Breskt fyrirtæki vinnur nú að hönnun salernisskálar framtíðarinnar, að því er greint er frá á fréttavef BBC. Á þessi skál að geta fylgst með úrganginum úr fólki og komið auga á hugsanleg veikindi. Um leið og skálin verður vör við einhverjar vísbendingar um kvilla hefur hún samband við heimilislækni með aðstoð tölvu.
Þessi nýja tækni nefnist Versatile Interactive Pan, eða VIP, og er það hreinlætistækjaframleiðandinn Twyford sem hefur þróað hana. Setan á skálinni nýju er aukinheldur raddstýrð og skolun er sjálfvirk. Segir fyrirtækið um að ræða “meiriháttar framfarir” í salernisskálatækni.
Enn er ekki hafin framleiðsla á VIP-salernisskálinni, en Twyford reiknar með að hún geti komið á markað innan fimm ára. Talsmaður fyrirtækisins sagði: “Þetta eru meiriháttar framfarir hjá okkur.
Salernisskálar hafa ekki breyst mikið síðan þær voru fundnar upp af Thomas Twyford fyrir 120 árum.”
Hugmyndin er að skálin nýja rannsaki þvag og hægðir, ekki einungis í leit að vísbendingum um veikindi, heldur einnig til að greina mataræði. Talsmaður Twyford sagði ennfremur: “Ef til dæmis lítið fer fyrir grófmeti hjá einhverjum einn daginn þá sendir VIP pöntun á baunum eða belgjurtum til næsta matvörumarkaðar, og vörurnar verða afhentar samdægurs.”
Just ask yourself: WWCD!