þeim sem eru með ofnæmi eða reykja. Nauðsynlegt er að sýna varkárni gagnvart snyrti- eða húðvörum sem á að bera á andlitið eða nálægt augunum. Sumir eru til dæmis með ofnæmi fyrir litarefni í svörtum maskara.
Til þess að losna við bauga eða poka undir augum er mikilvægt að fá nægan svefn, varast sterkt sólarljós, forðast mikla saltneyslu og streitu og hætta að reykja ef viðkomandi reykir. Þessi ráð eru ekki eingöngu góð fyrir augun heldur heilsuna almennt.
Einnig getur verið gott að setja kalda bakstra á augun, til dæmis að dýfa bómullarhnoðra í fíkjusafa, rósavatn eða kalda mjólk, leggjast niður með hærra undur fótum en höfuði, setja hnoðrana á lokuð augun og liggja kyrr í 10 mínútur. Sömuleiðis mætti nota gúrkusneiðar eða hráar kartöflusneiðar á sama hátt eða nudda varlega saffran- eða möndluolíu á augnsvæðið fyrir svefninn.
Sért þú sá eini í ætt þinni sem er með poka undir augunum eru erfðir líklega ekki ástæða þeirra. Þá gæti borgað sig að ráðfæra sig við lækni til að komast að öðrum mögulegum orsökum. Það gæti jafnvel verið ráðlegt að leita til ónæmissérfræðings sem finnur ofnæmisvald ef hann er fyrir hendi og ráðleggur þá meðferð.
Hvort sem þú hefur erft bauga eða poka undir augun eða þjáist bara af þreytu er oftast hægt að fela baugana með viðeigandi snyrtivörum. Þó ber að fara varlega í því efni ef um ofnæmi er að ræða.”