Þol, eins og aðrar gerðir líkamshreysti, er sérhæft fyrir þá þjálfun sem gerð er þó hún sé ekki eins sérhæfð og styrkþjálfun. Þ.e. hlaupaþjálfun eykur þol manns við t.d. hjólreiðar meira en bekkpressa eykur fótastyrk.
Þoli má skipta í þrjár megingerðir:
- Loftháð þol (aerobic endurance)
- Loftfirrt þol (anaerobic endurance)
- Vöðvaþol (local muscle endurance)
Loftháð þol er það sem oftast er talað um þegar rætt er um þol. Það verður best þjálfað með tiltölulega löngum lotum (15 mín+) undir miðlungsálagi (70-90%). Dæmi um slíkt væru hlaup, sund, hjólreiðar, róður, fjallganga, skíðaganga og fleira af því tagi. Loftháð þol er mjög tengt hámarksafköstum lungna og æðakerfis, en lág líkamsþyngd hefur mikil áhrif, svo og orkueyðsla.
Loftfirrt þol er stundum kallað sprettþol. Það er hægt að þjálfa með stuttum sprettum og meira að segja lyftingum eins og DamonFurnier benti á. Sprettþol kemur við sögu þegar álag er hátt (~90%) í tiltölulega skamman tíma (10 sek til 2 mín). Fyrir marga íþróttamenn er það sprettþolið sem skortir (og gagnast best) en ekki loftháða þolið. Hér áður fyrr æfðu t.d. fótbolta- og handboltamenn alltof mikil langhlaup miðað við kröfur íþróttarinnar en það hefur mikið breyst með aukinni menntun þjálfara.
Vöðvaþol er hæfileikinn til að framkvæma þunga hreyfingu oft. Vöðvaþolið er sérhæft fyrir hverja hreyfingu og verður því að þjálfast sérstaklega með kröfur íþróttarinnar í huga. Hins vegar verður líka að líta svo á að “þol” við ákveðna hreyfingu er mjög nátengt styrk sömu hreyfingar. Sá sem tekur td 100 kíló í bekkpressu getur örugglega lyft 20 kílóum mun oftar en sá sem tekur 40 kíló að hámarki. Því þarf að þjálfa líka hámarksstyrkinn ef þörf er á þoli við ákveðna hreyfingu.