“Í þeim fáu rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið á óæskilegum áhrifum kreatíns hafa niðurstöður verið á þá leið að hugsanlega séu tengsl milli neyslu á kreatíni og vöðvakrampa, þurrkandi áhrifa á líkamann, trosnuðum eða rifnum vöðvum, óþægindum í meltingarvegi, svima og minni líkamsframleiðslu á kreatíni. Ennfremur hefur Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA), sem skráir kvartanir neytenda á fæðubótarefnum í gagnabanka, skráð tilfelli þar sem neysla á kreatíni hafði truflandi áhrif á hjartslátt neytenda. Ekki er ljóst hvers vegna einstaklingar hafa orðið fyrir hjartsláttatruflunum við neyslu á kreatíni en líklega draga frumur í hjartavöðva til sín umframmagn af vatnssameindum (líkt og aðrar vöðvafrumur) og hugsanlegt er að það hafi þessar afleiðingar. Önnur skýringin er e.t.v. sú að hreyfing vatnssameinda geti leitt til of lágs blóðþrýstings (minna vatn í blóðvökva) og þar af leiðandi einhvers konar hjartatruflana þó svo að í flestum tilfellum myndi líkaminn leiðrétta strax þetta misræmi. Hafa ber í huga í þessu samhengi að margar af þeim vörum sem kreatínið var í innihéldu líka önnur efni.”