Sælir hugarar.
Ég hef ávallt verið ósköp eðlileg stúlka. En núna, eftir 15 ára afmælið mitt, virðist allt vera að fara til fjandans. Ég hef greinst með þunglyndi, ofsakvíða, hættulega lágan blóðþrýsting, sljóan púls, næringarskort og þjáist af hvimleiðum húðsjúkdómi. Svo núna er ég farin að fitna í þokkabót. Ekkert hættulegt samt, er 170 cm. og 60 kg.
Ég er í rauninni komin með alveg upp í kok af þessu líkamsástandi mínu. Ég get ekki stigið út úr rúminu án þess að fá aðsvif. Ég blæs eins og físibelgur um leið og ég byrja að hreyfa mig. Ég hef misst allan vöðvamassann, og bæti á mig fitu í staðinn. Húðin er orðin verri. Allt er orðið verra. Getiði gefið mér einhver ráð til að lagfæra þennan lífstíl minn, og ráð til að bæta líðan? Án þess að fara of geyst samt, ég á það nefnilega til að vilja sjá allan árangur í einu!
Ég er ekki að fara fram á það við sjálfa mig að grennast, heldur bara að bæta líðanina, bæði líkamlega og andlega.
Hvernig get ég farið mér hægt í leiðina til árangurs, án þess að missa alla þolinmæði?