Þannig er mál með vexti að um þarsíðustu helgi og helgina þar á undan var ég á snjóbretti uppi í Bláfjöllum og allt í góðu með það.
En á síðasta mánudag (fyrir rúmri viku) finn ég fyrir stingandi verk í báðum hnjánum. Ég fann fyrir verk þegar ég gekk og þegar ég hljóp. Á þriðjudaginn sleppti ég fótbolta æfingu út af verknum. Og svo á fimmtudaginn var hlaupaæfing með fótboltahópnum. Ég var með smá verk þá, en ég harkaði það af mér. Það voru tveir 4km hringir í Vesturbænum á malbiki, en eftir einn hring (sem sagt 4 km) finnst mér eins og hnén snarbólgni, ég finn stingandi verk og get ekki hlaupið lengra.
Ég hvíldi mig yfir helgina og hélt að ég væri orðinn betri.
Og svo í gær fer ég á fótboltaæfingu þar sem við byrjum á að hita upp. Fyrst finn ég ekkert til, en svo með tímanum byrjar verkurinn að vaxa. Við gerðum alls kyns hoppæfingar og ég gjörsamlega gat ekki hoppað út af verk. Þá settist ég niður og gat ekki verið með á æfingunni.
Veit einhver hvað þetta gæti verið og hvernig get ég tekið á þessu? Hvað á ég að gera?